| Heimir Eyvindarson

Skelfilegt tap á Loftus Road!

Liverpool missti tveggja marka forskot niður í eins marks tap á  síðustu 15 mínútum leiksins gegn QPR í Lundúnum í kvöld. Niðurstaðan 3-2 sigur heimamanna.

Kenny Dalglish gerði tvær breytingar á byrjunarliðinu frá því í leiknum gegn Stoke á sunnudag. Dirk Kuyt og Charlie Adam komu inn fyrir Andy Carroll og Maxi. Craig Bellamy, Glen Johnson og Daniel Agger eru enn frá vegna meiðsla.

Liverpool hóf leikinn af miklu krafti og fyrsta korterið var algjör einstefna að marki heimamanna í QPR. Eftir fjögurra mínútna leik fékk Suarez besta færi leiksins þegar hann komst skyndilega einn í gegn. Skot Suarez var hinsvegar slakt og Paddy Kenny í marki QPR átti ekki í teljandi vandræðum með það. 

Nokkrum mínútum síðar átti Martin Kelly frábæra sendingu inn fyrir vörnina á Stewart Downing sem var heldur seinn að koma boltanum fyrir sig og varnarmenn heimamanna náðu að komast fyrir skot hans. Ein af fjölmörgum hornspyrnum á fyrstu mínútunum dæmd og upp úr henni fékk Dirk Kuyt ágætt færi, en heimamenn náðu enn að bjarga á elleftu stundu.

Eftir fyrstu 15-20 mínúturnar fóru leikmenn QPR smám saman að ná áttum og komust stöku sinnum yfir miðju! Í einu slíku ferðalagi átti Djibril Cissé besta skot hálfleiksins, þegar hann þrumaði boltanum í hliðarnetið á marki Liverpool rétt utan vítateigs.

Eftir einungis 34 mínútna leik var komið að fyrstu skiptingu leiksins, en þá kom Sebastian Coates inn fyrir Martin Kelly. Kelly var tæpur fyrir leikinn og hefur greinilega ekki þolað hamaganginn. Carragher dró sig út í hægri bakvarðarstöðuna og Coates tók sér stöðu í miðri vörninni ásamt Skrtel.

Það sem eftir lifði hálfleiksins jafnaðist leikurinn nokkuð eftir mikla yfirburði Liverpool framan af. Gestirnir frá Bítlaborginni voru mun meira með boltann, áttu fleiri marktilraunir og margfalt fleiri hornspyrnur. En eins og stundum áður var uppskeran engin.

Staðan 0-0 í hálfleik á Loftus Road.

Kenny Dalglish gerði eina breytingu í leikhléi. Jordan Henderson kom inn á fyrir Charlie Adam sem lenti í slæmu samstuði við Armand Traoré undir lok fyrri hálfleiksins. Traoré var einnig skipt út af í hléinu.

Liverpool hóf síðari hálfleikinn af svipuðum krafti og þann fyrri og var áfram mun betra liðið í leiknum. 

Á 54. mínútu leit fyrsta markið dagsins ljós. Þar var að verki enginn annar en Sebastian Coates! Eftir hornspyrnu og klafs í teignum barst boltinn út til Coates sem lagðist á hliðina og hamraði boltann í markið. Stórglæsilegt mark! Staðan 1-0 fyrir okkar menn.

Á 72. mínútu kom annað mark leiksins, eftir góða sókn okkar manna. Luis Suarez átti þá góðan snúning á vítateigshorninu og skot í stöng. Boltinn barst út í teiginn til Stewart Downing sem sneri af sér tvo varnarmenn og skaut að marki. Paddy Kenny varði skot Downing, en Dirk Kuyt náði frákastinu og potaði boltanum í netið eins og honum einum er lagið. Gott mark hjá Hollendingnum í hans 200. leik fyrir Liverpool.

Staðan orðin 2-0 fyrir Liverpool á Loftus Road og útlitið bjart fyrir okkar menn. En það átti svo sannarlega eftir að breytast!

Einungis fimm mínútum síðar minnkuðu heimamenn muninn. Þar var að verki Shaun Derry, sem hnoðaði boltann í hægra hornið eftir hornspyrnu. Hans fyrsta mark fyrir félagið í fimm ár. 

Þrátt fyrir þetta var Liverpool enn sterkara liðið á vellinum og engar sérstakar líkur á að heimamenn næðu að snúa leiknum sér í hag.

Á 82. mínútu kom síðasta skipting Liverpool, þegar Andy Carroll kom inn á fyrir Luis Suarez.

Aðeins fjórum mínútum síðar náði QPR að jafna leikinn. Taiwo átti þá háa sendingu inn í teiginn utan af vinstri kantinum og hitti beint á kollinn á Djibril Cissé sem náði að skalla boltann inn nokkurn veginn óáreittur. Varnarvinna Skrtel og Enrique var illskiljanleg og skyndilega var staðan orðin jöfn!

Á 90. mínútu kom síðan rothöggið. Eftir hrikaleg varnarmistök Enrique var Jamie Mackie allt í einu kominn einn á móti Pepe Reina og honum urðu ekki á nein mistök. Staðan orðin 3-2 fyrir heimamenn í QPR. Þremur mínútum síðar flautaði góður dómari leiksins, Howard Webb, til leiksloka.

Niðurstaðan á Loftus Road óskiljanlegt tap í leik þar sem Liverpool var miklu betra liðið. Ófyrirgefanlegur aulagangur í vörninni undir lokin kostaði okkar menn sigurinn að þessu sinni. Hreint og beint grátleg niðurstaða.

Liverpool: Reina, Kelly (Coates á 34. mín.), Carragher, Skrtel, Enrique, Spearing, Adam (Henderson á 45. mín.), Gerrard, Kuyt, Suarez (Carroll á 82. mín.) og Downing. Ónotaðir varamenn: Doni, Flanagan, Aurelio og Shelvey.

Mörk Liverpool: Sebastian Coates (54. mín.) og Dirk Kuyt (72. mín.).

QPR: Kenny, Ferdinand, Traoré (Taiwo á 45. mín.), Onuoha, Diakite,Derry, Taarabt, Barton (Mackie á 62. mín.), Young, Cissé (Buzsaki á 88. mín.), Zamora. Ónotaðir varamenn: Gabbidon, Bothroyd, Cerny og Wright-Phillips.

Mörk QPR: Derry (78. mín.), Cissé (86. mín.) og Mackie (90. mín.).
 
Áhorfendur á Loftus Road: 18.033.

Maður leiksins: Það áttu margir leikmenn Liverpool góðan leik í kvöld, enda spilaði liðið á löngum köflum mjög vel. Jay Spearing var gríðarlega duglegur á miðjunni, sömuleiðis Steven Gerrard, Stewart Downing og Dirk Kuyt. Luis Suarez fær þó nafnbótina maður leiksins að þessu sinni. Hann var ávallt ógnandi og skapaði mikinn usla. Hann var óheppinn að skora ekki sjálfur í aðdraganda seinna marks Liverpool og virkaði frískari en í mörgum undanförnum leikjum. Því miður dugði það ekki til í kvöld.

                                                                                  Fróðleikur

-
Þetta var 7. tap Liverpool gegn QPR, í 42 leikjum. Sex leikir liðanna hafa endað með jafntefli og Liverpool hefur unnið 29.

- Frá því að Úrvalsdeildin var stofnuð hefur QPR aðeins einu sinni áður sigrað Liverpool í deildarleik. Það var árið 1992. Trevor Sinclair og Les Ferdinand skoruðu þá sitt markið hvor fyrir Lundúnaliðið, en John Barnes eina mark okkar manna.

- Fyrri leikur liðanna á yfirstandandi tímabili endaði með 1-0 sigri Liverpool á Anfield í desember s.l. Fyrir þann leik höfðu liðin ekki mæst í efstu deild síðan í febrúar 1996. Þá sigraði Liverpool 2-1 með mörkum frá Mark Wright og Robbie Fowler.

- Markið sem Sebastian Coates skoraði í leiknum var hans fyrsta fyrir Liverpool.

- Dirk Kuyt skoraði fimmta mark sitt á leiktíðinni.

- Besti árangur QPR í efstu deild er 2. sæti leiktíðina 1975-1976. Þá sömu leiktíð vann Liverpool deildina í fyrsta sinn undir stjórn Bob Paisley. Það átti eftir að gerast nokkrum sinnum í viðbót.

- Þetta var 20. deildarleikurinn í röð sem QPR fær á sig mark. Liðið hélt síðast hreinu gegn Chelsea í október.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan