| Sf. Gutt

Stephen Darby kominn í bikarúrslit!

Bikarævintýri Bradford City hefur ekki farið framhjá neinum sem fylgist með ensku knattspyrnunni. Í gærkvöldi komst liðið í úrslitaleik Deildarbikarsins eftir að hafa slegið Aston Villa úr leik. Bradford vann fyrri leikinn 3:1 og þrátt fyrir 2:1 tap á Villa Park er liðið komið alla leið á Wembley. Þessi vegferð Bradford er með hreinum ólíkindum en liðið leikur í fjórðu deild. Margir sparkspekingar telja ferð Bradford í úrslitaleikinn með mestu afrekum neðrideildarliðs í sögu ensku knattspyrnunnar.

Í liði Bradford er Stephen Darby fyrrum leikmaður Liverpool. Hann gekk til liðs við Bradford í sumar og hefur staðið sig vel. Hann lék báða undanúrslitaleikina á móti Villa í stöðu hægri bakvarðar en þá stöðu leikur hann oftast. Stephen er uppalinn hjá Liverpool og varð Unglingabikarmeistari með liðinu 2006 og 2007. Hann lék sex leiki með aðalliði Liverpool. Það verður gaman að sjá hvernig Stephen gengur á Wembley en hann var einmitt fyrstur leikmanna Liverpool til að leika á nýja Wembley þegar hann lék þar með Swindon en þar var hann í láni um tíma.

Bradford City mætir Swansea City í úrslitaleiknum. Swansea og Chelsea skildu jöfn 0:0 í Wales í kvöld en Svanirnir unnu 0:2 á Stamford Bridge. Rafael Benítez náði því ekki að koma Chelsea í úrslitaleikinn. Það verður því annað hvort Bradford City eða Swansea City sem tekur við sem Deildarbikarmeistari af Liverpool. Hvorugt liðið hefur áður unnið þennan titil. Eins og stuðningsmenn Liverpool muna þá batt Swansea enda á vörn Liverpool á bikarnum með því að vinna 1:3 á Anfield í haust. 

Hér má sjá fagnaðarlæti Stephen Darby og félaga þegar flautað var til leiksloka á Villa Park.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan