| Heimir Eyvindarson

Steven óánægður með dómarann og Phil

Fullkomlega löglegt mark sem Luis Suarez skoraði á lokamínútum leiksins gegn Everton í gær var dæmt af vegna rangstöðu sem aldrei var um að ræða. Gerrard skilur ekkert í ákvörðun dómaratríósins.

„Ég er búinn að horfa á endursýninguna og þetta er engan veginn rangstaða. Ég held að allir geti verið sammála um það. Þessi ákvörðun línudómarans kostaði okkur sigurinn í leiknum og það er ansi hart", sagði gramur Gerrard í viðtali við Liverpool Echo í gær.

„Ég spurði hann eftir leikinn hvers vegna hann hefði flaggað og hvort þetta hefði verið rangstaða. Hann sagðist halda það!. Það er bara ekki nógu góð ástæða til þess að dæma mark sem ræður úrslitum í leik ógilt!"

„Hingað til hefur það verið almennur skilningur að vafaatriði eigi að falla sóknarliðinu í hag. Það var aldeilis ekki í þessu tilviki. Ef allar ákvarðanir dómara i deildinni verða byggðar á einhverri „ég held það" tilfinningu, þá erum við í vondum málum. Maður verður að vera viss þegar maður tekur svona stóra ákvörðun."

„Síðan kom jöfnunarmark Everton upp úr innkasti sem þeir áttu aldrei að fá. Línudómarinn gaf til kynna að við ættum að fá innkastið, en dómarinn ákvað að breyta því og lét Everton taka innkastið. Ekki veit ég af hverju, en Everton græddi ansi mikið á þeirri röngu ákvörðun."

,,Ég er mjög svekktur með úrslitin. Það er sérstaklega sárt að tapa stigum á þennan hátt. Við mættum til leiks með ungt og tiltölulega óreynt lið og mér fannst við standa okkur vel. Everton náði reyndar mjög góðum kafla í lok fyrri hálfleiksins þar sem við vorum í vandræðum, en stjórinn brást hárrétt við því í leikhléi og breytti skipulaginu í 3-5-2. Það þétti leik okkar til muna og gerði það að verkum að við réðum mun betur við löngu boltana frá þeim. Við náðum síðan að skapa okkur nokkur góð færi í síðari hálfleiknum og hefðum átt að fara heim með öll stigin."

Gerrard gerir líka dýfu Phil Neville í leiknum að umtalsefni.

„Það er mín skoðun að Phil Neville hafi brugðist stjóra sínum illilega með framgöngu sinni á vellinum í gær. Fyrir leikinn eyddi Moyes miklu púðri í að tala um hvað Suarez væri óheiðarlegur leikmaður og að hann notaði hvert tækifæri til þess að dýfa sér. Hvað gerist svo í leiknum? Fyrirliði Everton, sem maður hefði haldið að ætti að fara undan með góðu fordæmi, fær eitt tækifæri til þess að dýfa sér og hikar ekki við að henda sér í jörðina! Til allrar hamingju sá dómarinn í gegnum leikaraskapinn."

,,Luis svaraði auðvitað gagnrýninni á besta mögulega hátt. Þetta ætti að kenna fólki að vera ekki að reyna að hafa áhrif á hann fyrir leiki með einhverju sálfræðistríði. Hann þarf reyndar ekki Davið Moyes eða einhvern annan til að kveikja neistann. Hann gefur alltaf allt í alla leiki."

„Hann var frábær í leiknum. Ég get ekki stjórnað því hvernig hann fagnar mörkunum sem hann skorar, en ég held að allir hafi skilið hvaða skilaboð hann var að senda með fagninu sína eftir fyrsta markið."

,,David Moyes reyndi að hafa áhrif á dómarann fyrir leik með ummælum sínum um Suarez. Það er allt í lagi. Svoleiðis sálfræðistríð er hluti af leiknum, en það verður að teljast dálítið pínlegt fyrir Moyes eftir allar yfirlýsingarnar að eina dýfa leiksins hafi komið frá hans eigin fyrirliða. Ef David Moyes er alvöru maður og alvöru stjóri, sem mér finnst hann vera, þá hlýtur hann að ræða þetta atvik alvarlega við fyrirliða sinn."

 

 




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan