| Heimir Eyvindarson

Nígeríska landsliðið vill fá Ibe

Jordon Ibe hefur spilað með flestum yngri landsliðum Englands, en þar sem faðir hans er frá Nígeríu getur hann enn kosið að leika fremur með A-landsliði Nígeríu en því enska. 

Jordon Ibe hefur vakið mikla athygli á síðustu vikum, eða eftir að hann kom til baka úr lánsdvöl sinni hjá Derby County í janúar. Þessi 19 ára gamli drengur hefur leikið mjög vel fyrir Liverpool í undanförnum leikjum og þykir eitt mesta efni sem fram hefur komið lengi á Englandi. 

Hæfileikar Ibe eru þó ekki nýjar fréttir fyrir enska knattspyrnusambandið því hann hefur leikið með U-18, U-19 og U-20 landsliðum Englendinga og verður nánast örugglega með í U-21 árs landsliði enskra á EM í sumar. Það er að segja ef hann verður ekki búinn að skipta um landslið.

Liverpool Echo segir að nígeríska knattspyrnusambandið fylgist grannt með Ibe og ætli sér að setja sig í samband við hann á allra næstu dögum til að freista þess að sannfæra hann um að leggja ljónin þrjú til hliðar og klæðast frekar grænum landsliðsbúningi Nígeríu.  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan