| Sf. Gutt

Sól, sumarveður og stórsigur!

Liverpool vann stórsigur 4:0 á Burnley í sól og sumaryl á Anfield Road. Ísraelsmaðurinn Yossi Benayoun skoraði þrennu og átti stórleik.

Það var sólskin og sumarblíða í Liverpool ekki síður en á Héraði. Burnley byrjaði bara vel og strax á fyrstu mínútunni náði Martin Paterson skoti eftir góða sókn en boltinn fór framhjá. Á 7. mínútu ógnaði Liverpool fyrst þegar Dirk Kuyt skaut frá vítateig en Daninn Brian Jensen varði. Liverpool tók nú völdin og á 23. mínútu sendi Emiliano Insua fyrir en Yossi Benayoun skallaði framhjá.

Það leið þó ekki á löngu áður en Ísraelsmaðurinn komst á blað. Á 27. mínútu sendi Glen Johnson á Yossi sem lék á varnarmann við vítateiginn hægra megin áður en hann laumaði boltanum neðst í fjærhornið með hnitmiðuðu skoti. Vel gjört! Liverpool náði boltanum strax eftir miðjuna og Albert Riera sendi fyrir á Yossi sem henti sér fram og skallaði af stuttu færi. Brian varði en hélt ekki boltanum. Dirk fylgdi á eftir en sá danski varði aftur!

Liverpool átti nú leikinn með húð og hári og á 34. mínútu átti Lucas Leiva, sem lék stórvel, gott skot utan teigs en Brian varði vel í horn. Á 41. mínútu kom hann þó ekki vörnum við. Yossi var enn á ferðinni. Hann átti gott skot sem Brian varði en hann missti boltann frá sér og nú mistókst Dirk Kuyt ekki við afgreiðsluna á frákastinu. Sá hollenski renndi boltanum í autt markið. Rétt á eftir átti Steven Gerrard, sem var atkvæðamikill, fast skot utan teigs en Brian varði frábærlega í horn. Loks á lokamínútu hálfleiksins átti Burnley skot á mark Liverpool. Mark, sem ógnaði strax í upphafi, átti þá skot frá teignum en Jose varði í horn. 

Yfirburðir Liverpool voru óbreyttir í síðari hálfleik en lítið gerðist uppi í mark Burnley þar til boltinn lá í því á 61. mínútu. Fernando Torres, sem ekki var áberandi í leiknum, sendi þá á Steven sem braust inn á vítateiginn hægra megin. Hann var kominn í prýðilegt færi en í stað þess að skjóta þá renndi hann boltanum á Yossi sem var einn fyrir auðu marki og auðveldara mark hefur hann varla skorað á ferli sínum. Á 72. mínútu fékk Liverpool aukaspyrnu nokkuð utan teigs. Steven tók hana og þrumaði að marki. Brian varði en hélt ekki boltanum. Yossi hirti frákastið og renndi boltanum í markið en dómarinn dæmdi markið af vegna rangstöðu. Því miður var sá dómur rangur og markið hefði átt að standa. Litlu síðar braust Steven í gegnum vörn Burnley. Hann lék á markmanninn en var þá kominn í þröngt færi og skot hans fór í stöng og framhjá. Nú lá við að hætta væri við mark Burnley í hverri sókn!
 
Liverpool komst í 4:0 á 82. mínútu. Jóhannes Karl Guðjónsson hugðist byggja upp sókn en það tókst ekki betur til en svo að hann sparkaði boltanum í dómara leiksins. Albert hirti boltann og í framhaldinu gekk boltinn manna á milli þar til varamaðurinn Andriy Voronin stakk boltanum inn á Yossi sem var aleinn og yfirgefinn á miðjum teignum. Hann skoraði af miklu öryggi og gulltryggði þrennu sína! Leikmenn Burnley vildu fá rangstöðu en Ísraelinn var réttstæður þótt hann væri grunsamlega einn á báti.

Fjórum mínútum seinn sendi Andriy laglega hælsendingu á Steven en sá danski sá við honum og varði enn einu sinni. Mínútu fyrir leikslok ógnaði Burnley í fyrsta skipti í hálfleiknum þegar Kevin Nugent skallaði rétt yfir eftir horn. Á lokamínútunni hefði Andriy átt að bæta við marki. Albert sendi á hann en Úkraínumaðurinn skaut framhjá úr upplögðu færi.

Góður sigur Liverpool. Liðið hafði mikla yfirburði og sem dæmi má nefna að Jose Reina snerti boltann ekki langtímunum saman í síðari hálfleik. Nú er að vona að liðið sé komið í gang. 

Liverpool: Reina; Johnson (Degen 64 mín.), Carragher, Skrtel, Insua; Benayon, Leiva, Gerrard, Riera; Torres (Ngog
75. mín.) og Kuyt (Voronin 69. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Kyrgiakos, Spearing og Dossena.

Mörk Liverpool: Yossi Benayoun (27., 61. og 82. mín.) og Dirk Kuyt (41. mín.).

Burnley: Jensen; Mears, Carlisle, Bikey, Jordan; Alexander (Guðjónsson 75. mín.); Fletcher, McCann, Elliott, Blake (Eagles 58. mín.) og Paterson (Nugent 70. mín.). Ónotaðir varamenn: Penny, McDonald, Thompson og Guerrero.

Gul spjöld: Stephen Jordan og Chris Eagles.

Áhorfendur á Anfield Road: 43.817.

Maður leiksins: Yossi Benayoun. Ísraelski landsliðsmaðurinn var alveg frábær í leiknum og sýndi enn og aftur hversu góður hann er. Yfirferð hans var mikil og hann ógnaði vörn Burnley við hvert tækifæri. Svo skoraði hann fjögur mörk og lagði upp eitt. Því miður töldu bara þrjú af mörkunum en Yossi getur verið sáttur við sitt dagsverk!

Rafael Benítez: Fyrsta markið er alltaf mikilvægt í svona leikjum. Um leið og við skoruðum fyrsta markið þurftu þeir að færa sig framar á völlinn og þá fengum við svæði til að skapa okkur marktækifæri. 

Fróðleikur: - Liverpool vann sinn annan leik í röð. - Yossi Benayoun skoraði sín fyrstu mörk á keppnistímabilinu og náði Fernando Torres að mörkum! - Dirk Kuyt skoraði annað mark sitt á sparktíðinni. - Liverpool hefur nú skorað níu mörk í þremur heimaleikjum. - Þetta var þriðja þrennan sem Yossi skorar fyrir Liverpool.Þriðja Hat trick Yossi Benayoun!TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan