| Ólafur Haukur Tómasson

Dossena: Erfiðið að skila sér núna

Einn heitasti leikmaður Liverpool í dag þegar kemur að markaskorun kemur úr heldur óvæntri átt. Vinstri bakvörðurinn Andrea Dossena hefur heldur betur fundið markaskó sína en hann hefur skorað í tveimur leikjum í röð og það gegn tveimur stærstu félögum í heiminum, Real Madrid og Manchester United.

Í báðum leikjunum negldi hann síðustu naglana í kistu Real- og United manna með því að skora tvö glæsileg mörk í stórsigri Liverpool á báðum liðum. Í bæði skiptin kom hann inn á sem varamaður og segir hann að það afrek að skora gegn þessum liðum geri allt það erfiði sem hann hefur lagt að sér við að aðlagast liðinu, þess virði.

"Það gerði mig auðvitað mjög ánægðan. Þetta hefur verið erfið barátta að komast í liðið en ef þú leggur hart að þér daglega og gefst ekki upp, jafnvel þótt erfiðlega gengur, þá færðu þessi augnablik og þau gera það þess virði." sagði Ítalinn.

Hann segir einnig af hverju honum hefur gengið svona erfiðlega að aðlagast lífinu í Englandi.

"Miðað við síðasta tímabil þá hef ég skipt um stöðu - núna hef ég farið 20 metra aftur á vellinum. Þessi breyting og að aðlagast enska boltanum gerði mér erfitt fyrir í byrjun, en með aðstoð frábærs þjálfara eins og Rafael Benítez, þá er ég farinn að skilja hvernig á að spila í liðinu. Þú aðlagast hlutunum skref fyrir skref."

Það mun eflaust gefa honum mikið sjálfstraust að hafa tekist að skora gegn þessum liðum og spurning hvort að Rafael Benítez hafi fundið nýjan 'ofurskiptimann'.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan