| Heimir Eyvindarson

Okkar markmið er einfalt

Dirk Kuyt segir að markmið Liverpool á þessari leiktið sé mjög einfalt: Að vinna alla leiki!

Kuyt segist í samtali við Liverpoolfc.tv vera handviss um það að Liverpool komist fljótlega aftur í hóp þeirra bestu. Hann vonar að leikurinn gegn Blackpool komi liðinu á rétta braut.

Liverpool hefur ekki unnið leik í Úrvalsdeildinni síðan 29. ágúst, þegar liðið lagði W.B.A. og Kuyt segir að nú sé komið að því að rétta kúrsinn.

,,Liverpool á og þarf að vinna alla leiki. Ef það gerist ekki verða bæði leikmennirnir og stuðningsmennirnir svekktir. Við erum allir á fullu við að reyna að bæta leik liðsins og þess er ekki langt að bíða að þið sjáið aftur hið rétta Liverpool lið. Lið sem getur unnið hvaða leik sem er."

,,Það er of snemmt að spá fyrir um það hvar við endum í vor, en markmiðið er einfalt. Það er að vinna hvern einasta leik. Þegar við komumst aftur á bragðið og vinnum nokkra leiki í röð þá getum við farið að velta fyrir okkur hvar á töflunni við verðum þegar upp verður staðið."

Kuyt bendir á þá staðreynd að þrátt fyrir að Liverpool liðið hafi einungis fengið sex stig úr fyrstu sex leikjum sínum í Úrvalsdeildinni sé liðið ekki nema fimm stigum frá Meistaradeildarsæti.

,,Maður verður að vera bjartsýnn. Deildin er mjög þétt og það virðast allir geta unnið alla. Ef við náum nokkrum góðum úrslitum í röð þá erum við allt í einu komnir í toppbaráttuna. Við leggjum hart að okkur og vonandi komumst við í gang sem fyrst. Við sjáum svo hverju það skilar okkur á stigatöflunni."
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan