| Grétar Magnússon

Þekkir Rafa út og inn

Fabio Aurelio hefur spilað undir stjórn Rafa Benítez hjá tveimur félögum í næstum sex ár.  Hann segist nú vita hvað það er sem skiptir mestu máli hjá Benítez.

Aurelio spilaði mjög vel á miðjunni gegn Portsmouth í síðasta leik liðsins og skoraði hann þar mark.  Liðsuppstilling Benítez fyrir leikinn fékk mikið umtal og segir Aurelio að það sé ekkert nýtt fyrir Benítez.  Stjórinn vilji ávallt ná góðum úrslitum umfram allt annað.

,,Benítez átti við þessi vandamál að stríða á Spáni líka, fólk sagði að hann gerði of mikið af breytingum," sagði Aurelio.  ,,Hans persónuleiki er þannig að honum er alveg sama um hvað fólk hugsar, það er líka gott fyrir liðið."

,,Hann hefur ekkert breyst að því leyti.  Ég hef spilað undir hans stjórn lengi og ég þekki aðferðir hans - hann gerir ávallt það sem er best fyrir liðið, það er hans forgangsmál."

,,Við getum barist um titilinn og við getum unnið hann.  Ef við gerum það þá verður stjórinn talinn einn sá besti.  En ef við gerum það ekki þá mun fólk segja að hann breyti liðinu of mikið.  Það sem skiptir mestu máli í knattspyrnu eru úrslitin og við náðum góðum úrslitum gegn Portsmouth.  Við vorum mjög ánægðir með úrslitin."

,,Fólk skilur ekki breytingarnar sem hann gerði í síðustu viku, en hann veit hvernig leikmönnunum líður.  Hann þekkir það hver er þreyttur og hver ekki, hann veit hvernig á að nota liðið á sem bestan hátt.  Við vitum að þegar hann velur liðið fyrir leiki, að það samanstendur af bestu leikmönnunum á þeirri stundu til að sigra.  Við styðjum hann."

,,Ef við hefðum tapað leiknum þá hefðu það verið svakalega erfiðar tvær vikur hér á Melwood án þess að spila leik.  En við gerðum það sem þurfti og komum okkur í mjög góða stöðu."

Aurelio viðurkenndi að hann skilur ekki hvers vegna Benítez er sífellt gagnrýndur fyrir að breyta liðinu og sagði:  ,,Stóru liðin gera það sama.  Þau eru öll með stóra leikmannahópa með góðum leikmönnum, ég skil þetta þess vegna ekki.  Við erum í góðri stöðu í kapphlaupinu um titilinn og í Meistaradeildinni, fólk er því kannski að reyna að benda á einhverja hluti til að stöðva okkur eða búa til vandamál.  En við erum orðnir vanir þessu núna."

,,Við verðum að vinna okkar starf og einbeita okkur að því en ekki hvað fólk er að tala um."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan