| Heimir Eyvindarson

Kolo getur fært liðinu sjálfstraust

John Aldridge fyrrum leikmaður Liverpool er þeirrar skoðunar að Kolo Toure eigi að vera fastur maður í öftustu línu Liverpool. Hann sé mikill karakter sem geti bætt stemninguna í liðinu. 

Aldridge segir í pistli sínum í Liverpool Echo að það hafi komið sér mjög á óvart að Kolo Toure skyldi ekki byrja leikinn gegn Chelsea á laugardaginn, eftir að hafa sýnt góðan leik í Madrid nokkrum dögum áður.

Gefum Aldridge orðið:

„Vörnin hefur ekki verið sterk í vetur og það hefur ríkt mikið óöryggi meðal öftustu manna. Það kom t.d. eitt slíkt atvik í leiknum gegn Chelsea, rétt í lok fyrri hálfleiks, þar sem ég man varla eftir öðru eins panik ástandi á varnarmönnum Liverpool."

„Það er deginum ljósara að sjálfstraust öftustu manna er afar lítið. Dejan Lovren, sem var keyptur til þess að verða leiðtoginn í vörninni, hefur ekki staðið undir væntingum og það er greinilegt að það er eitthvað að. Lovren varð ekki lélegur varnarmaður bara við það að flytja til Liverpool. Hann er bara rúinn sjálfstrausti. Þetta er ekki sami maðurinn og við keyptum. Ekki ennþá a.m.k." 

„Meðan staðan á Lovren er svona tel ég skynsamlegt að hafa Kolo í byrjunarliðinu. Ég varð mjög hissa þegar ég sá að hann var á bekknum gegn Chelsea. Mér fannst hann einn okkar besti maður á móti Real Madrid og vörnin virkaði ágætlega í þeim leik."

„Kolo er gríðarlega reyndur leikmaður, hefur mikið sjálfstraust og er mikill karakter, innan vallar sem utan. Svoleiðis maður í öftustu víglínu smitar út frá sér og getur fært restinni af vörninni, sem og markmanninum, aukið sjálfstraust. Og sjálfstraust getur hreinlega skipt sköpum í fótbolta. Það vitum við vel."
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan