| Grétar Magnússon

Shelvey hungrar í meira

Jonjo Shelvey var óvænt í byrjunarliði Liverpool í gær gegn Napoli.  Þessi 18 ára leikmaður var einn af bestu mönnum liðsins í leiknum og nú hungrar hann í fleiri tækifæri.

Liverpool sitja á toppi K-riðils eftir jafnteflið með 5 stig og nú þegar riðlakeppnin er hálfnuð lítur áframhald í keppninni vel út.  Shelvey var einn af sjö leikmönnum sem komu inn í byrjunarliðið eftir tapið gegn Everton um helgina, hann var hvergi banginn og sýndi það að val Hodgson á honum átti rétt á sér.

Shelvey var ánægður með frammistöðu sína og liðsins í heild og vill hann alls ekki að langt verði í næsta tækifæri hjá sér.

,,Þetta er erfiður völlur að spila á áhorfendurnir létu í sér heyra," sagði Shelvey.  ,,Þeir voru að berja utaná rútuna þegar við vorum á leiðinni á völlinn.  Þetta voru því ánægjuleg úrslit.  Virkilega góð fyrir alla hjá félaginu.  Persónulega er ég mjög ánægður og ég hef verið að bíða eftir tækifærinu til að sýna stjóranum að ég er nógu góður."

,,Þetta er stökkpallur fyrir mig.  Næsta verkefni er að ganga úr skugga um að við náum þrem stigum á sunnudaginn.  Stjórinn sagði að við hefðum spilað vel sem lið og að við áttum jafnteflið skilið.  Það er augljóst að Napoli er gott lið, þeir létu boltann ganga mjög vel en við vorum með leikskipulag og það virkaði.  Í raun má kannski líta á það að við vorum óheppnir að vinna ekki því við fengum nokkur ágæt færi."

Shelvey, sem kom frá Charlton í sumar hefur verið hluti af liðinu alveg frá því að Hodgson var ráðinn til starfa og hann segir að stjórinn sé sífellt að hvetja sig áfram.

,,Hann sagði mér persónulega að ég ætti að vera fullur sjálfstrausts og gera mitt besta.  Ég vil meira núna og ná einhverjum leikjum í reynslubankann.  Vonandi er ekki langt í næsta tækifæri.  Ég er ekki leikmaður sem verð taugaóstyrkur og ég hef trú á eigin hæfileikum.  Ég veit að ég get unnið gott starf hér og ég get ekki beðið eftir því að spila meira."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan