| Ólafur Haukur Tómasson

Hverjir gætu komið? Hluti I

Þá líður senn að áramótunum og opnun félagsskiptagluggans sem opnar í byrjun janúar. Gengi Liverpool hefur ekki verið ásættanlegt og liðið er þegar þetta er skrifað í sjöunda sæti deildarinnar, tólf stigum á eftir efsta liði. Margar ástæður spila eflaust stórt hlutverk í þessu slaka gengi en lykilmenn hafa ýmist verið meiddir eða spilað undir getu og því er ekki ólíklegt að Rafael Benítez, sem hlotið hefur mikla gagnrýni undanfarna mánuði, muni leita eftir því að styrkja leikmannahóp sinn.

Eins og eðlilegt er þá ber sögum um fjármagn Benítez til leikmannakaupa ekki saman en sumar heimildir telja hann þurfa að selja til að kaupa á meðan að aðrar telja að hann fái pening til leikmannakaupa og gróða af sölu leikmanna, hvaða sögur reynast réttar verður að koma í ljós og er algjörlega ómögulegt að spá til um hvað muni gerast.

Margir leikmenn liðsins hafa fengið lítið hlutverk á tímabilinu eða nýtt tækifærin sín illa og er ekki ólíklegt að Benítez muni reyna að selja þá leikmenn til að fá meiri pening í hendurnar. Meðal þeirra leikmanna sem gjarnan eru taldir vera á sölulista Liverpool eru Andriy Voronin, Ryan Babel, Andrea Dossena, Philipp Degen og hafa heyrst orðrómar um að Javier Mascherano og Albert Riera vilji burt frá félaginu en ekkert hefur fengið staðfest í þeim málum.

Eins og í upphafi undanfarinna félagsskiptaglugga þá mun koma smá samantekt af þeim nöfnum sem orðaðir hafa verið við félagið síðustu vikurnar og þeir leikmenn sem hugsanlega gætu gengið í raðir Rauða hersins á nýju ári. Þetta er fyrsti hlutinn.

Victor Moses:
Hér er á ferðinni ungur Englendingur sem spilar með Crystal Palace og unglingalandsliðum Englendinga. Moses er fæddur í Nígeríu en fluttist til Englands ungur að árum eftir að foreldrar hans voru myrtir, þá var hann aðeins ellefu ára gamall.

Þessi nítján ára strákur getur spilað sem kantmaður og framherji en hann er sterkur strákur með mikla boltatækni og gott auga fyrir spili. Hann hefur vakið gífurlega athygli og eru lið á borð við Manchester United, Liverpool, Arsenal Tottenham Hotspurs og Barcelona öll sögð hafa áhuga á stráknum.

Hann er uppalinn hjá Crystal Palace og hefur leikið 66 leiki fyrir aðalliðið síðan árið 2007 en í þeim leikjum hefur hann skorað tíu mörk. Með ensku u16, u17, u18 og u19 ára landsliðunum hefur hann leikið 29 leiki og skorað ellefu mörk. Þessi strákur er mikið efni og gæti orðið sterkur leikur fyrir framtíðina nái Liverpool að krækja í þennan strák sem gæti kostað upp í tíu milljónir punda.


Emile Heskey:
Flest allir Livepool-stuðningsmenn ættu að kannast við Heskey sem lék með Liverpool frá árinu 2000 til ársins 2004, þá lék hann 150 leiki og skoraði 39 mörk. Hann hefur gjarnan verið orðaður við endurkomu til Liverpool en ekkert hefur verið af því hingað til og er hann nú í röðum Aston Villa þar sem honum hefur tekist að vinna sér inn sæti í enska landsliðshópnum og virðist Fabio Capello hafa mikið álit á kappanum.

Stuðningsmenn Liverpool eru misspenntir fyrir mögulegri endurkomu Heskey til Liverpool en þessi 31 árs framherji er sterkur og stór, góður skallamaður og góður í að halda boltanum en styrkleikar hans fyrir framan markið eru því miður ekki eins áberandi og er hann ekki þekktur fyrir að vera mikill markaskorari.

Mögulegt kaupverð á Heskey gæti verið í kringum fimm milljónir punda en líklegt er að hann myndi hoppa á tækifærið til að fara aftur til Liverpool muni það bjóðast.


Roman Pavlyuchenko:
Rússin hávaxni hefur ekki sjö dagana sæla í herbúðum Tottenham síðan hann kom frá rússneska liðinu Sparta Moscow árið 2008. Tottenham hafði betur í baráttunni við mörg lið eftir að Roman hafði slegið í gegn á Evrópumótinu 2008. Kaupverðið var fjórtán milljónir punda og kom hann í kjölfar þess að liðið hafði selt Robbie Keane og Dimitar Berbatov til Liverpool og Manchester United en honum tókst ekki að fylla upp í skarð þessara leikmanna. Hann hefur svo fallið á eftir Robbie Keane, Jermaine Defoe og Peter Crouch í goggunarröðinni og hefur honum verið gefið grænt ljós á að yfirgefa Lundúnarliðið í janúar.

Roman er sterkur skallamaður, fínn á boltanum og mikill markaskorari. Markaskorun hans hjá Sparta Moscow og rússneska landsliðinu er mjög góð en það hefur ekki verið raunin hjá Tottenham en hann hefur tekið þátt í 32 leikjum og aðeins skorað fimm mörk.

Nokkur lið eru sögð hafa áhuga á því að fá Rússan í sínar raðir þegar félagsskiptaglugginn opnar og er Liverpool eitt þeirra en flestar fregnir hafa þó að mestu snúist um lánssamning eða leikmannaskipti því kaupverðið hans, sem talið er vera í kringum níu milljónir punda, gæti reynst of mikið fyrir Liverpool.


Lassana Diarra:
Miðjumaðurinn smávaxni sem er á mála hjá spænsku risunum í Real Madrid en hann hefur verið þar frá síðasta sumri og hefur leikið þrjátíu leiki og skorað eitt marka fyrir þá spænsku.

Honum hefur gengið illa að festa rætur sínar hjá einu ákveðnu félagi á ferlinum en hann var keyptur til Chelsea árið 2005 og var seldur yfir til erkifjendanna í Arsenal tveimur árum seinna. Hjá Arsenal náði hann ekki heldur að vinna sér inn fast sæti í liðinu og var seldur til Portsmouth ári seinna. Hjá Portsmouth náði hann loksins þeim punkti ferilsins þegar hæfileikar hans náðu loksins að lýta dagsins ljós. Hann var lykilmaður í liði Portsmouth sem varð FA-bikarmeistarar árið 2008 og var hann valinn í franska landsliðshópinn en hann hefur verið þar nær óslitið síðan. Í janúar 2009 gekk hann til liðs við Real Madrid á tæplega nítján milljónir punda.

Hans aðalstaða er sem varnarsinnaður miðjumaður einnig getur hanna leyst stöðu hægri bakvarðar en hann lék þá stöðu einmitt að mestu hjá Chelsea. Hann er lágvaxinn en kraftmikill, góður tæklari, gefur fínar sendingar og er fljótur. Hann er að mestu sagður vekja áhuga Liverpool fari sem svo að Javier Mascherano muni yfirgefa félagið, fari Javier þá gæti Diarra gert vel í því að fylla skarðið sem hann myndi láta eftir sig. Hann gæti þó kostað hátt í fimmtán milljónir punda.


Ruud van Nistelrooy:
Aðdáendur ensku Úrvalsdeildarinnar og knattspyrnunar ættu eflaust allir að þekkja til hollensku markamaskínunnar Ruud van Nistelrooy sem hefur gert garðinn frægan með Manchester United, Real Madrid og PSV Eindhoven.

Hvert sem Ruud hefur farið þá hafa mörkin fylgt honum. Hann skoraði mikið í hollensku deildinni þegar hann var á mála hjá PSV þá skoraði hann 62 mörk í 65 leikjum, það vakti athygli Manchester United sem keypti hann árið 2001 fyrir tæplegar tuttugu milljónir punda. Hjá Manchester United skoraði hann 95 mörk í 150 leikjum og var duglegur við að hrella varnarmennina í Úrvalsdeildinni.

Hann féll svo í ónáð við Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóra Manchester United, og var seldur til Real Madrid árið 2006 fyrir 24 milljónir evra. Hann er enn á mála hjá Real Madrid í dag og hefur hann skorað 46 mörk í 68 leikjum en honum hefur ekki tekist að festa sig almennilega í sessi vegna meiðsla og er á eftir Karim Benzema, Raul, Gonzalo Higuain og Cristiano Ronaldo í goggunarröðinni. Samningur þessa 33 ára gamla framherja rennur út næsta sumar og gæti hann fengist ódýrt í janúar, jafnvel á lánssamningi en þess konar samningur er talinn vekja áhuga Rafael Benítez takist honum að fá Ruud til að lækka launakröfur sínar.

Ruud er fæddur markaskorari sem les leikinn vel en er fremur hægur en bætir það heldur betur upp með miklu markanefi, réttum staðsetningum og góðum hlaupum. Ef horft er framhjá þeirri staðreynd að hann hefur gert garðinn frægan með Manchester United þá gæti hann orðið frábær framherji til að deila pressunni með Fernando Torres.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan