| Grétar Magnússon

Flottur sigur

Síðasti leikur ársins endaði vel hjá Liverpool þegar 4-1 sigur vannst á Swansea á Anfield.

Rodgers gerði fjórar breytingar frá leiknum við Burnley. Þeir Kolo Toure, Brad Jones, Steven Gerrard og Lazar Markovic viku fyrir Emre Can, Simon Mignolet, Alberto Moreno og Javier Manquillo. Brad Jones var alveg frá vegna meiðsla en hinir þrír settust á bekkinn.

Leikurinn hófst á rólegu nótunum en heimamenn voru þó ívið beittari í sínum aðgerðum. Martin Skrtel náði skalla að marki eftir hornspyrnu en Fabianski í markinu átti ekki í teljandi vandræðum með að verja. Adam Lallana hefði svo átt að hitta markið ekki svo löngu síðar þegar hann náði frákasti eftir að Fabianski hafði varið skot Sterling, en skot Lallana fór vel yfir markið.

Bæði lið héldu áfram að reyna, Coutinho átti skot að marki sem Fabianski sló í burtu og hinumegin átti Dyer skalla sem Mignolet greip auðveldlega. Bony átti svo skottilraun að marki fyrir utan teig en boltinn fór himinhátt yfir.

Á 33. mínútu kom svo fyrsta mark leiksins. Sakho sendi góða sendingu fram vinstri kantinn á Moreno sem átti gott hlaup inná miðjan völlinn. Hann sendi boltann til Lallana sem var rétt fyrir utan vítateiginn. Lallana átti svo frábæra sendingu innfyrir vörnina hægra megin þar sem Henderson kom askvaðandi, fyrirliði kvöldsins sendi boltann beint fyrir markið þar sem Moreno var mættur. Skot Spánverjans var ekki gott en nógu fast til að Fabianski kæmi engum vörnum við. Gott mark eftir vel útfærða sókn og heimamenn komnir yfir. Rétt fyrir hálfleik átti svo Coutinho gott skot úr þröngu færi vinstra megin í teignum en skotið var vel varið. Staðan var því 1-0 í hálfleik.

Ekki var mikið búið af seinni hálfleik þegar staðan var orðin 2-0 og markið var af ódýrari gerðinni. Góð pressa hjá Sterling lét varnarmann Swansea senda boltann aftur til markvarðarins. Hann tók sér aðeins of langan tíma og ætlaði að senda boltann út til hægri en tókst ekki betur til en svo að sendingin hafnaði í Lallana sem var mættur í pressuna og boltinn fór í fallegum boga beint í markið. Staðan orðin 2-0 og allt leit vel út.

Þetta mark varð þó til þess að Swansea vöknuðu til lífsins og þeir voru ekki nema rétt rúma mínútu að minnka muninn. Boltinn barst fyrir markið frá hægri þar sem Can náði ekki að skalla frá, leikmaður Swansea náði boltanum og sendi aftur inná teiginn þar sem Sakho vann skallaeinvígi við Bony en það fór þó ekki betur en svo að hann skallaði boltann beint fyrir markið þar sem Gylfi Sigurðsson kom aðvífandi og setti boltann í markið. Ekki var öll hætta úti enn því heimamenn tóku miðju, misstu boltann rakleiðis til Bony sem þrumaði að marki og Mignolet varði vel. Boltinn barst út í teiginn þar sem Can mátti hafa sig allan við til að vera á undan leikmanni gestanna í boltann. Ekki skapaðist frekari hætta eftir þetta uppvið markið og heimamenn náðu völdunum aftur.

Á 61. mínútu var leikurinn svo gott sem kláraður með fallegu marki. Coutinho fékk sendingu á miðjum vallarhelmingi Swansea og sendi boltann aftur fyrir sig með hælnum til Lallana. Hann var kominn í góða stöðu og Sterling tók hlaupið í eina áttina og gerði það Lallana auðveldara með að leika vinstra megin inní teiginn og senda boltann örugglega í fjær hornið. Glæsilegt mark og því var vel fagnað.

Átta mínútum síðar var svo síðasti naglinn rekinn í kistu gestanna þegar hornspyrna Henderson hafnaði í markinu með viðkomu af skallanum á Jonjo Shelvey. Undir lok leiks fengu svo þeir Markovic, Balotelli og Borini að spila nokkrar mínútur og komst Balotelli næst því að bæta við marki fyrir heimamenn en Fabianski var vel á verði í markinu. Bafetimbi Gomis komst næst því hjá gestunum að minnka muninn en skot hans af vítateigslínunni fór í samskeytin.

Öruggum sigri var því siglt í höfn og árinu lokað með stæl.

Liverpool: Mignolet, Sakho, Skrtel, Can, Moreno, Manquillo, Lucas, Henderson, Coutinho (Borini, 90. mín.), Lallana (Markovic, 77. mín.), Sterling (83. mín.). Ónotaðir varamenn: Ward, Toure, Gerrard, Lambert.

Mörk Liverpool: Moreno (33. mín.), Lallana (51. og 61. mín.) og sjálfsmark (69. mín.).

Gult spjald: Skrtel.

Swansea: Fabianski, Richards (Rangel, 45. mín.), Fernández, Williams, Taylor, Britton (Ki, 67. mín.), Shelvey, Dyer, Sigurðsson, Routledge, Bony (Gomis, 62. mín.). Ónotaðir varamenn: Tremmel, Bartley, Carroll, Emnes.

Mark Swansea: Gylfi Sigurðsson (52. mín.).

Áhorfendur á Anfield: 44.714.

Maður leiksins: Adam Lallana. Englendingurinn er farinn að sýna sitt rétta andlit eins og reyndar margir leikmenn liðsins að undanförnu. En baráttugleði hans í leiknum var mikil og uppskar hann t.d. eitt mark vegna þess, seinna mark hans var svo glæsilegt í alla staði.

Brendan Rodgers: ,,Síðustu tvær eða þrjár vikurnar hefur frammistaða liðsins verið í ætt við það sem við viljum og eitthvað líkt því sem við höfum sýnt undanfarna 18 mánuði. Í kvöld mættum við til leiks af miklum krafti og vinnusemi og við uppskárum eftir því. Sköpunargleðin var einnig mikil í kvöld en aftar á vellinum var öflugur grunnur sem er nauðsynlegur til þess að við náum þeim úrslitum sem við þurfum að ná."

Fróðleikur:

- Liverpool skoraði í fyrsta sinn á leiktíðinni 4 mörk í leik.

- Alberto Moreno skoraði í annað sinn á leiktíðinni.

- Adam Lallana hefur nú skorað alls fjögur mörk á leiktíðinni, öll í deildinni.

- Þetta var 120. deildarleikur Jordan Henderson fyrir félagið.

Hér má sjá myndir úr leiknum.

Hér er viðtal við Brendan Rodgers sem tekið var eftir leikinn. 








TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan