| Sf. Gutt

Steven skoraði þrennu í stórsigri!

Liverpool notfærði sér hagstæð úrslit í leikjum keppinauta sinna fullkomlega í dag með því að vinna 5:0 stórsigur gegn Aston Villa. Liðið er nú einu stigi á eftir Manchester United en hefur leikið einum leik meira. Liverpool hélt áfram þaðan sem frá var horfið í síðustu leikjum og nú er að sjá hvað gerist á lokasprettinum í deildinni.

Áður en leikurinn hófst var einnar mínútu þögn til minningar um Bryce Morrison ritara Liverpool F.C. sem lést í gær. Hann var mjög virtur hjá félaginu og hafði unnið hjá því í fjölda ára. Það var spenna í loftinu á Anfield Road því bæði Manchester United og Chelsea töpuðu í gær og Liverpool átti því kost á að bæta stöðu sína gagnvart þeim liðum. Bæði lið mættu ákveðin til leiks og Martin Skrtel átti skalla eftir horn á annarri mínútu en Brad Friedel varði af öryggi. Hinu megin átti James Milner skot sem var bjargað í horn. Á 8. mínútu dró til tíðinda. Liverpool fékk aukaspyrnu vinstra megin. Steven Gerrard sendi boltann inn á teig þar sem Xabi Alonso skallaði boltann aftur fyrir sig. Boltinn hafnaði í þverslá og hrökk út í teig fyrir fætur Dirk Kuyt sem þrumaði boltanum viðstöðulaust í markið úr miðjum teig. Snaggaralega gert hjá Hollendingnum sem var vel vakandi. Svona mörk skoraði hann í kippum í Hollandi. Á 16. mínútu náði Albert Riera, sem lék sinn besta leik á árinu, góðri fyrirgjöf frá vinstri. Boltinn fór yfir að fjærstöng þar sem Steven var en hann náði ekki að stýra boltanum í markið. Fimm mínútum síðar átti Ashley Young góða fyrirgjöf frá vinstri á John Carew sem náði skoti sem Jose Reina varði í horn. Á 25. mínútu ógnaði John aftur við mark Liverpool. Hann átti þá góðan skalla eftir aukaspyrnu en Jose varði frábærlega með því að henda sér til hliðar. Hann hélt þó ekki boltanum en Ashley skaut framhjá eftir að hafa fengið boltann.

Endir var bundinn á góðan leikkafla Aston Villa á 33. mínútu. Jose Reina sparkaði boltanum þá frá marki sínu. Boltinn sveif hátt fram að vítateig Villa. Þar skoppaði hann einu sinni áður en Albert Riera náði honum við vítateigslínuna og Spánverjinn var ekkert að hika við það heldur hamraði boltann í þverslá og inn. Frábærlega gert hjá Jose og Albert og þarna lagði markmaður Liverpool upp mark í öðrum leiknum í röð en hann átti stoðsendinguna í markinu sem Andrea Dossena skoraði á Old Trafford. Tveimur mínútum seinna náði Steven að skapa sér svæði fyrir utan vítateiginn en skot hans fór framhjá. Mínútu síðar átti Brad misheppnað útspark. Alvaro Arbeloa náði boltanum af honum en í stað þess að skjóta sjálfur renndi hann boltanum út í teig þar sem Fernando Torres kom en varnarmaður náði að bjarga.

Á 39. mínútu lá boltinn aftur í marki Villa. Dirk sendi þá langa sendingu af hægri kanti yfir til vinstri. Albert fékk sendinguna og lék inn í teig þar sem Nigel Reo-Coker braut á honum. Dómarinn dæmdi vítaspyrnu sem Steven Gerrard skoraði úr af miklu öryggi með því að senda Brad í vitlaust horn. Stuðningsmenn Liverpool gátu svo sannarlega verið kátir þegar flautað var til hálfleiks því hetjurnar þeirra ætluðu ekki að missa af tækifærinu til að laga stöðu liðsins í toppbaráttunni!

Liverpool sló ekkert af í síðari hálfleik og Brad mátti sækja boltann í markið á 50. mínútu. Liverpool fékk aukaspyrnu rétt utan vítateigs vinstra megin eftir að Dirk var felldur. Það var strax augljóst hvað stóð til að gera. Xabi renndi boltanum til hliðar á Steven Gerrard sem skaut hárnákvæmu innanfótarskoti framhjá varnarvegg gestanna og boltinn hafnaði neðst í hægra horninu. Ekki var skotið fast en Steven vissi nákvæmlega hvað hann ætlaði að gera og það gekk fullkomlega upp! Núna var spurningin aðeins sú hversu mörg mörk Liverpool myndi skora og stuttu síðar átti Xabi skot sem fór rétt framhjá.

Á 65. mínútu lá boltinn enn að baki Brad en nú var annar með því nafni kominn í markið! Xabi sendi frábæra stungusendingu fram á Fernando sem stakk vörn Villa af og komst inn á vítateig. Þar felldi Brad Friedel hann og dómarinn dæmdi víti. Reyndar reyndi Brad að komast hjá því að brjóta á Fernando en þeir rákust saman og víti var réttilega dæmt. Það var á hinn bóginn strangt að reka Brad af velli og stuðningsmenn Liverpool sýndu Bandaríkjamanninum samhug með því að klappa fyrir honum þegar hann gekk af velli. Steven Gerrard tók sína aðra vítaspyrnu í leiknum og sendi Brad Guzan, sem kom í markið, í vitlaust horn eins og nafna hans í fyrri hálfleik. Í bæði skiptin sendi Steven boltann vinstra megin við markmanninn. Steven fagnaði þrennu og stuðningsmenn Liverpool réðu sér ekki fyrir kæti. Nú var þetta varnarsinnaða lið hans Rafael Benítez búið að skora flest mörk í deildinni!

Lucas Leiva átti skot sem fór framhjá stuttu eftir að hann kom inn sem varamaður. Javier Mascherano, sem átti mjög góðan leik á miðjunni, náði svo föstu skoti frá teignum þegar um tuttugu mínútur voru eftir en Brad náði að verja. Þegar tæpur stundarfjórðungur var eftir kom Daniel Agger inn sem varamaður en Daninn er búinn að vera meiddur síðustu vikurnar og það er gott að hann er orðinn leikfær aftur. Leikmenn Liverpool slökuðu á undir lokin en stórsigur liðsins var löngu kominn í höfn. Liverpool hefur ekki gefið upp alla von um Englandsmeistaratitilinn og þessi sigur heldur voninni á lífi. Það stefnir í spennandi endasprett til vors!

Liverpool: Reina, Arbeloa (Agger 76. mín.), Carragher, Skrtel, Aurelio, Mascherano, Alonso (Leiva 66. mín.), Gerrard (Ngog 80. mín.), Kuyt, Riera og Torres. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Dossena, Hyypia og El Zhar.

Mörk Liverpool: Dirk Kuyt (8. mín.), Albert Riera (33. mín.) og Steven Gerrard (39. mín., víti, 50. mín. og 65. mín. víti).

Gult spjald: Steven Gerrard.

Aston Villa: Friedel, Reo-Coker (Guzan 64. mín.), Cuellar, Davies, L. Young, Milner, Petrov, Barry, A. Young, Heskey (Agbonlahor 58. mín.) og Carew (Gardner 88. mín.). Ónotaðir varamenn: Delfouneso, Knight, Salifou og Shorey.

Rautt spjald: Brad Friedel.

Gul spjöld: Luke Young og Craig Gardner.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.131.

Maður leiksins: Steven Gerrard. Fyrirliðinn átti frábæran leik og skoraði þrennu. Hann var látlaust á ferðinni og var alltaf að reyna að ógna marki Aston Villa. Fyrir utan að skora mörkin þá átti hann stóran þátt í fyrsta markinu. Steven hefur verið frábær í síðustu leikjum og þegar hann er í svona ham er hann öllum mótherjum sínum erfiður. Sumir telja hann besta leikmann í heimi en hvernig sem það er þá hann alveg ómetanlegur fyrir Liverpool.

Rafael Benítez: Liðið lék vissulega vel en ég er ekki alveg fullkomlega ánægður því við hefðum átt að skora fleiri mörk eftir skyndisóknir. Við vorum að spila á móti 10 mönnum og við fengum þrjú eða fjögur færi til viðbótar. Það er mikilvægt að nota marktækifærin því maður veit aldrei hver staðan með markahlutfallið verður. Ég vildi sjá fleiri mörk og við verðum að bæta okkur í því. En ekki misskilja mig því ég er mjög ánægður með leikinn. Leikmennirnir léku frábærlega en það má alltaf gera betur.

Fróðleiksmolar: - Liverpool er í öðru sæti í deildinni á eftir Manchester United. - Dirk Kuyt skoraði sitt tíunda mark á leiktíðinni. Þetta var 35. mark hans fyrir Liverpool. - Albert Riera skoraði fimmta mark sitt á leiktíðinni. - Steven Gerrard skoraði þrennu og hefur nú skorað 21 mark á spaktíðinni. - Jose Reina hélt marki sínu hreinu í 100. sinn með Liverpool. Það gerði hann í sínum 197. leik sínum. - Þetta er nýtt félagsmet því markmaður Liverpool hefur ekki áður haldið markinu hreinu 100 sinnum í eins fáum leikjum. Ray Clemence átti gamla metið - Liverpool hefur nú unnið fjóra leiki í röð. - Í þeim leikjum hefur liðið skorað 15 mörk.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan