| Sf. Gutt

Byrjar Steven á eftir?

Margir velta því fyrir sér hvort Steven Gerrard verði í byrjunarliði Liverpool gegn Manchester United í dag. Hann var síðast í því í byrjun mars þegar Liverpool vann Manchester United 3:1 á Anfield Road. Kenny Dalglish svaraði þessu til þegar hann var spurður út í fyrirliðann á blaðamannafundi á fimmtudaginn.

,,Við höldum áfram að fara að eins og við höfum gert hingað til. Við getum ekki leyft okkur að ræða liðsval fyrir leik sem fer fram eftir tvo daga en við erum ánægðir með framfarir hans og hann er ánægður með hvernig við höfum meðhöndlað hann. Við höfum gert það af fagmennsku og af tillitssemi. Við ætlum að halda áfram að gera það."

,,Hann verður fyrstur að svara kallinu þegar við höldum að hann sé tilbúinn að spila og þegar við þurfum á honum að halda. Við ætlum þó ekki að sitja hér og segja ykkur núna hvernig liðið okkar verður skipað."

Steven Gerrard hefur komið inn á sem varamaður í þremur síðustu leikjum Liverpool. Það kemur í ljós á morgun hvort Kenny Dalglish velur hann til að hefja slaginn gegn Manchester United. Margir telja að sú verði raunin en við verðum að bíða og sjá!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan