| Grétar Magnússon

Enn eitt tapið

Liverpool menn máttu sætta sig við fjórða tapleikinn í röð er liðið heimsótti Crystal Palace, sem fyrir leikinn voru í fallsæti. Liðið er andlaust og brotnar við minnsta mótlæti.

Brendan Rodgers var án þeirra Jordan Henderson og Mario Balotelli sem ekki gátu leikið með vegna veikinda og meiðsla. Rickie Lambert byrjaði leikinn í sókninni og hann var ekki lengi að koma sér á blað í þessum leik. Hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið eftir aðeins eina og hálfa mínútu. Góð sending frá Lallana innfyrir vörnina sendi Lambert einan inná miðjan vítateig þar sem hann kom boltanum fyrir sig og setti hann í markið. Frábær byrjun.

En svo hófst kunnuglegt leikrit. Heimamenn sóttu í sig veðrið og voru grimmari á öllum sviðum. Fimmtán mínútum eftir að gestirnir komust yfir var búið að jafna og þar var að verki Dwight Gayle en hann var fyrstur til að átta sig eftir að skot Bolasie hafnaði í stönginni. Leikmenn Liverpool voru eins og við var að búast slegnir eftir þetta en það ætti nú ekki að koma þeim lengur á óvart að fá á sig mark, það sem er hinsvegar meira áhyggjuefni er að liðið virðist algjörlega missa allt sjálfstraust við þetta. Einhver hálffæri litu dagsins ljós eftir aukaspyrnur Gerrard inní vítateiginn en heimamenn voru hættulegri  það sem eftir lifði hálfleiks. Bolasie átti gott skot sem Mignolet mátti hafa sig allan við að verja og ekki löngu síðar komst Manquillo fyrir skot hans sem hefði að öllum líkindum hafnað í netinu.

Eftir hlé reyndi fyrirliðinn hvað hann gat með langskotum en Skrtel fékk þó flott færi á fjærstöng snemma í síðari hálfleik en hann hitti boltann illa og Lambert náði ekki að stýra boltanum í markið. Heimamenn vissu sem var að markið myndi koma ef þeir héldu áfram að spila sinn leik og ógnuðu þeir þó mest til að byrja með með langskotum. Besta færi Liverpool í leiknum fyrir utan markið fékk Manquillo en boltinn barst til hans eftir að Coutinho og Sterling léku saman að vítateignum. Skot Spánverjans var hinsvegar slakt og langt framhjá.

Rodgers gerði breytingar, Lallana fór útaf fyrir Borini og Can kom inná fyrir Allen. En á 79. mínútu skoruðu heimamenn, þar var að verki Ledley eftir undirbúning Bolasie, hann var einn og óvaldaður á vítateignum og setti boltann örugglega í markið. Átta mínútum fyrir leikslok skoraði svo Jedinak beint úr aukaspyrnu og þar við sat, lokatölur 3-1.

Crystal Palace: Speroni, Ward, Dann, Delaney (Hangeland, 36. mín.), Kelly, Bolasie (Bannan, 86. mín.), Jedinak, Ledley, Puncheon (McArthur 76. mín.), Gayle, Chamakh. Ónotaðir varamenn: Hennessey, Zaha, Campbell og Johnson.

Mörk Crystal Palace: Dwight Gayle (17. mín.), Joe Ledley (78. mín.) og Mile Jedinak (81. mín.).

Gult spjald: Brede Hangeland (84. mín.).

Liverpool: Mignolet, Manquillo, Skrtel, Lovren, Johnson, Gerrard, Allen (Can, 74. mín.), Coutinho, Lallana (Borini 72. mín.), Sterling, Lambert. Ónotaðir varamenn: Jones, Touré, Moreno, Lucas, Markovic.

Mark Liverpool: Rickie Lambert (2. mín.).

Gul spjöld: Martin Skrtel (53. mín.) og Javier Manquillo (61. mín.).

Áhorfendur á Selhurst Park: 24.682

Maður leiksins: Það er ekki hægt að velja mann leiksins að þessu sinni.

Brendan Rodgers: ,,Þetta eru gríðarleg vonbrigði. Þetta var ekki nærri þeim standard sem við eigum að búa við. Við byrjuðum leikinn eins og maður vill byrja, en ég held að við höfum svo séð lið sem er með lítið sjálfstraust í dag. Við erum ekki saman sem lið, sem er stoltið í okkar leik. Við þurfum að finna lausn fljótt því þetta var virkilega svekkjandi. Það er mín ábyrgð sem stjóra að finna útúr þessu. Ég valdi liðið og stillti því upp, ég vel það lið sem ég held að geti unnið leikinn. Við byrjuðum vel en eins og sjá má eru sendingar okkar ekki góðar og svo gerðum við mistök."

Fróðleikur

- Rickie Lambert skoraði sitt fyrsta mark fyrir Liverpool. 

- Liverpool tapaði fjórða leik sínum í röð.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan