| Sf. Gutt

Öruggur sigur í lokaleiknum

Liverpool endaði leiktíðina með öruggum 3:1 sigri á Tottenham Hotspur á Anfield Road. Sigurinn tryggði Rauða hernum annað sætið í deildinni. Sami Hyypia endaði glæstan feril sinn hjá Liverpool með því að spila síðustu mínútur leiksins.

Það snerist flest fyrir leik um það hvort Sami Hyypia myndi vera í byrjunarliðinu. Rafael Benítez ákvað að láta finnska höfðingjann vera meðal varamanna. The Kop hyllti Sami fyrir leikinn með því að mynda nafnið hans og finnska fánann með litaspjöldum. Mögnuð stund! Áhorfendur kyrjuðu svo nafn Sami Hyypia af og til allan leikinn.

Liverpool byrjaði leikinn af krafti og strax í byrjun átti Steven Gerrard hörkuskot utan teigs sem fór rétt yfir. Litlu síðar fékk Liverpool hornspyrnu frá vinstri. Boltinn fór yfir á fjærstöng þar sem Martin Skrtel skallaði til baka fyrir markið á Yossi Benayoun en hann hitti boltann ekki almennilega í góðu færi og boltinn fór yfir. Á 22. mínútu ógnuðu gestirnir loksins þegar Benoit Assou-Ekotto átti langskot sem fór beint á Jose Reina. 

Liverpool komst svo yfir á 31. mínútu. Varnarmaður Tottenham missti þá boltann hægra megin. Steven náði boltanum og skilaði honum út á Dirk Kuyt. Hollendingurinn sendi fyrir markið á Fernando Torres sem skallaði í þverslá og inn án þess að Heurelho Gomes kæmi við nokkrum vörnum í markinu. Vörn Spurs var illa á verði og Fernando lét ekki happ úr hendi sleppa. Eftir þetta gerðist fátt í góða veðrinu þar til á 42. mínútu. Jermaine Defoe slapp þá inn fyrir vörn Liverpool og komst einn upp að vítateig. Jose var á hinn bóginn fljótur til og kom út á móti Jermaine og afstýrði hættunni. Liverpool var því yfir í leikhléi. 

Ekki kom Sami til leiks eftir leikhlé þótt áhorfendur kölluðu reglulega eftir því. Leikurinn var tíðindalítill lengi vel fram í hálfeikinn og Liverpool fékk ekki færi fyrr en á 63. mínútu. Martin fékk þá boltann eftir horn en skot hans fór rétt framhjá. Mínútu síðar lá boltinn í marki gestanna. Dirk og Yossi áttu þá laglegan samleik inni í vítateignum. Dirk fékk boltann og skaut að marki. Boltinn virtist stefna framhjá þar til Alan Hutton rak fótinn í hann og stýrði honum í eigið mark. Leikmenn Liverpool tóku við sér við markið og á 66. mínútu fékk Steven boltann hægra megin í vítateignum ekki langt frá endamörkum. Hann náði skoti úr þröngu færi en heppnin var ekki með honum því boltinn fór í stöng. Mínútu seinna fékk Xabi Alonso, sem réði lögum og lofum á miðjunni, boltann fyrir utan teiginn vinstra megin eftir horn. Hann náði góðu bogaskoti en Heurelho náði að henda sér á eftir boltanum og slá hann í horn. Á 74. mínútu tók Daniel Agger góða rispu fram völlinn. Rétt utan vítateigs renndi hann boltanum á Steven en skot hans fór rétt framhjá.

Allt leit út fyrir að Liverpool myndi skora hvað úr hverju en það var Tottenham sem skoraði flestum að óvörum 77. mínútu. Luka Modric sendi þá frábæra sendingu inn fyrir vörn Liverpool. Robbie Keane, sem ekki hafði sést fram að því, stakk varnarmenn Liverpool af og komst einn inn á vítateiginn vinstra megin. Jose kom út á móti honum en sá írski skaut boltanum framhjá honum af miklu öryggi. Vel gert hjá Robbie en hann sýndi engin svipbrigði þegar hafði skorað. Því að hann skyldi ekki fagna markinu var vel tekið af stuðningsmönnum Liverpool og nokkrir klöppuðu fyrir honum. Þetta var sjötta markið sem Robbie skorar á Anfield á leiktíðinni en hin fimm voru auðvitað fyrir Liverpool!

Liverpool svaraði snöggt þessu áhlaupi gestanna. Á 81. mínútu sendi Steven fram á Yossi. Hann komst inn í vítateiginn og renndi boltanum framhjá Heurelho sem hafði hendur á boltanum. Nú var sigurinn í höfn. Vel gert hjá Yossi sem átti mjög góðan leik eins og svo oft áður á leiktíðinni. Þremur mínútum seinna fékk Liverpool aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Steven, sem lék vel, tók spyrnuna en skot hans fór hárfínt framhjá. 

Þetta var það síðasta sem Steven gerði í leiknum fyrir utan að láta Sami Hyypia fá fyrirliðabandið þegar hann skipti við hann! Loksins kom Finninn til leiks og það ætlaði allt af göflunum að ganga þegar hann skokkaði inn á í síðasta sinn sem leikmaður Liverpool. Það fyrsta sem hann gerði var að stöðva markskot! Hvað skyldi hann hafa stöðvað mörg slík? Hverri einustu snertingu hans til leiksloka var fagnað af miklum krafti! Á 87. mínútu tók varamaðurinn Albert Riera góða rispu upp að teignum en skot hans fór rétt framhjá. Á lokamínútunni fékk Liverpool hornspyrnu frá vinstri. Fabio Aurelio spyrnti fyrir markið og hver annar en Sami vann boltann. Föstum skalla hans var bjargað á línu af mark- og varnarmanni í sameiningu. Þar munaði litlu og erfitt að ímynda sér fögnuðinn ef Sami hefði skorað. Sigurinn var kominn í hús og leikmenn og stuðningsmenn Liverpool hylltu Sami í leikslok. Finninn grét og félagar hans báru hann á gullstól. Magnaður endir, sem lengi verður í minnum hafður, á síðasta leik leiktíðarinnar!

Það er orðið langt um liðið frá því Liverpool hefur átt jafn góða leiktíð í deildinni. Liðið náði 86 stigum sem stundum hefur dugað til að vinna Englandsmeistaratitilinn. Liverpool skoraði flest mörk allra liða í deildinni og tapaði aðeins tveimur leikjum. Það munaði sáralitlu að það næðist að vinna titilinn. Ef vel tekst til næst herslumunurinn á næstu leiktíð. Það gengur bara aðeins betur næst:-)

Liverpool: Reina, Carragher, Agger, Skrtel, Aurelio, Mascherano, Alonso, Kuyt (Riera 66. mín.), Gerrard (Hyypia 84. mín.), Benayoun og Torres (Ngog 78. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Leiva, Insua og Degen.
 
Mörk Liverpool: Fernando Torres (31. mín.), Alan Hutton (64. mín.) sm. og Yossi Benayoun (81. mín.).

Tottenham Hotspur: Gomes, Hutton, Corluka, King, Assou-Ekotto, Modric, Zokora, Jenas (Bentley 40. mín.), Bale (Bent 78. mín.), Defoe (Pavlyuchenko 70. mín.) og Keane. Ónotaðir varamenn: Cudicini, Gunter, Campbell og Chimbonda.
 
Mark Tottenham: Robbie Keane (77. mín.).

Gult spjald: Vedran Corluka.

Áhorfendur á Anfield Road: 43.937.

Maður leiksins: Sami Hyypia. Finnski höfðinginn lék ekki eins lengi og flestir vildu í þessum leik en flest á Anfield Road snerist um hann. Eftir að hann kom til leiks bjargaði hann einu skoti, spilaði boltanum vel, skallaði frá þegar þurfti og á lokamínútunni var bjargað á línu frá honum. Eftir leikinn hylltu áhorfendur og félagar hans þennan magnaða kappa. Ógleymanlegur leikur fyrir Sami og alla sem til sáu!

Rafael Benítez: Við erum í senn bæði stoltir og vonsviknir. Við erum stoltir eftir að hafa náð 86 stigum sem er alveg frábært en samt ekki nóg. Það er þó alveg ljóst að við verðum að bæta okkur og það má ekkert út af bera ef við viljum vinna titilinn. Við höfum augljóslega bætt okkur en við þurfum að bæta okkur enn meira. Nú er það áskorun fyrir okkur að kaupa rétta leikmenn, byrja næstu leiktíð eins og við enduðum þessa og gera engin mistök.

Fróðleiksmolar: - Liverpool endaði í öðru sæti deildarinnar fjórum stigum á eftir Manchester United. - Liverpool fékk 86 stig sem er það mesta á seinni árum. - Fernando Torres skoraði sitt seytjánda mark á leiktíðinni. - Markið var það 50. sem hann skorar frá því hann kom til Liverpool. - Alan Hutton komst á markalista hjá Liverpool. - Yossi Benayoun skoraði níunda mark sitt á leiktíðinni. - Javier Mascherano lék sinn 90. leik með Liverpool. Hann hefur skorað eitt mark. - Martin Skrtel lék sinn 50. leik fyrir hönd Liverpool. - Albert Riera lék sinn 40. leik með Liverpool. Hann hefur skorað fimm mörk. - Sami Hyypia lék sinn 464. og síðasta leik með Liverpool. Hann skoraði 35 mörk. - Liverpool skoraði flest mörk í deildinni eða 77 talsins. - Leikmenn Liverpool hafa verið á skotskónum í síðustu leikjum. Þeir hafa skorað 41 mark í síðustu þrettán leikjum. - Liverpool tapaði ekki einum einasta deildarleik á Anfield Road á þessari leiktíð. - Liverpool hefur nú leikið 30 deildarleik á heimavelli í röð án taps.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
Sami Hyypia hylltur!!!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan