| Heimir Eyvindarson

QPR á eftir Philipp Degen?

Skysports.com greinir frá því í dag að nýliðar QPR hafi borið víurnar í svissneska bakvörðinn Philipp Degen, sem enn er á launaskrá Liverpool.

Degen kom til Liverpool á frjálsri sölu frá Borussia Dortmund sumarið 2008. Honum hefur engan veginn gengið að sanna sig með liðinu og nokkuð ljóst að hann á enga framtíð hjá klúbbnum.

Degen hefur spilað 13 aðalliðsleiki með Liverpool, en hefur ekki komið við sögu síðan í apríl 2010 þegar Liverpool mætti Atletico Madrid í Evrópudeildinni.

Síðustu leiktíð var hann á láni hjá Stuttgart, en ekkert bendir til þess að Kenny Dalglish hyggist nota hann í vetur, enda um nokkuð auðugan garð að gresja hjá Liverpool þegar kemur að bakvörðum.

Queens Park Rangers eru aftur á móti í nokkrum bakvarðavandræðum. Til marks um það er að kantmaðurinn gamalreyndi Kieron Dyer var settur í bakvörðinn í síðasta leik, en meiddist eftir nokkrar mínútur og verður lengi frá.

Neil Warnock stjóri QPR hefur, samkvæmt frétt SkySports, spurst fyrir um Degen og verður að teljast líklegt að hann hafi fengið jákvæð viðbrögð á Anfield þar sem Svisslendingurinn á einungis tæpt ár eftir af samningi sínum við Liverpool og litlar sem engar líkur á að hann verði endurnýjaður.TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan