| Grétar Magnússon

Naumur sigur

Liverpool mörðu 4-3 sigur á sprækum gestum frá Swansea.  Sem fyrr var varnarleikurinn vafasamur á köflum en þrátt fyrir að liðið ætti ekki sinn besta dag náðust mikilvæg 3 stig.


Eins og við var að búast gerði Brendan Rodgers nokkrar breytingar frá bikarleiknum við Arsenal, inn komu þeir Simon Mignolet, Glen Johnson og Jordan Henderson.  Glen Johnson var þarna að spila sinn fyrsta leik frá því í 2-2 jafnteflinu við Aston Villa í janúar.

Það er víst orðin viðtekin venja að skora snemma á Anfield og á því var engin breyting í dag.  Eftir aðeins þrjár mínútur lá boltinn í markinu hjá gestunum.  Raheem Sterling vann boltann á miðjum vallarhelmingi sínum, skeiðaði fram völlinn og sendi hárnákvæma sendingu innfyrir á Sturridge.  Hann var undan markverði Swansea í boltann og eftirleikurinn var auðveldur og Sturridge þar með búinn að skora í 8 deildarleikjum í röð !


Eftir markið náðu gestirnir yfirtökunum á leiknum og voru hættulegri ef eitthvað var þó án þess að skapa sér góð marktækifæri.  Það var því svolítið gegn gangi leiksins er Jordan Henderson skoraði annað mark okkar manna með góðu skoti frá vítateigslínu.  Staðan orðin 2-0 og margir héldu að nú væri öruggur sigur í vændum á Anfield.  En gestirnir voru alls ekki á sama máli og aðeins þrem mínútum eftir mark Henderson skoraði Jonjo Shelvey, fyrrum Liverpoolmaður glæsilegt mark með skoti fyrir utan teig sem fór í slána og inn.  Óverjandi fyrir Mignolet í markinu.


Aðeins fjórum mínútum síðar var staðan orðin jöfn, 2-2.  Ansi ódýr aukaspyrna var dæmd á Skrtel á miðjum vallarhelmingi Liverpool og Slóvakinn fékk að launum gult spjald.  Aukaspyrnan var tekin og Wilfried Bony var einn og óvaldaður á miðjum teignum.  Skallinn hans var hinsvegar lélegur en hann fór í öxlina á Skrtel og þaðan í markið.  Nú var farið að fara um áhorfendur á Anfield enda liðið alls ekki að spila vel og gestirnir til alls líklegir.

Í sóknarleiknum eigum við hinsvegar þá félaga sem í daglegu tali eru nefndir SAS.  Leikmenn Liverpool sóttu fram völlinn og Coutinho sendi boltann út til vinstri á Suarez.  Hann lék aðeins inní teig og sendi hárnákvæma sendingu fyrir markið þar sem Sturridge var einn og óvaldaður á teignum og skallaði boltann í markið.  Nokkuð þungu fargi var þarna létt af mönnum en gott ef ekki enn þyngra hlassi var lyft af öllum tengdum félaginu síðar í leiknum.  Staðan í hálfleik var 3-2 og nú hlyti Brendan Rodgers að skipuleggja sína menn betur í vörninni fyrir síðari hálfleikinn.


Það var hinsvegar ekki langt liðið frá því að dómarinn flautaði til síðari hálfleiks er gestirnir voru búnir að jafna á ný.  Úti á hægri kanti náðu Glen Johnson og Raheem Sterling boltanum en Sterling féll við og leikmaður gestanna náði boltanum og sendi hann fyrir markið.  Þar skallaði Daniel Agger frá en dómarinn dæmdi vítaspyrnu fyrir brot Skrtel á Bony.  Brotið leit nú út fyrir að vera ekki mikið en ákvörðun dómarans stóð.  Bony fór sjálfur á punktinn og skoraði framhjá Mignolet en hann fór þó í rétt horn og var ekki langt frá því að verja.

Á 58. mínútu gerði Rodgers fyrstu breytinguna er Allen kom inná fyrir Sterling, þarna átti klárlega að koma meira skikki á varnarleikinn og Allen átti fínan leik það sem eftir lifði leiks.  Áfram hélt baráttan í leiknum og bæði lið reyndu hvað þau gátu til að ná fjórða markinu.  Heimamenn vildu fá vítaspyrnu er Suarez virtist vera felldur í teignum eftir baráttu við Canas og hinumegin hefðu gestirnir átt að fá aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig er Mignolet kom út, greip boltann en þurfti að sleppa honum þar sem hann var kominn út fyrir vítateig.  Hann lagðist niður og yfir boltann sem rúllaði í aðra höndina.  Ekkert var dæmt og Mignolet kom boltanum frá sér.

Á 74. mínútu brotnaði svo ísinn.  Gerrard sendi langa sendingu fram völlinn á Suarez sem tók boltann niður rétt fyrir utan teig.  Hann skaut að marki og varnarmaður gestanna komst fyrir skotið, boltinn barst beint fyrir fæturna á Henderson sem átti gott hlaup inní teig, Vorm markvörður varði skotið en hélt ekki boltanum og Henderson þrumaði boltanum svo í markið.  Gríðarlegur fögnuður braust út og nú var stóra spurningin sú hvort að mönnum tækist að halda þessu forskoti til leiksloka.


Í stuttu máli sagt hafðist það og voru heimamenn líklegri til að bæta við frekar en hitt, Gerrard þrumaði m.a. í stöngina og út og ekki náðu menn að gera sér mat úr frákastinu.  Andrúmsloftið var magnþrungið á Anfield og ákveðinn létti mátti finna er lokaflaut dómarans gall og 3 mikilvæg stig í húsi.

Liverpool:  Mignolet, Flanagan, Skrtel, Agger (Toure, 63. mín.), Johnson, Gerrard, Coutinho, Henderson, Sterling (Allen, 58. mín.), Suarez og Sturridge (Moses, 79. mín.).  Ónotaðir varamenn: Jones, Cissokho, Teixeira og Aspas.

Mörk Liverpool:  Daniel Sturridge (3. og 36. mín.) og Jordan Henderson (20. og 74. mín.).

Gult spjald:  Martin Skrtel.

Swansea:  Vorm, Taylor, Chico, Williams, Rangel, Britton, Shelvey (Canas, 46. mín.), Dyer (Ngog 78. mín.), Routledge, De Guzman (Pablo, 73. mín.) og Bony.  Ónotaðir varamenn:  Tremmel, Amat, Tiendalli og Emnes.

Mörk Swansea:  Jonjo Shelvey (23. mín.) og Wilfried Bony (27. og víti, 47. mín.).

Áhorfendur á Anfield Road voru: 44.731.
 
Maður leiksins:  Jordan Henderson fær nafnbótina að þessu sinni fyrir að skora markið mikilvæga sem tryggði sigurinn.  Fyrra markið hans í leiknum var líka glæsilegt, frábært skot fyrir utan teig óverjandi fyrir markvörð gestanna.

Brendan Rogders:  ,,Þetta voru frábær þrjú stig fyrir okkur.  Sem fyrr er sóknarleikur okkar mjög góður og við skorum fjögur mörk.  Við vörðumst ekki nærri því eins vel.  En að ná í þrjú stig var ánægjulegt.  Þetta var virkilega góður sigur gegn frábæru liði.  Menn eru orðnir of góðu vanir hér á Anfield ef ég á að vera hreinskilinn.  Venjulega erum við þremur eða fjórum mörkum yfir í hálfleik og fólk segir að leikurinn sé búinn.

Fróðleikur:

- Daniel Sturridge hefur nú skorað í átta deildarleikjum í röð.

- Hann er næstmarkahæstur í deildinni með 18 mörk í 19 leikjum.

- Liverpool hefur skorað flest mörk allra liða í deildinni eða 70 mörk.

- Liðið hefur aldrei í sögu Úrvalsdeildarinnar verið með svo mörg stig á þessum tímapunkti.

- Jordan Henderson hefur skorað þrjú mörk í deildinni og fjögur mörk alls í vetur.

- Henderson og Mignolet eru sem fyrr einu leikmennirnir sem hafa tekið þátt í öllum deildarleikjum vetrarins.

- Tveir fyrrum leikmenn Liverpool, Jonjo Shelvey og David Ngog, voru í liði Swansea.

- Jonjo skoraði í báðum leikjum Swansea og Liverpool á leiktíðinni.

Hér má sjá myndir úr leiknum.

Hér er viðtal við Brendan Rodgers.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan