| Sf. Gutt

Liverpool marði sigur

Liverpool marði sigur á Fulham í kvöld. Eina markið í leiknum var með allra furðulegustu sjálfsmörkum sem hafa sést á Anfield í sögu þess fræga leikvangs. Sigurinn kom Liverpool upp í sjöunda sæti og hefur liðið ekki verið betur statt lengi.

Steven Gerrard var laus úr leikbanni og fyrir leik veltu menn því fyrir sér hvort hann kæmist í liðið eftir góðan leik liðsins gegn Úlfunum. Þegar til kom fór Steven beint í liðið í stað Lucas Leiva sem var tognaður á læri.

Liverpool hélt áfram þaðan sem frá var horfið, úr síðasta leik, í byrjun leiks og eftir fimm mínútur lá boltinn í marki Fulham. Raul Meireles fékk boltann rétt inn á vallarhelmingi Fulham og sendi hárnákvæma sendingu á Fernando Torres. Hann lék upp að vítateignum og skoraði af miklu öryggi. Fögnuðurinn stóð þó stutt því línuvörðurinn dæmdi rangstöðu. Þar hafði sá rangt fyrir sér því Fernando var greinilega réttstæður. Kannski hefði verið betra að hafa konu sem línuvörð?

Liverpool hélt áfram að sækja og á 10. mínútu tók Martin Kelly góða rispu upp hægri kantinn. Fyrirgjöf hans var stórgóð og Raul Meireles henti sér fram og skallaði en David Stockdale verði mjög vel. Á 25. mínútu varð David aftur að taka á honum stóra sínum þegar Glen Johnson lék sig í skotfæri rétt utan vítateigs. Glen náði góðu skoti en David sló boltann yfir. 

Gestirnir ógnuðu ekkert framan af og réttur hálftími var liðinn þegar þeir gerðu það en þá fengu þeir tvö færi á einni mínútu. Fyrst náði Clint Dempsey þokkalegu skoti sem Jose Reina og hættunni var bægt frá. Nokkrum sekúndum síðar slapp Andy Johnson inn á vítateiginn vinstra megin. Hann sendi svo út í teiginn á Moussa Dembele en skot hans var slakt og boltinn fór beint á Jose. Þar slapp Liverpool vel. Rétt fyrir lok hálfleiksins sendi Martin Kelly góða sendingu fyrir markið en skalli Fernando hitti ekki markið. Markalaust var í leikhléi. 

Liverpool náði forystu á 52. mínútu með stórfurðulegu marki. Dirk Kuyt komst inn í sendingu rétt við vítateiginn. Boltinn fór á Fernando sem skaut að marki rétt innan við vítateigslínuna. Á leiðinni að marki hrökk boltinn í varnarmann og þaðan í stöngina. Ekkert virtist ætla að verða úr frekari hættu því tveir varnarmenn Fulham og markmaðurinn voru á svæðinu og Raul komst ekki að boltanum. Varnarmennirnir þvældust þó hvor fyrir öðrum og það endaði með því að John Pantsil sendi boltann í sitt eigið mark. Til að gera markið ennþá furðulegra þá snerti John boltann í tvígang áður en hann hafnaði í markinu fyrir framan The Kop. Markinu var fagnað enda gott og gilt en sé talað um falleg mörk þá verður þetta að teljast með þeim ófríðari!

Nú hefði átt að vera kostur fyrir Liverpool að taka leikinn í sínar hendur en svo varð ekki. Allt var þó í öruggum höndum lengst af en eftir því sem leið að leikslokum fór spenna að gera vart við sig í liði Liverpool og menn að draga sig aftar á völlinn. Á 59. mínútu átti Clint gott viðstöðulaust skot efttir fyrirgjöf frá hægri en skotið var beint á Jose sem varði.

Á 74. mínútu náði Liverpool glæsilegri sókn skyndisókn. Jose kastaði boltanum fram á Raul sem var við miðju. Hann tók á rás fram völlinn en fyrir miðjum teig hugðist hann senda boltann til vinstri. Varnarmaður komst fyrir og boltinn fór rétt framhjá marki Fulham og í horn. Þarna hefði Raul átt að halda áfram sjálfur upp að markinu því aðeins einn varnarmaður var til staðar.

Þegar tíu mínútur voru eftir slapp mark Liverpool í tvígang. Fulham átti fyrst horn frá vinstri. Eftir það skallaði Aaron Hughes en Jose sló boltann í horn hinu megin. Boltinn hefði þó farið framhjá en Jose tók enga áhættu. Horn kom nú frá hægri og eftir það stökk norski risinn Brede Hangeland hæst og skallaði framhjá öllum nema Raul sem bjargaði á marklínu. Hann hitti þó boltann ekki vel og á slæmum degi hefði hann kannski farið í markið en núna fór allt vel. 

Síðustu fimm mínúturnar voru æsispennandi því gestirnir lögðu sig alla í að jafna og leikmenn Liverpool urðu að vera vel á verði. Ekkert mátti út af bera en Liverpool náði að hanga á sjálfsmarkinu góða og merja sigur. Í heild lék Liverpool ekki vel en stigin þrjú voru aðalatriðið eins og alltaf. Ekki veitir af að ná sem flestum stigum í hús til vors.   

Liverpool:
Reina, Kelly, Skrtel, Agger, Johnson, Meireles, Poulsen (Aurelio 80. mín.), Kuyt (Shelvey 66. mín.), Gerrard, Rodriguz og Torres. Ónotaðir varamenn: Gulacsi, Cole, Pacheco, Wilson og Ngog.
 
Mark Liverpool: John Pantsil, sm, (52. mín.).

Fulham: Stockdale, Pantsil, Hughes, Hangeland, Baird, Duff (Gera 63. mín.), Sidwell, Murphy, Dempsey, Dembele og A. Johnson. Ónotaðir varamenn: Etheridge, Kelly, Salcido, Kamara, Greening og Davies.
 
Gult spjald: John Pantsil.
 
Áhorfendur á Anfield Road: 40.466.

Maður leiksins: Raul Meireles. Portúgalinn var besti maður Liverpool í leiknum. Hann var sterkur á miðjunni og aðeins frábær markvarsla kom í veg fyrir að hann skoraði með góðum skalla. Raul var á svæðinu þegar sigurmarkið kom og svo bjargaði hann á línu þegar allt stefndi í að jöfnunarmark kæmi.

Kenny Dalglish: Ég held að við séum nú betri en sjöunda sæti segir til um og ég held að stigataflan sé að taka raunsannari mynd á sig. Við erum í sjöunda sæti og þar vill þetta félag ekki vera. Við viljum vera hærra í töflunni. Við verðum að vinna fleiri leiki, við stefnum að því og næsti leikur er við Stoke næsta miðvikudag. Fulham munu hugsa að þeir hafi átt meira skilið en það hafa verið margir leikir sem við höfum átt meira skilið út úr. 

                                                                            Fróðleikur

- Liverpool vann sinn fyrsta leik undir stjórn Kenny Dalglish á Anfield Road eftir endurkomu hans á dögunum.

- Fulham hefur aldrei unnið deildarleik á Anfield.

- Fulham hefur ekki tekist að skora eitt einasta mark í síðustu fimm heimsóknum sínum á Anfield. 

- Frammistaða Fulham á útivöllum er skelfileg. Liðið hefur einungis unnið tíu af síðustu 108 útileikjum sínum í deildinni.

- Eini leikmaður Fulham sem hefur skorað þrennu gegn Liverpool er Roy Dwight, frændi Elton John. Það gerði hann árið 1956.

- Martin Skrtel lék sinn 110. leik með Liverpool. Hann hefur skorað tvívegis.

- Þessi leikur átti að fara fram rétt fyrir jól en var frestað vegna vetrarríkis. Hefði leikurinn farið fram þá hefði Roy Hodgson fengið tækifæri til að stjórna Liverpool gegn sínu gamla félagi.

- Markatala Liverpool er nú jöfn og hefur ekki verið betri lengi!

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC. 

Hér eru svipmyndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

Hér má sjá viðtal við Kenny Dalglish. 

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan