| Sf. Gutt

Naumt brottfall í framlengingu

Naumara gat það varla verið. Liverpool féll úr Deildarbikarnum 1:0 í framlengingu á Stamford Bridge. Leikmenn Liverpool stóðu sig frábærlega í leikjunum tveimur og féllu með sæmd. Þegar upp var staðið má segja að markmaður Chelsea hafi komið liðinu áfram.

Brendan Rodgers breytti liðinu sínu frá leiknum á móti Bolton um helgina og tefldi fram sama liði og í fyrri undanúrslitalieknum fyrir viku. Mikill kraftur var í báðum liðum frá upphafi og mikill hraði var í leiknum. Á 12. mínútu hefði átt að fækka í liði heimamanna þegar Diego Costa tróð á Emra Can úti við hliðarlínu nærri miðjulínunni. Það var varla hægt annað en að furða sig á því að hann skyldi ekki fá rautt.

Þremur mínútum síðar slapp Raheem Sterling upp að vítateig Chelsea. Hann reyndi að gefa á Steven Gerrard sem var frír en varnarmaður náði að bjarga því að svo varð. Á 23. mínútu vildu heimamenn fá vítaspyrnu eftir að Martin Skrtel felldi Diego og höfðu þeir mikið til síns máls. En Diego hefði auðvitað ekki átt að vera inni á vellinum!  

Litlu síðar sendi Steven frábæra sendingu til vinstri á Alberto Moreno en Thibaut Courtois varði meistaralega með úthlaupi. Á 30. mínútu stakk Philippe Coutinho sér í gegnum vörn Chelsea en Thibaut varði ótrúlega með öðrum fætinum eins og handboltamarkmaður. Ekkert hafði verið skorað í leikhléi og Chelsea ekki átt eitt einasta skot á rammann!

Heimamenn hertu sig í síðari hálfleik en Liverpool hafði haft undirtökin í þeim fyrri. Það var þó allt í járnum en á 60. mínútu náði Eden Hazard boltanum, lék framhjá fjórum leikmönnum en skot hans fór sem betur fer rétt framhjá. Rétt á eftir hrökk boltinn af varnarmanni fyrir fætur Diego. Fast skot hans breytti um stefnu af varnarmanni en Simon Mignolet varði meistaralega með öðrum fæti sínum. Þetta var fyrsta skot Chelsea á markrammann í báðum leikjum ef vítið í fyrri leiknum er undan skilið.  Liverpool æddi í sókn og Raheem lagði boltann fyrir fætur Steven en skot hans frá vítateig fór í beint í fangið á Thibaut.

Fimm mínútum seinna komst Diego inn í vítateiginn og var að sleppa framhjá Simon en Belginn tæklaði hann frábærlega og bjargaði. Vel gert hjá Simon sem er farinn að spila mun betur en framan af leiktíð. Litlu síðar vildu heimamenn að Jordan Henderson yrði rekinn af velli eftir að hann handlék boltann en hann var kominn með gult. Dómarinn lét kyrrt liggja eins og með Diego fyrr í leiknum. Diego tróð reyndar á Martin í síðari hálfleik og það hefði verið hægt að reka hann tvisvar út af! En eftir 90 mínútur hafði ekkert mark verið skorað og því varð að framlengja.   

Chelsea náði forystu á fjórðu mínútu framlengingar. Willian gaf aukaspyrnu fyrir markið og Branislav Ivanovic átti auðvelt með að skalla óvaldaður í markið. Helst hefði Mario Balotelli átt að dekka hann en hann lét Serbann sleppa. Besta færi Liverpool í framlengingunni kom á 100. mínútu. Raheem kom sér í fyrirgjafastöðu af harðfylgi og sendi fyrir frá vinstri. Jordan henti sér fram en náði ekki að hitta markið og skalli hans fór framhjá. Leikmenn Liverpool reyndu allt til að jafna en það gekk ekki og því miður endaði draumurinn um sæti á Wembley í kvöld. Brendan Rodgers og stuðningsmenn Liverpool geta þó verið stoltir af liðinu sínu! En eins og svo oft á leiktíðinni varð það Liverpool að falli að nýta ekki góð færi sem vissulega gáfust í báðum leikjunum.  

Chelsea: Courtois, Ivanovic, Zouma, Terry, Luis (Azpilicueta 78. mín.), Fabregas (Ramires 50. mín.), Matic, Willian (Drogba 119. mín.), Oscar, Hazard og Costa. Ónotaðir varamenn: Cech, Ake, Drogba, Remy og Cahill.

Mark Chelsea: Branislav Ivanovic (94. mín.)

Gul spjöld: John Terry, Branislav Ivanovic, Diego Costa og Oscar.

Liverpool: Mignolet, Can, Skrtel, Sakho (Johnson 57. mín.), Markovic (Balotelli 70. mín.), Henderson, Leiva, Moreno (Lambert 105), Coutinho, Gerrard og Sterling. Ónotaðir varamenn: Ward, Lovren, Lallana og Allen.

Gul spjöld: Jordan Henderson, Lucas Leiva, Steven Gerrard, Emre Can og Martin Skrtel.

Áhorfendur á Stamford Bridge: 40.659.

Maður leiksins: Lucas Leiva. Allir leikmenn Liverpool, sem hófu leikinn, stóðu sig frábærlega og væri hægt að velja marga. Lucas, sem hefur verið frábær síðustu vikurnar, var óþreytandi á miðjunni og barðist eins og ljón.  

Brendan Rodgers: Mér fannst við eiga fullt af færum eins og þau sem Raheem Sterling, Philippe Coutinho fengu. Ef maður skoðar allt ofan í kjölinn þá réði markvörður þeirra baggamuninn í leikjunum tveimur og kom þeir áfram. Hann er markmaður í heimsklassa. Við lékum tæknilega mjög vel og við pressuðum þá vel. Við áttum okkar færi og komum þeim í vandræði. Við vorum betra liðið í þessum tveimur leikjum.  

Fróðleikur

- Liverpool náði ekki að bæta við átta Deildarbikarsigra sína.

- Steven Gerrard lék sinn síðasta Deildarbikarleik fyrir Liverpool. 

- Þetta var 39. leikur hans á móti Chelsea. Hann hefur ekki oftar spilað á móti öðru liði.

- Glen Johnson hefur unnið Deildarbikarinn með bæði Liverpool og Chelsea.  

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan