| Grétar Magnússon

Markið hvetur mig áfram

Emiliano Insua skoraði glæsilegt mark í Deildarbikarleiknum við Arsenal.  Þetta var fyrsta mark hans fyrir félagið en tap í leiknum skyggði á gleði Argentínumannsins unga.

,,Ég er mjög ánægður með að hafa skoraði mitt fyrsta mark fyrir félagið en er vonsvikinn yfir því að hafa tapað vegna þess að mér fannst við spila vel," sagði Insua í viðtali við opinbera heimasíðu félagsins.

,,Við vissum fyrir leikinn að þeir væru með gott lið, sérstaklega á heimavelli, en við áttum góðar rispur í leiknum.  Við pressuðum á þá og reyndum að halda boltanum.  Því miður fengum við á okkur tvö mörk og við klúðruðum nokkrum færum og náðum því miður ekki að skora aftur."

,,Mér finnst leiðinlegt að tapa og það sama gildir um hina strákana.  Við erum ekki lengur í Deildarbikarnum en við erum ennþá með í þremur keppnum og við þurfum því að halda áfram að bæta okkur."

Liverpool verða því ekki í hattinum þegar dregið verður í 8-liða úrslit á laugardaginn en Insua getur þó yljað sér við góðar minningar af markinu sem hann skoraði.

,,Þetta var virkilega góð stund fyrir mig," sagði hann.  ,,Ég tók boltann á brjóstið og ákvað að skjóta.  Ég trúði því ekki þegar ég sá boltann í netinu en þetta var gaman og vonandi get ég skorað fleiri mörk fyrir liðið í framtíðinni."

,,Núna verðum við að reyna að vinna gegn Fulham og svo í Meistaradeildinni.  Við náðum stórum sigri gegn Manchester United og við höfum alltaf trú á sjálfum okkur.  Við vitum að við getum gert góða hluti sem lið því við erum góðir og verðum að halda því áfram."

Insua hefur gert vinstri bakvarðastöðuna að sinni á þessu tímabili en hann vill ólmur bæta sig og halda sæti sínu í liðinu.

,,Tímabilið hefur verið mjög gott hjá mér, bæði fyrir Liverpool og landsliðið, en ég verð að halda áfram," bætti hann við.  ,,Ég veit að ég þarf stöðugt að bæta mig og ég hef trú á því að ég muni gera það."
 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan