| Grétar Magnússon

Rafa vill setja met

Rafa Benítez vill setja met á Stamford Bridge í annað sinn á þessari leiktíð.  Engu liði hefur tekist að skora þrjú mörk á heimavelli Chelsea í Evrópukeppni.

Fyrr í vetur varð Liverpool fyrsta liðið til að leggja Chelsea að velli á Stamford Bridge í 86 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.  Rafa veit sem er að verkefnið er ekki auðvelt en hann hefur trú á því að leikmenn sínir geti slegið annað met.  Nú þarf liðið að gera eitthvað sem engu liði hefur tekist í Evrópukeppni á Stamford Bridge, skora þrjú mörk.

,,Við höfum fulla trú á því að við getum gert þetta," sagði stjórinn.  ,,En við vitum að þetta verður mjög, mjög erfitt vegna þess að þeir eru með gott lið sem er með góða forystu eftir fyrri leikinn."

,,En ef maður lítur til baka á leikinn þegar við mættum þeim í deildinni höfðu þeir ekki tapað á heimavelli í 86 leikjum og við náðum að vinna þann leik.  Á þeim tíma voru allir að tala um þetta met þannig að sigur á Stamford Bridge var ótrúlega góður þegar litið er á sjálfstraust leikmanna á þeim tíma."

,,Við höfum trú á verkefninu og leiðin til að ná þessu er að vinna saman sem lið og nýta færin.  Við erum Liverpool þannig að við munum berjast allt til loka.  Fólk veit að við gefumst ekki upp.  Við erum lið sem berst fram í rauðan dauðan og einmitt þess vegna höfum við komið svo oft til baka á þessu tímabili."

,,Istanbúl er okkar besta reynsla til þessa og ég held að einmitt þess vegna búist fólk alveg eins við því að við getum komið til baka nú, þrátt fyrir úrslitin í fyrri leiknum."
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan