| Birgir Jónsson

Benítez hrósar umdeildum félögum

Í aðdraganda hins mikilvæga leiks gegn Chelsea tók Rafa Benítez upp á því að hrósa hinum umdeildu Lucas Leiva og Andrea Dossena fyrir þátt þeirra í sókn liðsins að titlunum innanlands og í Evrópu. Stjórinn er yfir sig ánægður með þau áhrif sem hinir misheppnuðu félagar hafa haft að undanförnu á liðið. Þeir áttu báðir dágóðan þátt í hinum mikilvæga 1-0 útisigri á Fulham um helgina og hefur Benítez hvatt þá til að halda góðu formi sínu nú þegar mest ríður á.

"Hugmynd mín um Lucas hefur alltaf verið sú sama", sagði Benítez við Liverpool Echo.
"Hann er góður leikmaður og mikill atvinnumaður og hefur alltaf reynt að gera sitt besta fyrir liðið.
Hann spilaði mjög vel gegn Fulham og vann mjög vel og það var ljóst að hann er að spila með meira sjálfstrausti en áður.
Það er gott fyrir stuðningsmennina að sjá menn eins og hann því þeir vita að hann muni aldrei gefast upp og alltaf halda áfram að berjast. Dossena er annað mál því við báðum hann að spila í annarri stöðu en hann er vanur og hann gerði vel.
Við vildum meiri kraft á vinstri vænginn og Dossena gerði það þrátt fyrir að hann sé iðulega vinstri bakvörður og við vorum mjög ánægðir með hann. Hann gæti jafnvel verið í þessari stöðu aftur síðar af því að hann sýndi að hann gerði það vel."

Góð frammistaða Dossena hefði getað verið fullkomnuð með að minnsta kosti einu marki því hann átti tvær tilraunir í tréverkið og Mark Schwarzer varði skot hans frábærlega. Eftir að hafa skorað minnisstæð mörk bæði gegn Real Madrid og Man United, trúir Benítez því að Dossena, sem kom fyrir 6 milljónir punda frá Udinese í sumar, sé orðinn fullur sjálfstrausts.

"Þegar þú kaupir erlendan leikmenn veistu að þú verður að vera þolinmóður.
Það er alltaf betra að bíða í nokkra mánuði áður en þú talar um hversu góðir þeir séu og á síðustu vikum hefur Dossena verið að standa sig vel fyrir liðið. Hann skoraði gegn Real Madrid og Man United og hann fékk tækifæri gegn Fulham vegna þess að hann var að koma sér í góðar stöður."

Næsta verkefni á dagskrá er Chelsea í kvöld, í fyrri leik liðana í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á Anfield.
Benítez bætti við: "Við verðum að halda sama hugarfari hvort sem er í Úrvalsdeildinni eða Meistaradeildinni. Við höfum góðar minningar af leikjum gegn Chelsea í Meistaradeildinni, sérstaklega á Anfield, en við viljum búa til fleiri."
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan