| Heimir Eyvindarson

Dossena vill vera áfram á Anfield

Svo virðist sem umboðsmaður Andrea Dossena hafi meiri áhuga á því að koma kappanum að hjá Juventus en Dossena sjálfur.Í viðtali við breska slúðurblaðið Daily Star, sem birtist í morgun, segist Dossena vilja vinna titla með Liverpool á komandi leiktíð og að hann hafi engan áhuga á að yfirgefa Anfield!

,,Ég veit vel af þessari umræðu um Juventus, en ég vil helst af öllu vera áfram hjá Liverpool. Ég er kominn betur inn í hlutina hérna núna, ég veit betur til hvers Rafa ætlast af mér og ég vona að næsta tímabil verði betra hjá mér en það síðasta", segir Dossena.

,,Ég hef aldrei sagt að ég vilji fara frá Liverpool. Það hafa hinsvegar margir blaðamenn haldið því fram að ég sé á leiðinni til Ítalíu, en það er bara ekki rétt."

Dossena er samningsbundinn Liverpool til ársins 2012 og hann er sannfærður um að Liverpool liðið eigi góða möguleika á að vinna ensku deildina á næsta tímabili.

Þessi marksækni vinstri-bakvörður skoraði í 4-1 sigrinum á Englandsmeisturum Manchester United á Old Trafford í mars og hann er þess fullviss að nú þegar Christiano Ronaldo er á bak og burt úr herbúðum meistaranna hafi möguleikar United á að verja titilinn dvínað til muna.

,,Brotthvarf Ronaldo mun hafa mikið að segja fyrir United og ef við höldum áfram að bæta okkar leik þá verður erfiðara fyrir þá að halda okkur fyrir aftan sig í deildinni. Gleymum því ekki að United vann ekki deildina með 20 stiga mun - bara 4!"

Andrea Dossena tekur þessa dagana þátt í Álfukeppninni í Suður Afríku með landsliði Ítalíu. Hann kom ekkert við sögu í leiknum við Bandaríkin á mánudaginn en gerir sér vonir um að fá að spila gegn Egyptum í dag.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan