| Sf. Gutt

Englandsmet hjá Steven Gerrard!

Liverpool gerði vel í gærkvöldi þegar liðið komst áfram í Evrópudeildinni. Í leiknum skoraði Steven Gerrard eitt mark og um leið bætti hann enn einu metinu í metasafn sitt. Reyndar voru metin tvö frekar en eitt. 

Um leið og boltinn lá í markinu eftir skot fyrirliðans féllu tvö met. Í fyrsta lagi þá var þetta 33. Evrópumark Steven Gerrard og þar með bætti hann sitt eigið félagsmet um eitt mark. 

En um leið og boltinn lá í markinu féll líka annað met. Með markinu lá Englandsmet í markaskorun eins manns í Evrópukeppni. Gamla metið átti goðsögnin Alan Shearer og mörk sín skoraði hann með Blackburn Rovers og Newcastle United.

Metið hjá Steven er enn merkilegra fyrir þær sakir að öll hans mörk eru skoruð fyrir sama félagið. Að auki er Steven miðjumaður en Alan Shearer lék alltaf í sókninni. Metið er því glæsilegt á alla staði.

Steven var auðvitað ánægður með nýja metið sitt. "Ég vissi ekki um neitt met fyrir leikinn en það er alltaf gaman að slá met. Það er líka enn skemmtilegra þegar maður tekur met af manni eins og Shearer. Ég ber mikla virðingu fyrir honum og þess vegna er ég mjög ánægður. Það er alltaf sönn ánægja að vera nefndur í sömu andrá og svona mikilmenni."
 
Alls hefur Steven Gerrard skorað 127 mörk fyrir Liverpool í 515 leikjum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan