| Grétar Magnússon

Tap fyrir Hömrunum

Leikjahrina Liverpool án ósigurs endaði í höfuðborginni þegar liðið lá 3-1 fyrir West Ham.  Hamrarnir eru í mikilli fallbaráttu og það voru þeir sem vildu greinilega sigurinn meira.

Til að bæta gráu ofaná svart meiddust þeir Martin Kelly og Raul Meireles í leiknum og óvíst er með þátttöku þeirra í næsta leik.

Steven Gerrard sneri aftur í byrjunarliðið, í stað Joe Cole, eftir fjarveru vegna meiðsla.  Aðrar breytingar voru þær að Jamie Carragher og Martin Skrtel komu inn í vörnina í stað Kyrgiakos og Agger, Glen Johnson kom inn í stað Christian Poulsen og Luis Suarez byrjaði í stað David Ngog.  Danny Wilson hélt sæti sínu í liðinu og var það í fyrsta sinn sem hann var í byrjunarliði í Úrvalsdeildinni.

Í byrjun leiks virtust leikmenn Liverpool tilbúnir í verkefnið og strax á 2. mínútu átti Suarez hættulega sendingu inn í vítateiginn en sendingin var aðeins of föst fyrir Gerrard sem kom aðvífandi.  West Ham menn svöruðu með langskoti frá Thomas Hitzlsperger er hann reyndi skot af um 40 meta færi.  Steven Gerrard átti svo góða sendingu inná vítateig heimamanna og þar náði Raul Meireles góðum skalla að marki sem fór yfir Robert Green í markinu en því miður framhjá stönginni líka.

Áfram héldu gestirnir að sækja og Meireles átti skot að marki sem Green átti ekki í teljandi vandræðum með og skömmu síðar skallaði Glen Johnson að marki eftir hornspyrnu en varnarmenn náðu að komast í veg fyrir boltann áður en hann söng í netinu.

Á 22. mínútu kom svo fyrsta mark leiksins og það var heimamanna.  Scott Parker lék tvo þríhyrninga við samherja sína á meðan miðju- og varnarmenn Liverpool virtust bara horfa á með aðdáunaraugum, Parker var kominn upp að vítateigslínu og skaut utanfótar að marki.  Boltinn sveigði framhjá Reina og lenti í markinu alveg út við stöng, vel að verki staðið hjá fyrirliða West Ham og markinu var vel fagnað á vellinum.

Luis Suarez reyndi að svara strax fyrir gestina er hann braust inná vallarhelming mótherjanna og sendi svo boltann á Dirk Kuyt, Hollendingurinn átti skot af um 25 metra færi sem lenti í hliðarnetinu.  Heimamenn hefðu svo getað bætt við marki þegar Piquionne sendi boltann fyrir markið og þar kom Demba Ba hlaupandi en hann var aðeins sentimetrum frá því að ná til boltans.

Næsta tækifæri gestanna kom eftir hlaup frá Martin Kelly er hann reyndi skot að marki sem var varið auðveldlega.  Skömmu síðar var þátttöku varnarmannsins unga lokið þegar hann þurfti að fara af velli vegna tognunar aftan í læri.  Inná í hans stað kom Joe Cole og Dalglish breytti uppstillingunni í 4-4-2.

Cole var varla búinn að koma sér fyrir inná vellinum þegar heimamenn skoruðu annað mark leiksins, Gary O'Neil sendi fyrir markið frá hægri og þar kom Demba Ba á fleygiferð og skallaði boltann í netið, markið kom rétt fyrir leikhlé og staðan orðin nokkuð svört fyrir gestina.

Kenny Dalglish þurfti svo að gera aðra breytingu eftir aðeins fjórar mínútur í síðari hálfleik þegar hann setti David Ngog inn fyrir Raul Meireles, sem var farinn að haltra um völlinn.  Heimamenn héldu áfram að hamra járnið á meðan það var heitt, Demba Ba stal boltanum af Jamie Carragher og skaut föstu skoti að marki sem fór rétt framhjá.  Hitzlsperger og Lars Jacobsen reyndu svo hvað þeir gátu með langskotum sem fóru bæði yfir markið.

Eftir um klukkustundar leik náði Luis Suarez, sem hafði sig ekki mikið í frammi í leiknum vegna góðrar gæslu Matthew Upson, loksins að snúa á Upson og koma skoti á markið sem Green varði.  Piquionne klúðraði svo dauðafæri er hann skallaði yfir markið frá markteig þegar auðveldara virtist að setja boltann í netið.

Fyrirliði Liverpool, Steven Gerrard, átti dapran dag og var það kórónað með föstu skoti sem fór vel yfir markið, eftir að hann hafði leikið framhjá nokkrum varnarmönnum West Ham.  Joe Cole fékk svo hálffæri eftir undirbúning Suarez en hann náði ekki stjórn á boltanum.

Á 84. mínútu náðu leikmenn Liverpool að minnka muninn er boltinn barst til Suarez inní vítateig eftir barning úti á vinstri kanti.  Suarez gerði vel er hann sneri á Scott Parker og lék upp að endamörkum, sendi boltann þvert fyrir markið og þar kom Glen Johnson og setti boltann í markið auðveldlega.

Þarna héldu margir að heimamenn myndu jafnvel missa niður unnin leik í jafntefli en Carlton Cole var á öðru máli, sending barst upp völlinn og Cole og Skrtel börðust um boltann.  Cole einfaldlega skildi Slóvakann eftir á rassinum, lék inní vítateig og þrumaði boltanum í markið.  Að ósekju hefði Pepe Reina átt að verja þetta skot en fast var það engu að síður.

3-1 tap var staðreynd og leikmenn Liverpool náðu sér aldrei á strik í leiknum, nánast allir leikmenn liðsins áttu dapran dag á meðan leikmenn West Ham léku einn sinn besta leik á tímabilinu.

West Ham:  Green, Bridge, Upson, Tomkins, Jacobsen, Parker, Hitzlsperger, Noble, O'Neil, Piquionne (Spector 82. mín.), Ba (Cole, 89. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Boffin, Da Costa, Reid, Hines, Boa Morte.

Mörk West Ham:  Parker (22. mín.), Ba (45. mín.) og Cole (90. mín.).

Liverpool:  Reina, Kelly (Cole, 43. mín.), Carragher, Skrtel, Wilson, Johnson, Lucas, Meireles (Ngog, 49. mín.), Gerrard, Suarez, Kuyt.  Ónotaðir varamenn:  Gulacsi, Kyrgiakos, Poulsen, Spearing, Rodriguez.

Mark Liverpool:  Johnson (84. mín.).

Gult spjald:  Skrtel.

Maður leiksins:  Erfitt er að velja mann leiksins að þessu sinni en nafnbótina hlýtur Glen Johnson einfaldlega vegna þess að hann kom boltanum í mark West Ham.

Kenny Dalglish:  ,,Leikmennirnir hafa staðið sig frábærlega fram til þessa og ég er nokkuð viss um að einhverntímann myndum við tapa.  Það hrós sem leikmennirnir hafa fengið hefur verið verðskuldað og ég held að þeir verði að vera hreinskilnir við sjálfa sig eftir þennan leik og viðurkenna að þeir fengu það sem þeir áttu skilið.  Við erum vonsviknir með það hvernig við spiluðum.  Við byrjuðum ágætlega en þeir náðu svo inn marki - það gaf þeim meira sjálfstraust og þeir byggðu á því."

Fróðleikur:

- Liverpool hefur ekki verið ofar í deildinni á þessu keppnistímabili. Liðið er nú í sjötta sæti.

- Fyrri leik liðanna lauk með öruggum sigri Liverpool 3:0.

- Liverpool hafði ekki tapað í síðustu átta leikjum fyrir þennan leik.
 
- Í þeim leikjum hafði liðið aðeins fengið á sig eitt mark.

- Liverpool hafði unnið síðustu fjóra leiki gegn West Ham.

- Glen Johnson skoraði sitt annað mark á leiktíðinni, hann skoraði líka í fyrri leik liðanna á Anfield.

- Danny Wilson spilaði sinn fyrsta Úrvalsdeildarleik fyrir liðið.

- Lucas spilaði sinn 100. leik fyrir félagið í Úrvalsdeildinni, hann hefur skorað eitt mark í þessum 100 leikjum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan