| Grétar Magnússon

Jafntefli og vonbrigði

Liverpool gerðu markalaust jafntefli á heimavelli við Fulham á sunnudag.  Liðið á nú nánast enga möguleika á því að ná fjórða sæti deildarinnar.

Rafa Benítez þurfti að gera breytingar frá því í sigrinum á Benfica en Fernando Torres var meiddur á hné og í hans stað kom David Ngog inn í sóknina.  Auk þess komu þeir Alberto Aquilani, Ryan Babel og Maxi Rodriguez inn í stað Lucas Leiva, Yossi Benayoun og Dirk Kuyt.

Fyrir leikinn var mínútu þögn til að minnast þeirra 96 stuðningsmanna Liverpool sem létu lífið á Hillsborough árið 1989.  Nú á fimmtudaginn 15. apríl, er 21 ár liðið frá þessum hörmulega atburði.

Fjarvera Fernando Torres var vissulega ákveðið áfall en leikmenn liðsins virtust ekki ætla að láta það stöðva sig við að vinna leikinn.  Strax á fjórðu mínútu sendi Steven Gerrard fyrir markið þar sem Daniel Agger skallaði boltann áfram til Ryan Babel en því miður hitti Babel boltann illa.

Aftur sendi fyrirliðinn boltann og nú fram völlinn í átt að Ngog.  Frakkinn ungi náði til boltans og sendi hann rétt framhjá fjærstönginni en Mark Schwarzer virtist ekki hafa átt möguleika á því að verja boltann hefði hann stefnt í markið.

Ngog átti svo skot fyrir utan teig sem fór vel framhjá og Aquilani reyndi fyrir sér með skoti beint úr aukaspyrnu en hann skaut í varnarvegg Fulham manna.

Á 22. mínútu kom svo góð sókn heimamanna þegar Ryan Babel lék frá vinstri kanti inná miðjuna og sendi boltann út til hægri á Glen Johnson.  Johnson sendi boltann yfir á vinstri helming vítateigs þar sem Gerrard skallaði boltann til Alberto Aquilani.  Ítalinn reyndi hjólhestaspyrnu en boltinn fór beint á Schwarzer í markinu.

Stuttu síðar kom sending innfyrir vörn Fulham sem Maxi Rodriguez gerði vel í að taka niður, hann var kominn í ákjósanlegt skotfæri en Schwarzer gerði vel í að verja skot hans með hægri fæti.  Þarna hefði Maxi kannski átt að gera betur.

Áfram héldu heimamenn að sækja og Aquilani átti skalla yfir markið eftir sendingu frá Babel á vinstri kanti.  Javier Mascherano átti svo gott skot, eftir 30. mínútna leik, fyrir utan vítateig en aftur var Schwarzer vel vakandi í marki gestanna og sló hann boltann frá.

Jonathan Greening, leikmaður Fulham, var svo heppinn að vera ekki rekinn af velli skömmu síðar er hann braut á Glen Johnson úti hægra megin.  Greening var búinn að fá gult spjald áður í leiknum, fyrir brot á Johnson, en nú slapp hann með skrekkinn.  Rafa Benítez virtist ekki skemmt á hliðarlínunni.

Fátt meira markvert gerðist í fyrri hálfleik og liðin gengu því til búningsherbergja í stöðunni 0-0.

Gestirnir frá London virtust alls ekki hafa mikinn áhuga á því að sækja að marki Liverpool manna og síðari hálfleikur hófst með sókn heimamanna.  David Ngog braust inná vítateiginn hægra megin og sendi fyrir markið.  Boltinn barst til Maxi Rodriguez sem kom honum til Aquilani, Aquilani skaut að marki en sem fyrr varði Mark Schwarzer.

Uppúr hornspyrnunni átti svo Aquilani aftur skot að marki en nú fór boltinn framhjá marki Schwarzer.  Ryan Babel gerðist svo ágengur er hann skaut á nærstöngina eftir að hafa leikið inná vítateig en Schwarzer varði skotið.

Rafa Benítez tók svo Aquilani útaf fyrir Dirk Kuyt á 65. mínútu og sendi Yossi Benayoun inná fyrir Babel nokkrum mínútum síðar.  Á 77. mínútu tóku heimamenn stutta hornspyrnu og Dirk Kuyt sendi fyrir markið úr vítateignum.  Þar kom aðvífandi Sotirios Kyrgiakos og hann skallaði boltann yfir markið, færið var gott og Grikkinn hefði átt að skora þar.

Það eina markverða sem gerðist við mark Liverpool var á 91. mínútu þegar Damien Duff skaut að marki en Pepe Reina sló boltann aftur út í teiginn.

Vonbrigðin leyndu sér svo ekki þegar dómarinn flautaði til leiksloka, tvö stig á heimavelli farin í súginn og nokkuð ljóst að baráttan um fjórða sætið væri nánast töpuð.

Liverpool:  Reina, Johnson, Carragher, Kyrgiakos, Agger, Mascherano, Aquilani (Kuyt, 65. mín.), Babel (Benayoun, 72. mín.), Maxi, Gerrard, Ngog (Pacheco 79. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Cavalieri, Ayala, Degen og Lucas.

Gult spjald:  Jamie Carragher (27. mín).

Fulham:  Schwarzer, Hangeland, Hughes, Konchesky, Baird, Etuhu, Murphy (Dikgacoi 76. mín.), Greening (Riise, 82. mín.), Duff, Zamora (Okaka, 68. mín.), Nevland.  Ónotaðir varamenn:  Zuberbühler, Smalling, Shorey og Kelly.

Gul spjöld:  Greening (18. mín.), Murphy (71. mín.) og Duff (88. mín.).

Áhorfendur á Anfield Road:  42.331.

Maður leiksins:  Alberto Aquilani.  Ítalinn spilaði kannski ekki nema í 65 mínútur en hann var sennilega hættulegasti leikmaður liðsins í leiknum.  Hann ógnaði með skotum sínum og sendingar hans voru góðar.

Rafa Benítez:  ,,Það verður mjög erfitt (að ná fjórða sætinu).  Þetta er ekki í okkar höndum.  Kannski er munurinn of mikill núna.  Maður verður að vera raunsær.  Manchester City eiga leik til góða og þó svo að þeir sigri hann ekki þá eru Tottenham einnig í betri stöðu.  En við verðum að halda áfram vegna þess að það er alltaf mikilvægt að gera sitt besta og enda eins vel og maður getur."

Fróðleikur:  

- Þetta var 8. jafntefli liðsins í deildinni.

- Sömu úrslit urðu í leik þessara liða á Anfield á síðasta tímabili.

- Markahæsti leikmaður Liverpool í deildinni er Fernando Torres með 18 mörk í 22 leikjum.

- Markahæsti leikmaður Fulham í deildinni er Bobby Zamora með 8 mörk í 25 leikjum.

- Torres og Zamora skoruðu sitthvort markið í fyrri leik liðanna á leiktíðinni.

- Fulham og Liverpool eru einu ensku liðin sem eftir eru í Evrópukeppni á tímabilinu og liðin gætu mæst í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan