| Heimir Eyvindarson

Ég elska að spila á móti Man U.!

Joe Cole hlakkar gríðarlega til morgundagsins, en hann segist elska að spila á móti Manchester United.

Ferll Joe Cole hjá Liverpool byrjaði dálítið undarlega eins og flestir vita. Hann fékk rautt spjald í fyrsta deildarleiknum, gegn Arsenal, og var í kjölfarið dæmdur í þriggja leikja bann í Úrvalsdeildinni. Í Evrópudeildinni klúðraði hann síðan víti í sínum fyrsta leik þannig að varla er hægt að segja að hann hafi átt óskabyrjun í Bítlaborginni.

En nú er farið að rofa til hjá þessum snjalla leikmanni. Hann spilaði allan leikinn gegn Steaua Bukarest á fimmtudaginn og skoraði glæsilegt mark eftir tæplega hálfrar mínútu leik. Hann þótti spila vel í leiknum og var af mörgum talinn maður leiksins. Hann hefur nú afplánað Úrvalsdeildarbannið og er klár í slaginn gegn erkifjendum okkar og nágrönnum í Manchester borg á morgun.

,,Ég elska að spila á móti Man U.", segir Cole í viðtali við Liverpool Echo. ,,Old Trafford er flottur leikvangur og það er ekki hægt að hugsa sér betri stað til að vinna útileik!"

,,Ég get ekki beðið eftir morgundeginum. Mér hefur alltaf fundist frábært að mæta Man U. en nú fæ ég að mæta þeim í Liverpool treyjunni og þá bætist við allt það sem er í gangi milli þessara stórvelda í boltanum. Þetta verður frábær upplifun."

,,Leikurinn er auðvitað afar mikilvægur líka. Man U. er svolítið í sömu sporum og við, þeir hafa ekki fengið neina óskabyrjun þannig að kannski verður það þessi leikur sem sker úr um það hvort liðið nær sér á strik. Þetta verður allavega spennandi leikur og vonandi tekst okkur að ná góðum úrslitum á Old Trafford."

,,Hvað sjálfan mig varðar þá er ég klár í slaginn. Fólk hefur sagt mér hversu mikla þýðingu þessir leikir hafa og ég mun svo sannarlega gera mitt besta á morgun."

Cole hefur hingað til einungis spilað 45 mínútur með Liverpool í Úrvalsdeildinni, en honum var vísað af velli í lok fyrri hálfleiks í fyrsta leik tímabilsins.

,,Það hefur verið mjög erfitt að vera í banni. Það er næstum mánuður liðinn frá þessu leiðindaatviki og ég get ekki beðið eftir að spila meira. Það var frábært að við skyldum vinna góðan sigur í Evrópudeildinni á fimmtudaginn. Það gefur okkur aukið sjálfstraust. Ég hef aldrei skorað jafn snemma og ég gerði í þeim leik, þannig að þetta var skemmtileg upplifun."

,,Nú vil ég bara spila og spila. Þetta hefur verið erfitt það sem af er. Fyrst áttum við frekar erfitt undirbúningstímabil þar sem liðið var með svo marga leikmenn á HM sem komu seint til baka. Síðan tók bannið við hjá mér þannig að það hefur ýmislegt gengið á. En það hafa allir trú á því sem stjórinn er að gera og nýju leikmennirnir, Meireles, Konchesky og Poulsen, lofa góðu þannig að það stefnir allt upp á við hjá okkur."

,,Við notum þetta tímabil fyrst og fremst til að byggja upp liðið að nýju. Með Evrópuleikjunum höfum við spilað 9 leiki og unnið 5. Við erum á réttri lið. Nú þurfum við bara að bæta okkar leik jafnt og þétt og byggja upp liðið í rólegheitunum."
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan