| Sf. Gutt

Fernando harkaði af sér!

Fernando Torres skoraði fyrra mark Liverpool gegn Manchester United í gær. Í raun var hann varla leikfær en pilturinn harkaði af sér og það kom sér sannarlega vel fyrir Liverpool! 

Það var ákveðið rétt fyrir leik að láta Fernando spila. Fregnir herma að ákvörðunin um að láta hann spila hafi verið tekin þegar liðið var á leiðinni í rútu til Anfield.

"Ég var eiginlega ekki upp á mitt besta og það lá fyrir að ég gæti ekki beitt mér að fullu vegna meiðsla. En þegar svona leikir eru annars vegar þá setur maður ekki sársauka fyrir sig."
 
Það var gríðarlega mikil spenna í loftinu fyrir leikinn. Liverpool hafði tapað fjórum leikjum í röð fyrir þennan leik og gagnrýnin hafði lamist á Rafael Benítez og mönnum hans eins og stórhríð. En Manchester United lá í valnum og sigurinn var sérstaklega gleðilegur. Fernando Torres átti sinn þátt í að veita stuðningsmönnum Liverpool taumlausa gleði í gær.

"Ég er mjög ánægður fyrir hönd stuðningsmanna og leikmanna. Við munum sannarlega gleðjast yfir þessum sigri. Sigurinn þýðir að við erum aftur með í kapphlaupinu um titilinn. Við vissum fyrir leikinn að við þyrftum að vinna þennan leik og það gerðum við. Sigurinn hefur fært okkur vænan skammt af sjálfstrausti og núna þurfum við að halda okkar striki í Deildarbikarleiknum gegn Arsenal á miðvikudaginn. Svo þurfum við að einbeita okkur að leiknum við Fulham. Við unnum allir saman eins og við vorum vanir að gera og við höfum aftur öðlast þá tilfinningu að við séum með sterkt lið. Við sjáum hvað setur og skoðum svo stöðuna þegar upp verður staðið."

Eins og fyrr segir þá var Fernando Torres ekki fullkomlega leikfær í gær. Hann átti því erfitt með ákveðnar hreyfingar. Þetta gerði hamlaði Fernando svolítið en hafði sitt að segja þegar hann skoraði. Gott ef það hjálpaði ekki bara til!

"Ég fann svolítið til þegar ég sveiflaði fætinum á ákveðinn hátt. Ég gat því aðeins tekið skot í átt að nærstönginni. Ég gat bara ekki skotið öðruvísi!"

Sem betur fer var það bara alveg nógu gott að ná skoti á nærstöngina og markið lagði grunninn að mögnuðum sigri Liverpool!

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan