| Sf. Gutt

Rafael vill byrja vel

Liverpool leikur sinn fyrsta leik í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í kvöld. Rafael Benítez vill að sínir menn byrji af krafti gegn ungversku meisturunum Debreceni sem eru sýnd veiði en ekki gefin. 

"Það er erfitt að segja til um styrkleika liðsins en það hefur unnið síðustu átta leiki sína. Liðið hefur því verið að standa sig vel, það er fullt sjálfstrausts og beitir snörpum skyndisóknum. Það eru fljótir og snjallir leikmenn í liðinu. Allir segja, að þar sem leikurinn sé á Anfield, þá séum við sigurstranglegra liðið og eigum að vinna. Það er þó aldrei á vísan að róa í þessum leikjum. Ég er búinn að lesa nokkur viðtöl við leikmenn þeirra og þeir eru mjög spenntir fyrir að koma hingað og ætla sér að spila vel."

Rafael leggur áherslu á að það sé ekki nóg að vera sigurstranlegri aðilinn. Menn verði að láta verkin tala inni á vellinum og sýna sitt rétta andlit.

"Við erum sigurstranglegra liðið en við verðum að sanna að við stöndum undir því inni á vellinum. Við höfum vissulega trú á því að við getum unnið. Reynsla okkar úr keppninni er sú að ef maður byrjar ekki vel þá þarf að leggja harðar að sér þegar á líður. Við viljum því byrja af krafti strax í fyrsta leik."

Lucas Leiva tekur undir orð stjóra síns. "Þeir eru með góða sóknarmenn og við verðum að vera vel vakandi þegar þeir eru í sókn. Það er mjög mikilvægt að ná þremur stigum í dag því við vitum hversu róðurinn getur verið erfiður ef við byrjum ekki vel."
 
Leikmenn Liverpool búa sig nú undir fyrsta Evrópuleikinn á þessu keppnistímabili. Allir sterkustu menn liðsins eru til taks utan hvað þeir Nabil El Zhar og Alberto Aquilani eru meiddir.






TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan