| Sf. Gutt

Get gert miklu betur!

Jordan Henderson lék sinn besta leik hingað til með Liverpool gegn Bolton um helgina og opnaði markareikning sinn þegar hann skoraði glæsilegt mark. Hann hafði þetta að segja í viðtali við Liverpoolfc.tv eftir leikinn á laugardaginn. 

,,Það hefur mikla þýðingu að skora fyrir Liverpool og hvað þá fyrsta markið. Það sást vel þegar ég fagnaði hversu markið hafði mikla þýðingu fyrir mig. En liðsheildin stóð upp úr. Mér fannst liðið spila frábærlega frá upphafi til enda."

Mörgum hefur fundist Jordan ekki hafa sýnt mikil tilþrif hjá Liverpool fram til þessa. Kenny Dalglish hefur þó haft hann í byrjunarliðinu hingað til og hann sýndi hvað í honum býr gegn Bolton.
 
,,Ég hef verið einbeittur og lagt hart að mér en ég get gert miklu betur. Ég held að ég eigi mikið inni. Ég þarf bara að einbeita mér, æfa vel og vonandi skilar það sér á vellinum eins og í dag."

Jordan Henderson er einn af fimm nýjum leikmönnum sem Kenny Dalglish hefur fengið til liðs við Liverpool í sumar. Jordan finnst að nýliðarnir hafi náð vel saman.

,,Margir af leikmönnunum hafa komið sér vel fyrir eins og Charlie, Jose og Stewie á vinstri kantinum. Þeir hafa verið frábærir. Liðið hefur verið að spila mjög vel núna. Við höfum lagt mikið á okkur á æfingavellinum og það skilaði sér í dag. Við verðum bara að halda áfram á sömu braut og leggja hart að okkur. Vonandi skilar það sér í svona góðum leikjum."

Jordan Henderson var valinn í enska undir 21. árs liðið sem spilar núna í landsleikjahléinu. Hann heldur vonandi áfram á sömu braut þegar hléinu lýkur.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan