| Heimir Eyvindarson

Óþarflega stórt tap gegn City

Það voru niðurlútir leikmenn Liverpool sem gengu af velli í Manchester í kvöld eftir 3-0 sigur heimamanna í Manchester City.

Talsvert gekk á í herbúðum Liverpool fyrir leikinn, eins og fram hefur komið hér á síðunni. Javier Mascherano fór í feiknafýlu yfir því að Liverpool skyldi ekki samþykkja boð Barcelona í sig, en boðið var samkvæmt Hodgson allt of lágt til þess að hægt væri að ganga að því. Sögusagnir voru á kreiki um það að Mascherano hefði hreinlega neitað að spila leikinn, en Roy Hodgson segir að það hefði aldrei komið til greina að nota hann í leiknum þar sem hann var alls ekki í réttu hugarástandi. Það kom því í hlut Lucas Leiva að standa vaktina á miðjunni ásamt fyrirliðanum Steven Gerrard.

Roy Hodgson stillti upp 4-4-2 leikkerfi með David Ngog og Fernando Torres saman í framlínunni. Það gaf góðar vonir um að Liverpool ætlaði sér ekki að spila upp á jafntefli. Liverpool byrjaði leikinn líka ágætlega og Torres og Ngog virkuðu frískir frammi. En smám saman náði Manchester City yfirhöndinni í leiknum og munaði þar kannski sérstaklega um sterka miðju þar sem Nigel DeJong og Gareth Barry fóru mikinn. Þá ollu James Milner og Adam Johnson okkar mönnum töluverðum vandræðum á köntunum.

Það var einmitt eftir gott samspil Milner og Johnson sem Gareth Barry var allt í einu kominn í hörkufæri í vítateig Liverpool. Skotið reið af og 1-0 var óhjákvæmileg staðreynd eftir einungis 18 mínútna leik. Rangstöðugildra Liverpool brást og Daniel Agger gleymdi Johnson fyrir aftan sig inni í teignum. Þótt ekki sé ætlunin að gera lítið úr marki Barry þá var aðdragandinn óþarflega klaufalegur af hálfu okkar manna.

City menn tvíefldust við markið og voru betri á öllum sviðum það sem eftir lifði hálfleiksins. Carlos Tevez, James Milner og Gareth Barry áttu allir ágæt færi en Reina og Carragher sáu við þeim.

Á lokamínútum fyrri hálfleiks kviknaði þó smá vonarglæta hjá okkar mönnum þegar Milan Jovanovic og Fernando Torres áttu góða rispu saman sem endaði með því að boltinn barst til Steven Gerrard sem skaut naumlega fram hjá. Ágæt tilraun og lagleg sókn. Það var því enn von í brjósti stuðningsmanna Liverpool þegar leikmenn héldu til búningsklefanna í leikhléi.

Leikmenn Liverpool komu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik, greinilega búnir að fá skipun frá stjóranum um að hysja nú upp um sig buxurnar. Það voru þó ekki liðnar nema 7 mínútur af hálfleiknum þegar City komst í 2-0. Þá skallaði Micah Richards í jörðina og inn af stuttu færi eftir hornspyrnu. Markið var reyndar skráð á Carlos Tevez sem þvældist fyrir Reina á marklínunni, en kom ekki mikið við boltann, ef eitthvað.

Nú var alveg ljóst að á brattann yrði að sækja. En Steven Gerrard neitaði að gefast upp og átti tvær mjög góðar marktilraunir. Í annað skiptið sýndi Joe Hart markvörður City hvers hann er megnugur, en hann varði þá í tvígang glæsilega af stuttu færi frá Ngog og Torres, eftir að þrumskot Gerrard hafði farið í stöngina og út í teig. Ef okkar menn hefðu skorað á þessum tímapunkti er aldrei að vita nema gæfan hefði snúist okkur í hag, enda oft talað um að þriðja mark í leik geti skipt sköpum. Illu heilli fyrir Liverpool voru það Manchester City menn sem skoruðu þriðja markið. Þar var Tevez aftur að verki, nú úr vítaspyrnu.

Adam Johnson var þá enn að gera okkar mönnum lífið leitt. Hann dansaði inn á vítateig þar sem Martin Skrtel tók hann klaufalega niður. Óþarfa brot hjá Slóvakanum, enda Johnson kominn í þrönga stöðu, en Phil Dowd dómari leiksins gat ekki annað en bent á punktinn. Tevez sendi Reina í vitlaust horn og skoraði af miklu öryggi. 3-0 staðreynd eftir 67 mínútna leik og nokkuð ljóst að leikmenn Liverpool færu stigalausir frá Manchester borg að þessu sinni.

Okkar menn reyndu að klóra í bakkann, en áttu fáar gagnlegar rispur. Besta færið átti Ryan Babel rétt eftir að hann kom inná á sem varamaður á 78. mínútu. Babel þeystist þá upp vinstri kantinn og skaut bylmingsskoti frá vítateigshorninu, en Joe Hart varði glæsilega í horn.

Fátt fleira markvert gerðist það sem eftir lifði leiks og 3-0 tap staðreynd. Liverpool er nú í 17. sæti deildarinnar, með eitt stig eftir tvo leiki.


Liverpool:
Reina, Johnson, Carragher, Skrtel, Agger, Leiva, Gerrard, Kuyt, Jovanovic, Ngog (Pacheco 85. mín.) og Torres (Babel 78. mín.). Ónotaðir varamenn: Jones, Aurelio, Rodríguez, Kyrgiakos og Poulsen. 
 
Gul spjöld: Martin Skrtel.

Manchester City: Hart, Lescott, Toré, Kompany, Richards, Touré (Zabaleta 84. mín.), Barry, DeJong, Milner, Tevez (Jo 84. mín.), Johnson. Ónotaðir varamenn: Given, Wright-Phillips, Adebayor, Silva, Vieira.
 
Gul spjöld: Richards.
 
Áhorfendur á City of Manchester stadium: 47.941.

Maður leiksins: Jamie Carragher var einna bestur okkar manna í leiknum. Hann barðist af miklum krafti og stóð uppi í hárinu á öflugum sóknarmönnum City. Á 41. mínútu tók hann eina af sínum einstöku tæklingum þegar hann fleygði sér fyrir skot Carlos Tevez. Þau tilþrif voru eitt af því fáa sem gladdi augað við leik okkar manna. Því miður.

Roy Hodgson: Ég er á því að 3-0 gefi ekki alveg rétta mynd af leiknum. Ég er ekki að halda því fram að við höfum verið betra liðið, en við vorum óheppnir í mörkunum og tapið var of stórt.

                                                                                        Fróðleikur.

- Þetta var 38. sigur Manchester City á Liverpool í ensku deildinni. Liðin hafa nú mæst 149 sinnum. Liverpool hefur unnið 74 sinnum, City 38 sinnum og 37 sinnum hafa liðin skilið jöfn.

- Tapið gegn City var döpur afmælisgjöf fyrir Glen Johnson sem varð 26 ára á mánudaginn.

- Þetta var í fyrsta sinn síðan 1978 sem Manchester City vinnur Liverpool með meira en einu marki. Þá sigraði City okkar menn 3-1 á Maine Road. Þetta var raunar stærsti sigur City á Liverpool síðan 1937, en þá steinlá Liverpool 5-1.

- Ef Javier Mascherano hefði spilað leikinn hefði það verið 100. Úrvalsdeildarleikur hans með Liverpool.
 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan