| Heimir Eyvindarson

Svakalegur grannaslagur á Goodison!

Liverpool og Everton áttust í dag við á Goodison Park. Niðurstaðan varð 2-2 í leik þar sem Liverpool var rænt sigurmarkinu í blálokin.

Brendan Rodgers gerði eina breytingu á liðinu frá sigurleiknum gegn Reading um síðustu helgi. Jose Enrique kom inn í stöðu vinstri bakvarðar í stað Glen Johnson sem glímir við lítilsháttar meiðsli. Brad Jones hélt sæti sínu í liðinu þar sem Pepe Reina er ekki orðinn 100% leikfær. Spánverjinn var þó til taks á bekknum.

Brad Jones, Andre Wisdom, Joe Allen, Nuri Sahin, Suso og Raheem Sterling voru allir að spila sinn fyrsta alvöru Derby leik í Liverpool. 

Leikurinn fór fjörlega af stað og ljóst að bæði lið voru tilbúin til að leggja allt í sölurnar. Fyrsta alvöru hættan skapaðist upp við mark Liverpool á 10. mínútu, en þá fór Mirallas illa með varnarmenn okkar manna og prjónaði sig alla leið inn í teig. Á síðustu stundu kom Daniel Agger til bjargar og kom boltanum í horn.

Á 12. mínútu komst Suarez einn inn fyrir en rangstaða var réttilega dæmd á Nuri Sahin sem þvældist fyrir í tegnum og kom örlítið við boltann. Á 14. mínútu kom síðan fyrsta mark leiksins. Enrique átti þá góða sendingu fyrir markið í átt að Sterling sem var felldur eða hrasaði illa í teignum og náði ekki til boltans. Boltinn barst til Suarez utarlega í teignum og eins og hans er von og vísa dúndraði hann boltanum í átt að markinu. Boltinn hafnaði í Leighton Baines og fór þaðan í markið. Staðan 1-0 fyrir Liverpool.

Það vakti athygli að Suarez fagnaði markinu með því að taka létta dýfu fyrir framan David Moyes stjóra Everton, sem eyddi talsverðu púðri í það fyrir leikinn að vara dómara við dýfum Úrúgvæans. Á 21. mínútu komst Liverpool síðan í 2-0 með skallamarki frá Suarez eftir frábæra aukaspyrnu Steven Gerrard. Snerting Suarez var reyndar ekki mikil, en nógu mikil til þess að markið verður dæmt á hann. Staðan 2-0 og staða gestanna vænleg.

Einungis einni og hálfri mínútu síðar var Everton þó búið að minnka muninn. Þar var að verki Leon Osman eftir að Brad Jones hafði kýlt boltann beint út í miðjan vítateiginn. Staðan 2-1.

Á 27. mínútu átti Suarez gott skot með vinstri rétt framhjá marki Everton.

Á 35. mínútu náði Everton að jafna leikinn. Jöfnunarmarkið skoraði Naismith eftir slakan varnarleik Enrique. Reyndar kom markið upp úr innkasti sem ranglega var dæmt Everton í vil. Ekki síðustu mistök aðstoðardómaranna í leiknum. Staðan 2-2 og hrikaleg læti á Goodison.

Þegar hér var komið sögu í leiknum var tempóið mjög hátt og mikill hiti í mönnum. Það verður að hrósa Andra Marriner fyrir að missa hreinlega ekki tökin á leiknum í öllum hamagangnum.

Það verður að segjast eins og er að flestir stuðningsmenn Liverpoool hafa sjálfsagt verið fegnir þegar Marriner flautaði til leikhlés í dag. Everton spilaði af miklum krafti og var mun hættulegra en okkar menn síðustu mínútur hálfleiksins.

Staðan í leikhléi 2-2 eftir afskaplega viðburðaríkan fyrri hálfleik.

Brendan Rodgers gerði tvær breytingar á liðinu í hálfleik. Sebastian Coates kom inn á fyrir Nuri Sahin og Jonjo Shelvey kom inn fyrir Suso. Hvorki Suso né Sahin höfðu komist í takt við leikinn þannig að skiptingarnar voru skiljanlegar.

David Moyes neyddist til þess að gera eina breytingar á sínu liði. Mirallas, sem hafði verið gríðarlega sprækur á vinstri kantinum fór út af vegna meiðsla. Í hans stað kom Gueye.

Seinni hálfleikur var heldur rólegri en sá fyrri, enda varla hægt að búast við því að leikmenn spiluðu heilar 90 mínútur á sama tempói og var í gangi í fyrri hálfleiknum.

Á 49. mínútu fékk Raheem Sterling líklega besta færi leiksins þegar hann komst einn á móti Tim Howard í marki Everton eftir frábæra stungusendingu frá Enrique. Sterling var hinsvegar engan veginn tilbúinn í að klára færið og sópaði boltanum klaufalega langt framhjá við lítinn fögnuð Suarez sem vildi að sjálfsögðu fá boltann.

Mínútu síðar átti Jelavic hættulegt skot hinum megin sem Jones varði. Boltinn barst til Naismith sem skaut sem betur fer framhjá.

Á 58. mínútu fékk Liverpool aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Everton. Steven Gerrard tók spyrnuna og lét vaða á markið. Howard náði að slá boltann út og nú vantaði Dirk Kuyt til að taka frákastið! Enginn okkar manna var viðstaddur og Everton slapp með skrekkinn.

Á 59. mínútu átti Fellaini hættulegan skalla að marki Liverpool, en boltinn fór rétt framhjá. Everton var heldur meira með boltann á þessum tímapunkti en okkar menn vörðust vel, enda þéttari fyrir eftir að Shelvey og Coates komu inná.

Á 74. mínútu átti Liverpool góða skyndisókn sem endaði með skoti frá Henderson, sem var nýkominn inn á fyrir hinn unga Andre Wisdom. Skotið átti reyndar kannski að vera fyrirgjöf, en það breytir því ekki að Howard þurfti að slá boltann yfir og Liverpool fékk enn eina hornspyrnuna. Á 85. mínútu fékk Sterling ágætt færi fyrir utan teiginn en skot hans fór vel yfir markið.

Í uppbótartíma hefði Liverpool síðan átt að stela öllum stigunum á Goodison. Steven Gerrard tók þá aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Everton. Boltinn barst inn í teig þar sem Coates skallaði hann fyrir fætur Suarez sem þrumaði honum upp í þaknetið við mikinn fögnuð Liverpool manna. En fögnuðurinn stóð ekki lengi því aðstoðardómarinn flaggaði rangstöðu á Úrúgvæann. Í endursýningu sást glögglega að það var kolröng ákvörðun og dómaratríóinu tókst því að ræna Liverpool tveimur stigum í dag þrátt fyrir að Marriner sjálfur hafi staðið sig býsna vel við erfiðar aðstæður.

Lokatölur á Goodison Park í dag 2-2. Þegar allt er talið má kannski segja að jafntefli hafi verið nokkuð sanngjörn úrslit, en engu að síður algjörlega grátlegt fyrir okkar menn að fullkomlega löglegt mark Suarez í lokin skyldi ekki standa.

Liverpool: Jones, Wisdom (Henderson á 70. mín.), Skrtel, Agger, Enrique, Allen, Sahin (Coates á 45. mín.), Gerrard, Sterling, Suso (Shelvey á 45. mín.), Suarez. Ónotaðir varamenn: Downing,Carragher, Reina, Assaidi.

Mörk Liverpool: Baines - sjálfsmark á 14. mínútu, Suarez á 21. mínútu

Gul spjöld: Sterling, Agger og Siarez.

Everton: Howard, Baines, Coleman, Jagielka, Distin, Mirallas (Gueye á 45. mín.), Fellaini, Neville, Osman, Naismith (Oviedo á 85. mín.), Jelavic. Ónotaðir varamenn: Hibbert, Heitinga, Mucha, Vellios, Hitzlsperger.

Mörk Everton: Osman á 22. mínútu og Naismith á 35. mínútu.

Gul spjöld: Coleman, Jagielka, Neville og Osman.

Áhorfendur á Goodison Park: 39613

Maður leiksins. Það er engin spurning að þessu sinni hver er maður leiksins. Luis Suarez tókst svo sannarlega að svara óvæginni gagnrýni David Moyes í vikunni og Moyes getur þakkað aðstoðardómaranum og engum öðrum fyrir að Suarez hreinlega jarðaði ekki Skotann og hans menn í dag.

Brendan Rodgers: Við stóðum okkur mjög vel í dag gegn sterku liði Everton. Það var samt grátlegt að mark Suarez í lokin skyldi vera flautað af því það var klárlega fullkomlega löglegt.

Fróðleikur

- Þetta var 58. jafntefli Liverpool og Everton í deildakeppni frá upphafi. Liðin hafa mæst 187 sinnum í deildakeppni. Liverpool hefur sigrað 72 sinnum en Everton 57 sinnum.

- Ef allar keppnir eru teknar með hafa liðin mæst 219 sinnum. Liverpool hefur unnið 87 leiki, Everton 66 og 66 hafa endað með jafntefli.

- Þetta var fyrsta jafntefli liðanna á Goodison í langan tíma, en það þarf að fara 12 leiki aftur í tímann á Goodison til að sjá jafnan hlut milli liðanna.

- Aðeins tveir leikmenn Liverpool liðsins í dag hafa skorað gegn Everton. Steven Gerrard (8 mörk) og Luis Suares (3 mörk).

- Raheem Sterling varð í dag næst yngsti leikmaður Liverpool á eftir Michael Owen til þess að taka þátt í borgarslag gegn Everton. Sterling er 17 ára og 325 daga í dag. Michael Owen var 17 ára og 308 daga þegar hann lék fyrst gegn erkifjendunum í Bítlaborginni.

Hér er viðtal við Brendan Rodgers á heimasíðu BBC.

Hér eru myndir úr leiknum af opinberri heimasíðu Liverpool FC.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan