| Sf. Gutt

Horfum á björtu hliðarnar!

Liverpool verður ekki með í Evrópukeppni í fyrsta sinn frá því á síðustu öld. Þetta kom í ljós eftir úrslit gærdagsins. Að sjálfsögðu er það slæmt en Jamie Carragher segir að horfa verði á björtu hliðarnar við þá staðreynd að fá frí frá Evrópukeppni. Kappinn hafði þetta að segja, á Liverpoolfc.tv, eftir síðasta leik í gær.

,,Við gerðum ekki nóg til að leggja Villa að velli en jafntefli hefði verið sanngjörn niðurstaða. Við náðum ekki alveg að brjóta þá á bak aftur og vörnin hjá þeim var góð."

Liverpool hefði með sigri getað náð Evrópusæti ef Tottenham hefði orðið á þegar þeir mættu Deildarbikarmeisturum Birmingham City. Spurs vann þó 2:1 og þar með skiptu úrslitin á Villa Park ekki máli. 

,,Auðvitað hefðum við frekar viljað komast í Evrópudeildina en það gekk ekki upp og við verðum að horfa á hvað er jákvætt við það mál. Aðalmálið fyrir okkur á næsta keppnistímabili verður að komast aftur í Meistaradeildina og það að vera ekki í Evrópudeildinni á eftir að gefa okkur betri möguleika á því. Við ætlum okkur að komast aftur í hóp fjögurra efstu liða og standa okkur vel í bikarkeppnunum. Það er ekki heppilegt að spila á fimmtudögum og sunnudögum og út frá því er kostur við að vera ekki í Evrópudeildinni."

Það gekk á ýmsu í herbúðum Liverpool á þessari leiktíð. Tveir framkvæmdastjórar komu við sögu. Nýir eigendur keyptu félagið eftir harða valdabaráttu. Enginn titill vannst fimmtu leiktíðina í röð og svo mætti lengi telja. En Jamie telur þrátt fyrir allt ástæðu til bjartsýni því liðið hafi rétt úr kútnum frá áramótum undir stjórn Kenny Dalglish.
 
,,Það er búið að ganga vel frá því framkvæmdastjórinn tók við og það hefur margt jákvætt gerst. Þegar Kenny tók við hefðum við tekið því fegins hendi að ná sjötta sætinu. Það er afrek að ná sjötta sæti miðað við stöðuna sem við vorum í. Við hefðum ekki sætt okkur við það sæti í byrjun keppnistímabilsins en við hefðum þegið það í janúar. Við unnum ekki neinn titil og þess vegna hefur þetta ekki verið frábær leiktíð hjá Liverpool. Á næstu leiktíð munum við stefna á að bæta okkur og komast ofar á stigatöfluna."

Það verður sannarlega áhugavert að sjá hvernig Liverpool vegnar á næsta keppnistímabili. Næsta víst er að Jamie Carragher mun ekki láta sitt eftir liggja í að má þeim markmiðum sem sett verða í sumar!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan