| Sf. Gutt

Bikarævintýrið úti á Wembley

Langt og skemmtilegt bikarævintýri Liverpool endaði á Wembley í dag þegar liðið tapaði 2:1 fyrir Chelsea. Slæm byrjun Liverpool kostaði bikarinn en Chelsea komst tveimur mörkum yfir áður en leikmenn Liverpool tóku við sér og löguðu stöðuna.
 
Bæði lið voru mjög varkár í upphafi leiks og eins virkuðu margir leikmenn liðanna mjög taugaóstyrkir. Það virtist langt í fyrsta markið en allt í einu kom það á 11. mínútu. Jay Spearing missti boltann á miðjunni. Juan Mata hirti hann og sendi fram á Ramires Nascimento sem lék auðveldlega á Jose Enrique og komst inn í vítateiginn. Skot hans var ekkert sérstaklega vel heppnað en rataði í markið og ekki var Jose Reina saklaus. Hroðaleg mistök hjá þremur leikmönnum Liverpool og það kostaði mark. Bláliðar voru kátir og máttu vera það eftir svona gjöf.

Aðeins þremur mínútum seinna fékk Liverpool gott færi á að jafna. Glen Johnson sendi fyrir frá hægri. Boltinn rataði til Craig Bellamy sem hitti hann vel en Branislav Ivanovic henti sér fyrir og bjargaði. Eftir stundarfjórðung sendi Ramieres háa sendingu inn á vítateiginn og óöryggi gerði vart við sig hjá Jose sem þurfti tvær tilraunir til að grípa auðvelda sendingu. Leikmenn Liverpool virkuðu daufir og óstyrkir og á 23. mínútu varð Daniel Agger að taka á öllu sínu við að bjarga eftir að Salomon Kalou braust inn í vítateiginn. Það var öryggi yfir leik Chelsea og það var ekki fyrr en undir lok hálfleiksins sem leikmenn Liverpool fóru að bíta frá sér. Það var þó aldrei veruleg hætta á ferðum við mark Chelsea sem leiddi í hálfleik. Stuðningsmenn Liverpool voru mjög vonsviknir í leikhléinu og veltu málum fyrir sér.

Hafi stuðningsmenn haldið að leikur sinna manna myndi lagast eftir leikhlé þá gekk það alls ekki eftir. Vont versnaði svo á 52. mínútu. Frank Lampard lék auðveldlega framhjá Jay og sendi fram á Didier Drogba. Hann fékk boltann við vítateiginn, lagði hann fyrir sig og skaut honum svo milli fóta Martin Skrtel og neðst í hægra hornið. Jose var seinn niður að mörgum fannst en kannski sá hann boltann seint. 

Kenny Dalglish var snöggur að bregðast við og tveimur mínútum eftir markið sendi tók hann Jay, sem náði sér aldrei á strik, af velli og sendi Andy Carroll til leiks. Andy hefur ekki alltaf staðið undir væntingum frá því hann kom til Liverpool en nú lét hann heldur betur finna fyrir sér og leikur Liverpool gerbreyttist á svipstundu. Andy var óviðráðanlegur og varnarmenn Chelsea áttu í mestu vandræðum með hann og aðra leikmenn Liverpool sem allt í einu fóru að gera eitthvað. 

Andy Carroll kom svo Liverpool inn í leikinn á 64. mínútu. Jose Bosingwa ætlaði að hreinsa fram til hliðar við vítateiginn vinstra megin. Stewart Downing renndi sér fyrir og boltinn hrökk af honum inn í vítateiginn. Þar náði Andy honum við vinstra markteigshornið, lék tvisvar á John Terry og þrumaði boltanum upp í þaknetið. Frábært mark hjá og nú var eitthvað vit komið í þetta.
   
Rétt á eftir var Andy enn á ferðinni. Hann skallaði boltann út á Jordan Henderson en hann skaut framhjá utan vítateigs en hefði átt að hitta betur. Enn liðu tvær mínútur eða svo. Andy var þá enn að og skallaði út á Steven en hann náði heldur ekki að hitta markið. Á 73. mínútu náði Luis að koma sér í skotstöðu við vítateiginn. Hann náði föstu skoti sem stefndi neðst í vinstra hornið en Petr varði meistaralega í horn. Liverpool sótti linnulaust og varnarmenn Chelsea urðu svo sannarlega að vera vel vakandi.

Raul Meireles var sendur inn á og fyrrum félagi hans Dirk Kuyt kom líka til leiks. Á 82. mínútu virtist stórsókn Liverpool ætla að gefa jöfnunarmark. Eftir laglegt samspil sendi Luis fyrir markið á Andy og fastur skalli hans af stuttu færi virtist hafa jafnað leikinn. Petr hafði hönd á boltanum sem fór upp í þverslána og út. Andy fagnaði en dómarinn gaf ekki merki um mark! Leikmenn Liverpool vildu fá mark en Chelsea menn voru greinilega ekki vissir. Ekki mark varð niðurstaðan og þess í stað ævintýraleg markvarsla Petr staðfest.

Allt til leiksloka sótti Liverpool en það dugði ekki til. Í blálokin komst John Terry fyrir skot Andy á síðustu stundu og hinu megin björguðu varnarmenn Liverpool eftir að Jose missti af boltanum. Allt kom fyrir ekki og Chelsea vann F.A. bikarinn. Leikmenn og stuðnigsmenn Liverpool voru niðurbrotnir í leikslok.

Bikartvennan náðist ekki en hún hefði vel getað orðið að veruleika hefðu leikmenn Liverpool mætt til leiks af almennilegum krafti. Það er of mikið í úrslitaleik að gefa tveggja marka forystu. Liverpool hefur reyndar komið til baka úr verri stöðu en þetta í úrslitaleikjum en það er ekki alltaf hægt!

Kenny Dalglish hefur leitt Liverpool í langt og skemmtilegt bikarævintýri á þessu keppnistímabili. Deildarbikarinn verður geymdur á Anfield Road næsta árið og litlu munaði að F.A. bikarinn rataði í sömu gleymslu. Svo varð þó því miður ekki en Liverpool Football Club heldur áfram baráttunni!

Chelsea: Cech, Bosingwa, Ivanovic, Terry, Cole, Ramires (Meireles 76. mín.), Mikel, Lampard, Kalou, Drogba og Mata (Malouda 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Turnbull, Essien, Torres, Ferreira og Sturridge.
 
Mörk Chelsea: Ramires Nascimento (11. mín.) og Didier Drogba (52. mín.).

Gul spjöld: John Obi Mikel.
 
Liverpool: Reina, Johnson, Skrtel, Agger, Enrique, Spearing (Carroll 55. mín.), Henderson, Downing, Gerrard, Bellamy (Kuyt 78. mín.) og Suarez. Ónotaðir varamenn: Doni, Rodriguez, Carragher, Shelvey og Kelly.
 
Mark Liverpool: Andy Carroll (64. mín.).

Gul spjöld: Daniel Agger og Luis Suarez.
 
Áhorfendur á Wembley: 89.102.
 
Maður leiksins: Andy Carroll. Andy var algjörlega magnaður eftir að hann kom inn á. Hann gerbreytti leik Liverpool og skoraði markið sem gaf von. Hann var svo sentimetrum frá því að jafna.

Kenny Dalglish: Að sinni verðum við að draga okkar lærdóm af þessu og átta okkur á því að það er ekki hægt að byrja leiki svona. Þeir voru betri en við fyrsta klukkutímann. Kannski vorum við einfaldir eða taugaóstyrkir. Það eru margir ungir leikmenn í mínu liði en í liði Chelsea eru margir þrautreyndir leikmenn sem hafa reynt margt. En síðasti hálftíminn ætti að gefa trú og sjálfstraust.

                                                                  Fróðleikur

- Þetta var fjórtándi úrslitaleikur Liverpool í F.A. bikarnum og sjöunda tapið.

- Chelsea vann F.A. bikarinn í sjöunda sinn og hefur nú unnið jafn oft og Liverpool.

- Liverpool tapaði 3:2 2005 fyrir Chelsea í úrslitaleik Deildarbikarsins þannig að Chelsea hefur tvívegis unnið bikar af Liverpool á þessari öld.

- Kenny Dalglish leiddi Liverpool í fjórða sinn í úrslitaleik í F.A. bikarnum. Tvívegis, 1986 og 1989, náðist sigur en tvö töp urðu 1988 og 2012.

- Andy Carroll skoraði fjórða bikarmark sitt og skoraði flest af leikmönnum Liverpool í keppninni á leiktíðinni. Þetta var áttunda mark hans á sparktíðinni.

- Þetta var fyrsta tap Liverpool í bikarleik á leiktíðinni.

- Didier Drogba varð fyrstur manna til að skora í fjórum úrslitaleikjum í keppninni.

- Ashley Cole varð bikarmeistari í sjöunda sinn sem er met.
 
Hér eru
 myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC.

Hér eru
myndir úr leiknum af vefsíðu Telegraph.

Hér eru
 myndir úr leiknum af vefsíðu Sky sport.TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan