| Grétar Magnússon

Sigur í nágrannaslag

Liverpool unnu í dag nágranna sína í Everton á heimavelli bláliða.  Sigurinn var kærkominn og annan leikinn í röð hélt liðið hreinu.

Rafa Benítez stillti upp óbreyttu liði frá því í leiknum gegn Debrecen á þriðjudagskvöldið.  Þetta þýddi að þeir Emiliano Insua, Glen Johnson og David Ngog tóku allir þátt í fyrsta sinn í þessum nágrannaslag.

Eins og svo oft áður í þessum leikjum byrjaði leikurinn nokkuð kröftuglega þar sem bæði lið vildu alls ekki gefa tommu eftir.  Eftir nokkurra mínútna leik hefði Tim Cahill t.d. átt að fá gult spjald er hann keyrði niður Javier Mascherano eftir að Argentínumaðurinn hafði sent boltann á samherja.  Alan Wiley, dómari leiksins sá ekki ástæðu til að lyfta spjaldinu og gaf Cahill aðeins tiltal.

Á 12. mínútu sótti Liverpool upp vinstri kantinn og barst boltinn til Mascherano úti við vítateiginn vinstra megin, hann ákvað að skjóta að marki og virtist boltinn stefna framhjá.  Joseph Yobo varnarmaður Everton slæmdi fæti í knöttinn sem varð til þess að boltinn breytti um stefnu og fór framhjá Tim Howard í markinu og í fjærhornið.  Fyrirliði Argentínumanna fagnaði markinu gríðarlega og hljóp yfir allan völlinn til að fagna með stuðningsmönnum liðsins.

Eftir þetta má segja að heimamenn hafi tekið öll völd á vellinum og gestirnir gátu lítið haldið boltanum innan sinna raða.  Gerrard átti þó ágætt skot að marki en Howard átti ekki í miklum vandræðum með að verja það.  Hávaxnir sóknarmenn Everton gerðu varnarmönnum Liverpool lífið leitt og eftir innkast frá hægri barst boltinn inná teig þar sem Fellaini skallaði boltann aftur fyrir sig, Jo gerði slíkt hið sama og boltinn stefndi fyrir markið.  Jamie Carragher náði að sneiða boltann lengra með höfðinu og við fjærstöngina var staddur rússneski kantmaðurinn Bilyaletdinov sem hefði átt að skora en hann skaut framhjá.

Rússinn átti svo skot að marki stuttu síðar með bakfallsspyrnu en Reina varði vel og Glen Johnson bjargaði í horn.  Steven Pienaar var ógnandi á kantinum hjá heimamönnum og hann átti svo ágætt skot yfir markið.  Jo skoraði svo mark eftir að hafa fengið sendingu innfyrir vörnina frá Bilyaletdinov en hann var réttilega dæmdur rangstæður.

Svotil eina hættulega sókn gestanna átti sér stað undir lok fyrri hálfleiks er Glen Johnson sendi boltann fyrir frá hægri, þar kom Insua askvaðandi og skallaði boltann fast að marki.  Tim Howard var vel á verði og sló boltann frá og David Ngog braut svo af sér þegar Sylvain Distin hreinsaði frá marki.  Virklega vel gert hjá bakvörðum liðsins þarna og var Insua óheppinn að skora ekki.

Heimamenn héldu áfram að ógna og fengu hornspyrnu þar sem Jo skoraði aftur en aftur var hann réttilega dæmdur rangstæður þar sem hann stóð einn fyrir framan Reina í markinu.  Var þetta það síðasta markverða sem gerðist í fyrri hálfleik.

Síðari hálfleikur hófst líkt og sá fyrri endaði, heimamenn vildu ólmir jafna leikinn og gerðu hvað þeir gátu til þess.  Pienaar átti skot að marki sem Reina missti í fæturna á sér en sem betur fer var hann snöggur að grípa boltann að nýju.

Eftir því sem leið á leikinn komust Liverpoolmenn betur inní hann og Daniel Agger skallaði yfir markið eftir hornspyrnu frá hægri.  Var þetta fyrsta hornspyrna liðsins í leiknum.  Dirk Kuyt komst svo af harðfylgi inn í vítateig hægra megin þar sem hann sendi boltann á David Ngog sem skaut að marki en varnarmenn Everton komust fyrir skotið.

Það má segja að vendipunktur leiksins hafi verið þegar heimamenn fengu aukaspyrnu á miðjum vellinum, boltinn var sendur fyrir markið þar sem Tim Cahill skallaði áfram og Reina henti sér niður til að verja, Fellaini var fljótastur að átta sig og á einhvern ótrúlegan hátt skaut hann boltanum í Reina og framhjá.  Þarna má segja að Belginn hafi verið klaufi uppvið markið en ekki má gleyma því að markvarslan hjá Reina var í heimsklassa og bjargaði hann svo sannarlega liðsfélögum sínum þarna.

Fimmtán mínútum fyrir leikslok kom Yossi Benayoun inná fyrir David Ngog sem þýddi að Kuyt var orðinn fremstur í sókninni.  Þrem mínútum síðar kom svo Albert Riera inn á vinstri kantinn fyrir Fabio Aurelio.  Á 80. mínútu átti Liverpool aukaspyrnu á sínum eigin vallarhelmingi og spyrnti Reina fram völlinn.  Dirk Kuyt skallaði boltann inní vítateig og gerði Yobo sig sekan um mistök er hann náði ekki að hreinsa boltann frá.  Steven Gerrard kom hlaupandi, vann boltann og náði að nikka honum út í teiginn til Albert Riera sem skaut að marki.  Tim Howard gerði vel í að verja en boltinn barst til Kuyt sem gat lítið annað en skorað.

Fögnuðurinn var mikill og nokkuð ljóst að stigin þrjú voru nánast í höfn.  Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði leiks og mikilvægur sigur var í höfn þegar Wiley flautaði til leiksloka.

Everton: Howard, Baines, Yobo (Neill, 86. mín.), Distin, Hibbert, Bilyaletdinov, Heitinga, Cahill (Yakubu, 81. mín.), Pienaar, Fellaini, Jo (Saha, 60. mín.). Ónotaðir varamenn:  Nash, Gosling, Coleman og Baxter.

Gult spjald:  Johnny Heitinga.

Liverpool: Reina, Insua, Agger, Carragher, Johnson, Aurelio (Riera, 78. mín.), Mascherano, Leiva, Kuyt, Gerrard, Ngog (Benayoun, 75. mín.). Ónotaðir varamenn:  Cavalieri, Aquilani, Kyrgiakos, El Zhar og Skrtel.

Mörk Liverpool:  Sjálfsmark (Yobo, 12. mín.) og Dirk Kuyt (80. mín.).

Áhorfendur á Goodison Park:  39.652.

Maður leiksins:  Javier Mascherano.  Argentínumaðurinn var óþreytandi á miðjunni og vann hann gríðarlega góða vinnu þar.  Oftar en ekki strönduðu sóknartilraunir Everton manna á honum og ekki skemmdi fyrir að hann átti skotið sem varð til þess að Liverpool komst yfir.

Rafa Benítez:  ,,Þetta var virkilega mikilvægur sigur fyrir okkur.  Við unnum Debrecen í vikunni og við vissum að við þyrftum að halda áfram á sigurbraut.  Nágrannaslagur er ávallt erfiður leikur og mjög mikilvægur líka, sigur í dag gæti því reynst okkur góð vítamínsprauta uppá framhaldið.  Við erum ofar í töflunni núna og allir eru ánægðir.  Við munum núna sjá hvort við getum ekki haldið áfram að vinna leiki.  Þetta var augljóslega erfiður leikur.  Frá byrjun spiluðu þeir beinskeittan bolta og voru hættulegir úr föstum leikatriðum.  Það var erfitt að hafa stjórn á þeim vegna þess að þeir eru með stóra leikmenn sem eru sterkir í loftinu, mér fannst við því sýna mikinn karakter."

Fróðleikur.

- Þetta var í 212. sinn sem liðin mætast í nágrannaslag.

- Þetta var þriðji sigurleikur Liverpool á Goodison Park í röð.

- Aðeins tvisvar áður í sögunni hefur liðið náð því að vinna svo marga leiki í röð gegn erkifjendunum á þeirra heimavelli.

- Þeir David Ngog, Glen Johnson og Emiliano Insua spiluðu allir í fyrsta skipti gegn Everton fyrir Liverpool.

- Dirk Kuyt skoraði sitt fimmta mark á leiktíðinni.

- Dirk hefur skorað þrjú mörk gegn Everton á sínum ferli, öll á Goodison Park.

- Þetta var fimmti leikur Liverpool í röð án taps.

- Lucas Leiva lék sinn 90. leik fyrir hönd Liverpool. Hann hefur skorað fjögur mörk í þeim leikjum.

- Albert Riera lék sinn 50. leik með Liverpool. Hann hefur skorað fimm mörk.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.


 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan