| Sf. Gutt

Ekki lengra í Deildarbikarnum

Eitt ótrúlega klaufalegt mark olli því að Liverpool fer ekki lengra í Deildarbikarnum á þessari leiktíð. Liverpool tapaði 1:0 fyrir Manchester United á Old Trafford en átti tap varla skilið.

Brendan Rodgers stillti upp sínu besta liði. Luis Suarez kom aftur til leiks eftir leikbannið langa en það verður að telja að hann eigi heima í besta liði Liverpool. Miklar breytingar voru gerðar á liði heimamanna sem voru teknir í gegn í borgarslagnum í Manchester um helgina.
 
Það var að sjálfsögðu hart barist í fyrri hálfleiknum en það gerðist sama og ekkert uppi við mörkin. Heimamenn voru heldur ákveðnari til að byrja með en þegar leið á náði Liverpool undirtökunum og Luis var alltaf að í sókninni. Það var varla hægt að nefna færi fyrir hlé og ekkert mark var nærri því að komast á skrá. Luis komst líklega næst því að skora um miðjan hálfleikinn þegar hann komst framhjá varnarmanni og var einn gegn David De Gea en spænski markmaðurinn var rétt á undan í boltann.

Síðari hálfleikur hófst með ósköpum og boltinn lá í marki Liverpool innan mínútu. Liverpool gaf klaufalega horn og eftir það skoraði Javier Hernandez óvaldaður af stuttu færi. Jose Enrique átti að gæta hans en Spánverjinn gleymdi sér algjörlega. Gremjulega ódýrt mark og sama uppskrift og á móti Southampton um helgina. 

Liverpool lagði þó ekki árar í bát og hafði lengst af undirtökin til leiksloka. Á 54. mínútu fékk Jordan Henderson upplagt skotfæri eftir samspil þeirra Luis Suarez og Daniel Sturridge. En skotið hjá Jordan var algjörlega misheppnað og boltinn fór framhjá. Sem fyrr segir þá hafði Liverpool undirtökin en heimamenn ógnuðu líka af og til. Á 64. mínútu átti Shinji Kagawa skot utan teigs sem strauk þverslána og fór yfir.
 
Á 71. mínútu hefði Victor Moses átt að skora. Hann henti sér þá fram við markteiginn og skallaði að marki en boltinn fór beint á David. Þarna hefði Victor átt að geta skallað framhjá spænska markmanninum. Rétt á eftir fékk Liverpool aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Luis tók hana og boltinn small í þverslá. Líklega bjargaði það marki að Phil Jones náði að strjúka boltann með höfðinu í varnarveggnum. 

Wayne Rooney átti aukaspyrnu hinu megin sem Simon Mignolet sló yfir markið. Eftir hornið átti Wayne hörkuskot en Simon varði aftur með tilþrifum. Liverpool reyndi hvað hægt var til að jafna en það tókst ekki. Litlu munaði að Jordan næði að jafna en óvænt skot hans eftir horn strauk stöngina og fór framhjá.

Það vakti athygli að hvorki Jordan Ibe eða Iago Aspas, sem teljst til sóknarmanna, var sendur inn á. Raheem Sterling kom til leiks en annar hinna hefði að sjálfsögðu átt að vera settur inn á til að reyna að jafna. En þetta eina klaufalega mark sendi Liverpool út úr keppninni sem var hið versta mál. Það var nógu slæmt að það skyldi vera Manchester United sem endaði þessa bikarvegferð en brottfall svona snemma í keppninni fyrir hvaða öðru liði hefði líka verið óþolandi og enn tekst Brendan ekki að koma Liverpool neitt almennilega áleiðis í bikarkeppnunum.

Manchester United: De Gea, Rafael, Smalling, Evans, Buttner, Nani (Welbeck 90. mín.), Jones, Giggs, Kagawa (Januzaj 73. mín.), Rooney og Hernandez (Carrick 73. mín.). Ónotaðir varamenn: Amos, Fabio, Anderson og Zaha.

Mark Manchester United: Javier Hernandez (46. mín.).

Gul spjöld: Ryan Giggs og Phil Jones.

Liverpool: Mignolet, Toure, Skrtel, Sakho, Henderson, Leiva (Kelly 67. mín.), Gerrard, Enrique, Moses (Sterling 82. mín.), Suarez og Sturridge. Ónotaðir varamenn: Jones, Alberto, Aspas, Ibe og Wisdom.

Gul spjöld: Lucas Leiva, Kolo Toure og Jordan Henderson.

Áhorfendur á Old Trafford: 65.701.

Maður leiksins: Luis Suarez. Þessi umdeildi leikmaður mætti sterkur til leiks og var hættulegasti leikmaður Liverpool þrátt fyrir að vera ekki í leikæfingu. Það á örugglega eftir að muna um hann.

Brendan Rodgers: Mér fannst við eiga góðar rispur í leiknum og við komum okkur í góðar stöður. En líklega gekk ekki nógu vel með síðustu sendinguna og að reka endahnút á sóknirnar í kvöld. En ég get ekki kvartað yfir framlagi leikmannanna. 
 
                                                                     Fróðleikur

- Luis Suarez sneri aftur til leiks eftir 10 leikja bann.

- Martin Kelly lék sinn fyrsta aðalliðsleik frá því hann meiddist illa á móti Manchester United fyrir rúmu ári.

- Liverpool hefur nú tapað tveimur leikjum í röð og ekki skorað mark.

- Liverpool hefur enn ekki skorað mark í síðari hálfleik það sem af er leiktíðar.

- Manchester United hefur unnið 10 af síðustu 11 leikjum sínum við Liverpool á Old Trafford.

- Þetta var í annað sinn sem Manchester United vinnur Liverpool í Deildarbikarnum. Liverpool hefur þrívegis haft betur og þar af tvívegis í úrslitum. Fyrst 2:1 á Wembley árið 1983 og svo 2:0 í Cardiff 2003. 

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Liverpool Echo.

Hér er viðtal við Brendan Rodgers sem tekið var eftir leik.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan