| Heimir Eyvindarson

Allt of stórt tap á Old Trafford.

Liverpool mætti erkifjendunum í Manchester United á Old Trafford í dag. Þrátt fyrir frísklegan leik af hálfu okkar manna varð niðurstaðan 3-0 sigur Rauðu djöflanna. 

Stóru fréttirnar í sambandi við liðsuppstillingu Brendan Rodgers voru þær að Brad Jones byrjaði leikinn í markinu, á kostnað Simon Mignolet, sem hefur átt erfitt uppdráttar í vetur. Raheem Sterling byrjaði leikinn uppi á topp og Balotelli kom inn í hópinn, eftir fjarveru vegna meiðsla. Það vakti einnig athygli að Lucas Leiva sem hefur verið einn besti leikmaður Liverpool í undanförnum leikjum fékk ekki náð fyrir augum stjórans í dag og varð að gera sér að góðu að tylla sér á tréverkið enn eina ferðina. 

Liverpool stillti upp þriggja manna vörn í dag, sem kom talsvert á óvart. Johnson, Skrtel og Lovren í miðverðinum og Moreno og Henderson á köntunum.

Liverpool byrjaði leikinn af miklum krafti og fyrstu mínúturnar var pressan og eldmóðurinn líkur því sem einkenndi liðið á síðustu leiktíð. Á 12. mínútu átti Raheem Sterling að skora þegar hann komst einn inn fyrir vörn united eftir frábæra sendingu frá Lallana. De Gea varði frekar slappt skot Sterling án teljandi vandræða. Örfáum andartökum síðar var United komið yfir, þvert gegn gangi leiksins. Valencia fór þá í gegnum Allen og Moreno eins og ekkert væri og renndi boltanum á Wayne Rooney sem kom aleinn hlaupandi inn í teiginn, af því að Coutinho nennti ekki að elta hann. Rooney afgreiddi boltann í rólegheitum í markið hjá Brad Jones sem seldi sig algjörlega. Fyrsta verk Jones í leiknum var því að hirða boltann úr netinu. 

Á 23. mínútu kom Sterling sér aftur í gott færi, en aftur varði DeGea skot hans.

Á 26. mínútu kom Kolo Toure inn á fyrir meiddan Glen Johnson. 

Á 34. mínútu átti Gerrard frábæra sendingu á Moreno sem stakk sér inn fyrir Valencia við vítateigshornið. Móttaka Spánverjans var ekki nógu góð og ekkert varð úr færinu. 

Á 40. mínútu gerði United síðan út um leikinn, með góðri hjálp frá Martin Atkinson og aðstoðardómurum hans. Ashley Young átti sendingu inn í teiginn, Van Persie skallaði boltann áfram á kolrangstæðan Mata sem skallaði boltann framhjá varnarlausum Brad Jones í markinu. Staðan 2-0 á Old Trafford og útlitið svart fyrir okkar menn. 

Fleira markvert gerðist í raun ekki í fyrri hálfleiknum og staðan 2-0 í leikhléi, ósanngjörn staða miðað við gang leiksins. 

Brendan Rodgers gerði eina breytingu í hálfleik. Mario Balotelli kom inná fyrir Adam Lallana, sem hafði verið frískur í fyrri hálfleiknum. 

Á 47. mínútu fékk Henderson frían skalla en setti boltann hátt yfir. Á 50 mínútu fékk Sterling svo enn eitt færið og nú það allra besta í leiknum. Johnny Evans átti vonda sendingu til baka á DeGea, sem Sterling komst inn í, hann sólaði Spanverjann en beið of lengi með að smella boltanum í netið og enn einu sinni varði DeGea frá honum. Illa farið með gott færi.

Á 63. mínútu var Van Persie nálægt því að koma United í 3-0, en skot hans fór rétt framhjá. Tveimur mínútum síðar varði DeGea enn einu sinni glæsilega frá okkar mönnum. Að þessu sinni frá Balotelli sem átti gott skot eftir undirbúning Coutinho og Sterling. Spánverjinn varði boltann glæsilega í slána. 

Á 68. mínútu gerði Rodgers síðustu skiptinguna, þegar Markovic kom inná fyrir Moreno. 

Á 72. mínútu kom síðasti naglinn í líkkistu Liverpool í dag. Skyndisókn United endaði með sendingu Rooney inn í teiginn. Þar fékk Lovren boltann í fæturna og ákvað að renna honum beint út á Mata sem renndi honum á Van Persie inni á markteig. Hollendingurinn átti ekki í nokkrum vandræðum með að renna boltanum í netið. Staðan 3-0 á Old Trafford.

Á 82. mínútu átti Balotelli ágætt skot en DeGea varði vel, enn einu sinni. Tveimur mínútum síðar átti Ítalinn fínt skot rétt framhjá af 35 metra færi. Nokkrum sekúndum síðar fékk hann svo besta færi sitt í leiknum eftir góða sendingu frá Markovic inn fyrir vörnina, en DeGea varði frábærlega. Magnaður lekur hjá Spánverjanum í dag. Átta skot varin, mörg úr dauðafærum.

Á 87. mínútu varði Jones ágætt skot frá Van Persie, eftir vandræðagang Kolo Toure. 

Niðurstaðan í rigningunni á Old Trafford í dag slæmt 3-0 tap fyrir erkióvinum okkar í Manchester United. Alls ekki versti leikur Liverpool á tímabilinu, en sjálfstraustið og heppnin ekki í liði með Liverpool. 

Liverpool: Jones, Johnson (Toure á 26. mín.), Skrtel, Lovren, Moreno (Markovic á 68. mín.), Gerrard, Lallana (Balotelli á 46. mín.), Henderson, Allen, Coutinho, Sterling. Ónotaðir varamenn: Mignolet, Lucas, Lambert,Can. 

Gul spjöld: Allen, Gerrard, Balotelli

Manchester United: DeGea, Valencia, Jones (McNair á 88. mín.), Evans, Young, Carrick, Mata, Fellaini, Wilson (Herrera á 71. mín.), Van Persie, Rooney (Falcao á 77. mín.). Ónotaðir varamenn: Lindegaard, Fletcher, Junuzaj, Blackett.

Mörk Manchester United: Rooney á 13. mín, Mata á 40. mín., Van Persie á 72. mín. 

Gul spjöld: Fellaini, Jones, Evans, Rooney

Áhorfendur á Old Trafford: 

Maður leiksins: Ég get engan veginn fundið mann leiksins í dag. Lallana var einn besti maðurinn í fyrri hálfleik, en honum var skipt út af af illskiljanlegum ástæðum. Sterling var frískur, en fór allt of illa með færin til þess að geta fengið einhver verðlaun. Þá var Coutinho sömuleiðis skapandi, en eins og venjulega vann hann sama og ekkert til baka. 

Brendan Rodgers: Þetta var svekkjandi tap. Við gerðum of mörg mistök í dag, en það jákvæða er að við sköpuðum mörg færi. Við höfum ekki gert mikið af því í vetur þannig að það er ljósið í myrkrinu í dag. 

Fróðleikur:

-Raheem Sterling lék í dag sinn 100. leik fyrir Liverpool. Þess má geta að Michael Owen var næstum nákvæmlega jafngamall Sterling (átta dögum yngri) þegar hann lék sinn 100. leik fyrir Liverpool á haustmánuðum 1999. 

-Brad Jones hafði fyrir leikinn í dag verið ónotaður varamaður í 98 leikjum hjá Liverpool, sem er félagsmet. Hann var síðast í byrjunarliði í Úrvalsdeildarleik í mars 2013, þegar Liverpool mætti fyrrum félögum hans í Southampton.

-Leikurinn í dag var 45. viðureign Liverpool og Manchester United í Úrvalsdeildinni. Liverpool hefur einungis unnið 13 af þessum viðureignum, United vann í 24. sinn í dag og átta sinnum hafa liðin skilið jöfn.

-Liverpool hefur einungis unnið 16 af 82 leikjum á Old Trafford, síðustu 118 árin.

-Þetta var í fyrsta sinn í 13 deildarleikjum í röð sem United tekst að halda hreinu gegn Liverpool. Síðast mistókst Liverpool að skora gegn United í mars 2008.

Hér má sjá myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com

Hér má sjá viðbrögð Brendan Rodgers við tapinu í dag. Viðtalið er tekið af Liverpoolfc.com   
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan