| Heimir Eyvindarson

Tap í grannaslagnum

Liverpool tapaði enn einum leiknum á tímabilinu í dag. Nú var það Everton sem rúllaði yfir okkar menn í baráttunni um Bítlaborgina.

Það eru ár og dagar síðan nágrannarimma Everton og Liverpool flokkaðist undir botnslag, en þessi fornfrægu lið hafa bæði byrjað tímabilið afleitlega. Fyrir leikinn var Everton í 17. sæti og Liverpool í því 18. Það var því til mikils að vinna fyrir bæði lið og dýrmæt 3 stig í boði. Stig sem kæmu sigurvegurunum upp á miðja töfluna.

Svo virtist sem leikmönnum Everton væri meira kappsmál að standa sig í þessum leik. Fyrstu mínúturnar sóttu þeir bláklæddu án afláts og okkar menn gerðu lítið af viti fram á við. Að vísu hélt Liverpool boltanum ágætlega sín á milli á eigin vallarhelmingi fyrstu 5 mínúturnar eða svo, en eftir það hófst einstefna Everton manna að okkar marki.

Fyrsta raunverulega færi leiksins kom á 12. mínútu þegar Phil Jagielka skaut naumlega framhjá marki Liverpool. Tveimur mínútum síðar var Distin kominn í sóknina fyrir heimamenn, en skot hans hafnaði í varnarmanni Liverpool og fór aftur fyrir.



Nokkur harka var í leiknum framan af og því var það aðeins tímaspursmál hvenær fyrsta spjaldið færi á loft hjá dómara leiksins, Howard Webb. Það fór á loft á 18. mínútu og var Argentínumaðurinn Maxi Rodriguez þess heiðurs aðnjótandi að líta það, en þetta var í fyrsta sinn í leiknum sem eitthvað sást til hans.

Á 23. mínútu kom besta færi Liverpool í fyrri hálfleik. Þá sendi Joe Cole háan bolta á Fernando Torres inn í teig. Torres sneri baki í markið en náði að nikka boltanum að marki og Tom Howard neyddist til að slá boltann yfir og í horn. Mínútu síðar skaut Lucas Leiva yfir markið fyrir utan teig og svo virtist sem okkar menn væru að komast aðeins betur inn í leikinn.

Everton hafði fram að þessu pressað okkar menn mjög hátt á vellinum og voru mun baráttuglaðari og grimmari, en upp úr miðjum hálfleiknum komst Liverpool í betri takt við leikinn. En eftir nokkrar sæmilegar sóknir, sem þó ollu Everton mönnum engum  teljandi vandræðum kom fyrsta mark leiksins. Öfugu megin á vellinum!

Seamus Coleman tók þá mikinn sprett og brunaði inn í teig með Lucas Leiva og Paul Konchesky á hælunum. Þeirra varnarvinna var svo frámunalega slök að Coleman átti ekki í nokkrum vandræðum með að renna boltanum út í teiginn á Tim Cahill, sem þrumaði honum í marknetið. Óverjandi fyrir Pepe Reina í markinu.

Staðan orðin 1-0.

Liverpool fékk eitt hálffæri það sem eftir lifði hálfleiksins, en þeir Fernando Torres og Raul Meireles náðu að þvælast hvor fyrir öðrum inni í teignum þannig að ekkert varð úr því. Okkar menn héldu því til búningsherbergja á Goodison Park með 1-0 á bakinu og hafa sjálfsagt verið hvíldinni fegnir.

Liverpool byrjaði seinni hálfleikinn af örlítið meiri krafti en þann fyrri og strax á 46. mínútu átti Maxi sæmilegt skot, sem Howard varði reyndar býsna auðveldlega. Okkar menn sóttu nokkuð stíft fyrstu fimm mínútur hálfleiksins en þá kom reiðarslagið.

Everton fékk horn á 50. mínútu og Kyrgiakos skallaði boltann út úr teignum. Það vildi ekki betur til en að boltinn fór beint fyrir fætur Mikel Arteta, sem þrumaði boltanum í markið fram hjá Pepe Reina sem sá boltann allt of seint. Með góðum vilja hefði Howard Webb reyndar getað dæmt markið af vegna rangstöðu, en Nígeríumaðurinn Yakubu stóð kolrangstæður inni í markteig og byrgði Reina sýn. Liverpool kvörtuðu svo sem ekki sáran yfir því og markið stóð.

Staðan orðin 2-0 á Goodison og útlitið svart.

Það sem eftir lifði leiks lá Everton liðið frekar aftarlega á vellinum og varðist á mörgum mönnum. Þeir áttu þó nokkrar skyndisóknir sem sköpuðu hættu. Okkar menn sköpuðu hins vegar svo að segja enga hættu með andlausu spili sem byggðist mest á því að dæla háum boltum inn í teig þar sem Fernando Torres var oftast aleinn og átti enga möguleika á að ná til boltans á undan hávöxnum miðvörðum Everton.

Þrátt fyrir andlausan, hugmyndasnauðan og hægan leik okkar manna sá Roy Hodgson enga ástæðu til að gera breytingar á liðinu fyrr en á 70. mínútu, þegar David NGog kom inn á fyrir Lucas Leiva.
 


Innkoma Frakkans breytti engu og Everton menn voru nær því að bæta við forystuna, en að okkar mönnum tækist að minnka muninn.

Á 80. mínútu ákvað Hodgson loks að gera aðra breytingu á liðinu. Joe Cole fór þá út af og inn á kom Ryan Babel.  Babel virkaði frískur, en náði ekki að setja sitt mark á leikinn.

Það var síðan ekki fyrr en á 84. mínútu sem Maxi Rodriguez fór loks af velli, en hann hafði verið arfaslakur allan leikinn, eins og reyndar margir aðrir í liðinu. Milan Jovanovic kom inn á fyrir Maxi.

Það fór að vísu ekki mikið fyrir Serbanum, en samt sem áður lifnaði örlítið yfir leik okkar manna á lokamínútunum. Raúl Meireles, Fernando Torres og Ryan Babel áttu þá allir sæmilegar marktilraunir, en allt kom fyrir ekki og eftir 94. mínútna leik flautaði Howard Webb leikinn af.

2-0 tap í baráttunni um Bítlaborgina ófrávíkjanleg og hundsvekkjandi staðreynd og útlitið langt frá því að vera bjart. 

Liverpool: Reina, Konchesky, Skrtel, Kyrgiakos, Carragher, Meireles, Lucas (NGog 70. mín.), Gerrard, Cole (Babel 80. mín.), Rodriguez (Jovanovic 84. mín.) og Torres. Ónotaðir varamenn: Jones, Spearing, Kelly og Aurelio.
 
Gul spjöld: Raúl Meireles, Maxi Rodriguez og Fernando Torres.   Gul spjöld: Cahill og Beckford.

Everton: Howard, Neville, Jagielka, Distin, Baines, Coleman, Heitinga (Hibbert 72. mín.), Arteta (Beckford 74. mín.), Osman (Bilyaletdinov 46. mín.), Cahill, Yakubu.

Mörk Everton: Cahill á 34. mín. og Arteta á 50. mín.  

Gul spjöld: Cahill og Beckford.

Áhorfendur á Goodison Park:
39,764.
 

Maður leiksins: Raúl Meireles. Ef frá er talin slök varnarvinna Portúgalans í seinna marki Everton var hann líklega skásti maður Liverpool í dag. Hann barðist vel og var eini miðjumaður liðsins sem var eitthvað ógnandi fram á við.

Roy Hodgson: Við fengum á okkur mikla pressu á fyrstu mínútunum eins og við var að búast. En um miðjan fyrri hálfleikinn fannst mér við ná tökum á leiknum. Við stjórnuðum spilinu síðan algjörlega í seinni hálfleiknum og áttum svo sannarlega skilið að fá stig út úr leiknum. Ég neita að viðurkenna að við höfum verið yfirspilaðir hér í dag. Frammistaðan í síðari hálfleik var það besta sem liðið hefur sýnt undir minni stjórn.

Það verður að segjast eins og er að þessi ummæli Hodgson vekja upp margar spurningar. Fyrst og fremst þó spurninguna um það hvort hann var örugglega að horfa á sama leik og við hin!


Fróðleikur

-Þetta var fyrsti leikur Liverpool eftir að hinir Bandarísku New England Sports Ventures eignuðust liðið. John W. Henry og Thomas Werner, forstjóri og formaður NESV, voru báðir meðal áhorfenda.

-Þetta var 9. leikur Liverpool í Úrvalsdeildinni í vetur og enn hefur liðinu einungis tekist að vinna einn leik í deildinni.

-Roy Hodgson hefur ekki leitt lið til sigurs á útivelli í síðustu 22 leikjum sínum sem stjóri Fulham og Liverpool!

-Það má kallast frétt að ekkert rautt spjald fór á loft á Goodison Park í dag, en í síðustu viðureignum liðanna hafa rauð spjöld ósjaldan litið dagsins ljós. Alls hafa 10 rauð spjöld farið á loft í 11 síðustu innbyrðis viðureignum liðanna í Úrvalsdeildinni.

-Þetta var fyrsti sigur Everton á Liverpool í Úrvalsdeildinni síðan 2006.

-Everton goðsögnin Dixie Dean er sá leikmaður sem hefur skorað flest mörk í innbyrðis viðureignum Liverpool og Everton, eða 18 mörk í 19 leikjum. Næstur á listanum er Ian Rush sem skoraði 13 mörk í 25 leikjum.

-Af þeim leikmönnum sem enn eru í eldlínunni er Tim Cahill nú markahæstur, en mark hans í dag var það fimmta sem hann skorar í viðureignum nágrannanna í Bítlaborginni.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan