| Sf. Gutt

Luis neitar ásökunum

Það var hart tekist á í leik Liverpool og Manchester United í gær. Eftir leikinn var haldið áfram að takast á undan vallar. Patrice Evra, fyrirliði Manchester United, ásakaði þá Luis Suarez í viðtali við franska sjónvarpsstöð um að hafa notað niðrandi orð um sig sem beindust að litarhætti hans. Frakkinn sagði að Luis hefði að minnsta kosti tíu sinnum notað ákveðið orð sem hann tilgreindi þó ekki nákvæmlega.

Talsmaður Enska knattspyrnusambandsins sagði eftir leikinn að kvörtun Patrice hefði verið tekin gild og málið yrði rannsakað. Það fór ekkert á milli mála í leiknum sjálfum að Luis og Patrice áttu orðaskipti og lentu nokkrum sinnum í návígjum. Dómarinn skipti sér einu sinni af deilum þeirra.

Luis neitaði í dag, á Tvitter síðu sinni, að hann hefði notað niðrandi orð um Patrice. Á síðunni skrifaði hann meðal annars. ,,Ég er mjög sár yfir því að hafa verið sakaður um kynþáttaníð. Það eina sem ég get sagt er að ég hef ætíð borið virðingu fyrir öllum og geri það enn."

Í nokkrum fjölmiðlum í dag er greint frá því að dómari leiksins hafi aldrei heyrt Luis nota niðrandi orð um Patrice og sjónvarpsmenn Sky eiga ekki að hafa fundið nein dæmi um slíkt í sjónvarpsupptökunni af leiknum. Varalesarar hafa verið kallaðir til í tilvikum sem þessum.

Talsmaður Liverpool lét hafa eftir sér að félagið stæði með Luis í málinu og Manchester United mun á sama hátt standa með sínum manni. Verði Luis fundinn sekur um niðrandi orð í garð litarháttar Patrice verður hann örugglega dæmdur í leikbann og ef svo fer þá er það rétt refsing fyrir meinta hegðun hans sem enn er þó enn ósönnuð. Patrice gæti líka átt refsingu yfir höfði sér ef hann hefur farið með rangt mál. Báðir eru þó saklausir þangað til sekt verður sönnuð eða afsönnuð!   

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan