| Sf. Gutt

Svart útlit eftir slæmt tap gegn Chelsea

Chelsea skellti Liverpool 3:1 á Anfield Road í kvöld í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Útlitið er vægast sagt svart fyrir seinni leik liðanna í næstu viku. Liverpool þarf að skora minnst þrjú mörk til að byrja með á Brúnni. Það verður þrautin þyngri.

Liverpool byrjaði af krafti og fékk sannkallaða óskabyrjun á 6. mínútu. Dirk Kuyt fékk boltann rétt utan vítateigs hægra megin. Þaðan sendi hann frábæra hælsendingu út á Alvaro Arbeloa. Hann sensi nákvæma sendingu þvert fyrir markið á Fernando Torres sem skoraði með viðstöðulausu skoti úr vítateignum. Það var þó strax ljóst að Chelsea ætlaði ekki að láta þetta slá sig út af laginu. Strax á næstu mínútu eftir markið náði Salomon Kalou boltanum af Fabio Aurelio. Hann stakk boltanum inn á Didier Drogba sem komst einn í gegn en Jose Reina kom vel út á móti honum og varði. Eftir rúmlega tuttugu mínútur sendi Didier inn á Florent Malouda frá vinstri en Frakkinn skaut framhjá.

Mikill hraði var í leiknum og boltinn gekk marka á milli. Á 26. mínútu rændi Fernando Torres boltanum af Frank Lampard og lék upp að teignum. Hann hugðist lyfta boltanum yfir Petr Chech en boltinn fór rétt yfir fjærhornið. Þremur mínútum seinna sendi Michael Ballack fyrir markið á Didier en hann þrumaði hátt yfir þaðan sem hann var dauðafrír á teignum. Alvaro Arbeloa ógnaði svo marki Chelsea á 35. mínútu þegar hann fékk boltann utan við hægra vítateigshornið en gott bogaskot hans fór rétt framhjá.

Gestirnir náðu að jafna metin á 39. mínútu. Florent Malouda tók hornspyrnu frá hægri. Inni á vítateginum náði Branislav Ivanovic að rífa sig lausan og skalla í mark við nærstöngina án þess að varnarmenn Liverpool kæmu nokkrum vörnum við og hvað þá Jose. Þarna var vörn Liverpool illa á verði og ekki í fyrsta sinn í leiknum. Strax í næstu sókn mátti engu muna að Liverpool kæmist aftur yfir. Dirk Kuyt komst einn á móti Petr en Tékkinn varði frábærlega í horn. Þetta átti eftir að vera mikilvæg markvarsla. Liðin voru jöfn þegar flautað var til hálfleiks.

Chelsea sló ekkert af í síðari hálfleik og hefði átt að komast yfir á 51. mínútu. Didier, sem átti stórleik, komst þá inn á vítateiginn eftir gott samspil. Hann kom boltanum framhjá Jose en Jamie Carragher bjargaði á marklínu. Tveimur mínútum seinna náði Liverpol góðu spili sem endaði með því að Steven Gerrard skallaði boltann fyrir fætur Fernando en hann skaut yfir úr góðu færi í teignum.

Á 62. mínútu komst Chelsea yfir. Frank tók hornspyrnu frá vinstri. Það var endurtekið efni inni í vítateignum þegar Serbinn Branislav Ivanovic skoraði með skalla. Enn var vörn Liverpool illa á verði og ekki var vörnin betri á 67. mínútu. Michael sendi þá fram kantinn á Florent sem lék fram vinstri kantinn áður en hann sendi inn á markteiginn. Þar var Didier grimmastur og skoraði af stuttu færi. Chelsea var nú komið í óskastöðu og leikmenn Liverpool voru slegnir út af laginu. Rafael Benítez setti hvern varamanninn inn á en þeir náðu ekki að koma Liverpool í gang. Á lokamínútunni náði Xabi Alonso loksins að ógna en Petr sló gott langskot hans yfir. Stuðningsmenn Liverpol sungu You´ll Never Walk Alone í leikslok. Hvaða stuðningsmenn hefðu sungið fyrir liðið sitt í þessari stöðu? Þetta var óvænt tap en Chelsea lék trúlega sinn besta leik á leiktíðinni og Liverpool þarf á öllu sínu að halda í seinni leiknum á Stamford Bridge.

Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Skrtel, Aurelio (Dossena 75. mín.), Kuyt, Leiva (Babel 79. mín .), Alonso, Riera (Benayoun 67. mín.), Gerrard og Torres. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Hyypia, Agger og Ngog.

Mark Liverpool: Fernando Torres (6. mín.).

Gult spjald: Fabio Aurelio. 

Chelsea: Cech, Ivanovic, Terry, Alex, Ashley Cole, Kalou, Ballack, Essien, Lampard, Malouda og Drogba (Anelka 79. mín.). Ónotaðir varamenn: Hilario, Carvalho, Belletti, Mancienne, Mikel og Deco.

Mörk Chelsea: Branislav Ivanovic (39. og 62. mín.) og Didier Drogba (67. mín.).

Gul spjöld: Salomon Kalou og John Terry.

Áhorfendur á Anfield Road: 42.543.
 
Maður leiksins: Xabi Alonso. Spánverjinn reyndi að láta hlutina ganga á miðjunni en hann var svo sem ekki upp á sitt besta frekar en aðrir leikmenn Liverpool. 

Rafael Benítez: Það þarf að spila vel til að leggja þá að velli. Við skoruðum fyrsta markið í leiknum og vorum í góðum málum. En svo misstum við tökin á leiknum og þeir fóru að fá færi.   

Fróðleiksmolar: - Þetta var fimmta Evrópurimma Liverpool og Chelsea á fimm síðustu leiktíðum. - Þetta var fyrsta tap Liverpool á heimavelli á leiktíðinni. - Fernando Torres skoraði sitt 12. mark á leiktíðinni. - Mörkin sem Branislav Ivanovic skoraði voru þau fyrstu sem hann skorar fyrir Chelsea.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan