| Heimir Eyvindarson

Mikilvægt að halda ró sinni

Steve Clarke segir að það sé lykilatriði að leikmenn verði ekki of spenntir fyrir stórleikinn í dag. Hann vonar að Liverpool nái að minnka forskot Manchester United í 3 stig.

,,Sigur í dag fæli í sér skýr skilaboð til okkar sjálfra um að við séum á réttri leið. Við erum ennþá í þróun, enda hefur liðið gengið í gegnum miklar breytingar á undanförnum vikum og mánuðum. Þrjú stig í dag myndu færa okkur mikið sjálfstraust sem við getum byggt á í okkar uppbyggingarvinnu.", segir Clarke í viðtali við Liverpoolfc.tv.

,,Við förum bara út á völlinn og reynum að gera okkar besta. Eftir leikinn getum við lagst í að fara yfir smáatriðin og greina það sem gerðist. Ég vil meina að hópurinn sé í stöðugri framför. Vonandi verður leikurinn í dag enn eitt skrefið í rétta átt."

,,Við höfum skoðað leiki Manchester United vel að undanförnu. Þeir eru með mjög sterkt lið, eins og alltaf. Þeir skapa mjög mikið af færum og eru með gríðarlega hættulega sóknarlínu. Þeir hafa kannski fengið á sig heldur fleiri mörk en vanalega, en þeir vega það upp með því að skapa sífellt hættuleg færi. Þetta verður erfiður leikur. Það er engin spurning."

Liverpool vann viðureign liðanna á Anfield á síðustu leiktíð 3-1. Clarke minnir á að sá sigur hafi enga þýðingu í dag.

,,Við spiluðum mjög vel í þeim leik, en þetta er nýr leikur og verður örugglega allt öðruvísi. Við munum auðvitað reyna að spila jafn vel og af eins miklum krafti og við gerðum þá. Vonandi skilar það okkur sigri þegar upp verður staðið."

,,Við verðum að vona að við náum að riðla þeirra leik. Síðan verðum við líka að vona að okkar bestu menn stígi fram og geri eitthvað extra."

,,Fyrir leiki eins og þennan er algjört lykilatriði að menn rói sig niður í undirbúningnum, þannig að þeir fái nægilega hvíld. Eðlilega eru margir í liðinu yfirspenntir þegar kemur að svona stórleik, en menn verða að geta slappað af fyrir leikinn þannig að þeir geti mætt í sínu besta formi út á grasið þegar stundin kemur. Við reynum að fá menn til að einbeita sér að því að hvílast fyrir leikinn. Þetta verða átök og við þurfum á öllum okkar kröftum að halda."

,,Það er alltaf gott að vera á heimavelli í svona leikjum. Við verðum með áhorfendur á okkar bandi og það getur breytt öllu. Um leið og við förum í sókn og áhorfendur koma með þá finnst andstæðingunum að þeir séu undir miklu meiri pressu en þeir í rauninni eru. Þetta getur skipt sköpum í dag."


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan