| Sf. Gutt

Brendan býst við erfiðum leik


Jólatörnin heldur áfram annað kvöld þegar Liverpool tekur á móti Swansea á Anfield. Brendan Rodgers sem þekkir skiljanlega vel til mótherja Liverpool á von á erfiðum leik. Hann hafði meðal annars þetta að segja á blaðamannafundi þar sem rætt var um leikinn. 

,,Við spiluðum mjög vel á móti þeim í bikarleik á heimavelli fyrr á leiktíðinni. Við vitum að leikurinn verður erfiður en við höfum verið að spila æ betur. Andinn í liðinu er mjög góður og það sama má segja um hugarfar leikmanna. Það eru margir leikir á dagskránni núna og þetta er því virkilega erfiður tími. En við stefnum að því að spila nógu vel til að ná þremur stigum."


Sem fyrr segir þá þekkir Brendan Rodgers Svanina mjög vel enda bara tvö og hálft ár frá því hann yfirgaf félagið og tók við Liverpool. Á blaðamannafundinum bárust þeir Gylfi Þór Sigurðsson og Wilfried Bony, sem hafa skorað og lagt upp flest mörk Swansea, í tal. Brendan hafði þetta að segja um þá félaga.


,,Gylfi er ungur leikmaður sem ég gaf tækifæri þegar ég var framkvæmdastjóri Reading. Svo fékk ég hann sem lánsmann til Swansea þegar ég var framkvæmdastjóri þar. Hann spilaði mjög vel fyrir mig, þegar við vorum saman í Úrvalsdeildinni, frá því í janúar og til loka leiktíðarinnar. Honum er eiginlegt að skora mörk eins og við höfum séð hann gera með landsliðinu sínu. Samvinna þeirra Bony og Sigurðssonar er með því besta í deildinni. Þeir ná mjög vel saman og báðir eru marksæknir. Bony er sterkur og kraftmikill og hann skorar mörk."

Þetta eru nokkuð athyglisverð orð. Það er jú vitað að Brendan Rodgers hafði hug á að kaupa Gylfa Þór sumarið sem hann tók við Liverpool. Wilfried Bony var orðaður við Liverpool núna í sumar og ljóst er að Brendan hefur álit á honum. Landi okkar valdi þó að fara til Tottenham þegar Brendan vildi fá hann og ekkert varð úr að Wilfried kæmi til Liverpool. 

Aðalatriðið er þó að Liverpool vinni Swansea og nái að enda árið með þremur stigum. Alltof fá stig eru komin í hús það sem af er leiktíðar og nú er að ná í þrjú þau síðustu sem hægt er að fá!
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan