| Heimir Eyvindarson

Phil Thompson: Sýnum þeim alvöru stemmningu!

Gamla brýnið Phil Thompson hvetur stuðningsmenn Liverpool til að sýna leikmönnum Real Madrid hvernig á að búa til alvöru stemmningu, þegar þeir mæta til leiks á Anfield annað kvöld!

,,Þetta verður í fyrsta skipti sem Real Madrid kemur á Anfield og við verðum að sýna þeim hversu stórkostlegt og algjörlega einstakt andrúmsloftið er á Anfield. Real hafa þvælst um allan heim, en þeir hafa örugglega aldrei upplifað neitt í líkingu við stemmninguna á Anfield."

Phil Thompson er eldri en tvævetur þegar kemur að Evrópuleikjum og hefur m.a. reynslu af því að leggja Real Madrid að velli, en hann var fyrirliði Liverpool þegar liðið sigraði Real 1:0 í úrslitum Evrópukeppni meistaraliða 1981. 

Phil er sannfærður um að leikurinn á morgun verði spennandi og varar leikmenn við því að ætla sér að hanga á forskotinu sem Youssi Banayoun tryggði liðinu í Madrid á dögunum.

Takist liðinu hinsvegar að skora mark hjá Spánverjunum þá segir Thompson að menn geti farið að láta sig dreyma um enn einn úrslitaleikinn í Evrópukeppninni.
 
,,Ég man úrslitaleikinn við Real eins og hann hefði verið í gær. Það var ótrúleg upplifun fyrir mig að lyfta bikarnum. Ég var fyrsti "Scouserinn" til að gera það, Emlyn Hughes gerði það ´77 og ´78 og var þá eiginlega orðinn innfæddur í hugum fólksins, en hann var þó ekki fæddur í Liverpool eins og ég."

,,Þessi tilfinning var algjörlega ólýsanleg. Ég hef verið fyrirliði Englands líka, en þetta var klárlega hápunkturinn á mínum ferli."

,,Liverpool vann mjög góðan sigur í Madrid fyrir tveimur vikum og var klárlega betra liðið í leiknum. Það er alveg sama hvert er litið, vörn, sókn eða miðja, við vorum betri á öllum sviðum. Þarna mættust tvö topp fótboltalið hvort frá sínu landinu, og við sýndum þeim einfaldlega hversu miklu sterkari enska deildin er en sú spænska!"

,,Sigur okkar var fyrst og fremst að þakka betri taktík, betri mótiveringu og svo hinni einstöku ástríðu sem einkennir Liverpool."

,,Ég held að leikkerfið sem Rafa notar núna í útileikjum sé það sama og hann notaði hjá Valencia og það hefur gefist mjög vel í stærri leikjum. Við höfum unnið Chelsea í deildinni með þessu kerfi og við notuðum það líka í 1-1 jafnteflinu gegn Arsenal, og ef ég á að segja eins og er þá tel ég að við hefðum átt að vinna þann leik líka. En þetta kerfi hefur ekki gefist eins vel í leikjum gegn minni liðunum. Það hefur að mínu mati kostað okkur stig í nokkrum þeirra."

,,Thompson hefur gríðarlega reynslu af Evrópuleikjum, sem leikmaður, þjálfari og framkvæmdastjóri Liverpool, og varar leikmenn liðsins eindregið við því að gera of mikið úr þeirri vænlegu stöðu sem liðið er í eftir 1-0 sigurinn fyrir tveimur vikum.

,,Ef menn láta það hvarfla að sér eitt augnablik að björninn sé unninn þá er ævintýrið úti, það er svo einfalt. Það getur allt gerst í Evrópuleikjum, það vitum við manna best!"

,,Ég vil minna á viðureignina við Celtic 2003. Þá unnum við, að okkur fannst, léttan sigur úti en töpuðum svo 0-2 á Anfield. Að miklu leyti vegna vanmats. Slíkt má ekki endurtaka sig."

,,Ég er nokkuð viss um að Real á eftir að skora á morgun og við verðum að hafa sérstakar gætur á Arjen Robben, sem mér fannst þeirra langbesti maður í fyrri leiknum. Við verðum að stöðva hann."

,,En ég er jafnframt sannfærður um það að við getum alveg skorað hjá þeim. Mér finnst miðja varnarinnar hjá þeim ekki sérlega traustvekjandi og ég gæti alveg eins trúað að við settum á þá 1-2 mörk. Ég spái 2-1 fyrir Liverpool."

Nú er bara að vona að Phil Thompson reynist sannspár og Liverpool komist áfram. 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan