| Grétar Magnússon

Carra hrósar Darby

Jamie Carragher hrósar sterkum karakter Stephen Darby en þessi 21 árs gamli leikmaður var í byrjunarliðinu gegn Reading í FA Bikarnum á laugardaginn.

Darby spilaði aðeins í annað skiptið í byrjunarliðinu á tímabilinu og má segja að honum hafi aldeilis verið hent útí djúpu laugina því útileikur gegn Reading yrði ávallt erfiður.

Darby hafði áður komið við sögu gegn Fiorentina á Anfield í desember og þótti hann einnig standa sig vel í þeim leik, hann átti þó ákveðna sök á sigurmarkinu þegar hann tapaði boltanum illa á eigin vallarhelmingi sem varð til þess að Fiorentina menn komust upp kantinn og skoruðu.

Carra telur að Darby hafi sýnt mikinn þroska með því að gleyma þessum mistökum, koma sterkur til baka og gera tilkall til sætis í byrjunarliðinu eftir að Glen Johnson meiddist.

,,Hann spilaði mjög vel og ég er mjög ánægður fyrir hans hönd," sagði varafyrirliðinn um Darby.  ,,Mér fannst hann líka spila vel gegn Fiorentina um daginn, hann var bara óheppinn í lok leiksins þegar hann gerði mistök."

,,Leikurinn gegn Reading var ekki sá auðveldasti og það var erfitt að spila hann, en við sýndum mikinn karakter með því að jafna leikinn.  Þetta var frábært fyrir Darby og ég verð einnig að hrósa stjóranum fyrir að velja hann."

,,Það hefði verið auðvelt að velja hann ekki eftir mistökin við Fiorentina, en ef maður skoðar leikinn í heild sinni má sjá að hann var einn besti maður liðsins í þeim leik.  Hann var svo frábær gegn Reading, sem sýnir að hann er ekki aðeins góður leikmaður, heldur með mjög sterkan karakter."

,,Hann var mjög góður í erfiðum leik.  Stundum er auðveldara að spila vel þegar liðið spilar vel, en að spila vel á erfiðum útivelli getur verið mjög erfitt og við erum allir mjög ánægðir með hann því hann er drengur góður."

Liverpool uppskáru aðeins jafntefli úr leiknum við Reading og því þurfa liðin að mætast aftur á Anfield til að skera úr um hvort liðið kemst í fjórðu umferð bikarkeppninnar.

Carra sagði þetta um leikinn:  ,,Við spiluðum ekki vel.  Þetta er erfiður völlur, andrúmsloftið var erfitt og völlurinn var erfiður yfirferðar, en ég verð að hrósa Reading því þeir spiluðu vel.  Það er ekki eins og best verður á kosið að þurfa að spila aftur en það er þó betra en að detta út úr bikarkeppninni."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan