| Sf. Gutt

Bikardraumurinn endaði á Goodison Park

Bikardraumur Liverpool endaði á Goodison Park eftir langa og stranga rimmu gegn Everton. Rauðliðar höfðu ekki heppnina með sér en geta ekki kvartað. Nú er að snúa sér að öðrum verkefnum en eftir stendur að nú er aðeins möguleiki á að vinna tvo titla í stað þriggja.

Liverpool hóf leikinn vel og Xabi Alonso átti skot utan teigs sem fór rétt framhjá snemma leiks. Boltinn virtist ætla að hafna í markinu en ekki fór svo vel. Það varð strax ljóst að þessi leikur yrði mun harðari en tveir fyrri rimmur liðanna á dögunum. Mörg brot litu dagsins ljós og ekkert var gefið eftir í tæklingum. Eftir stundarfjórðung varð Liverpool fyrir miklu áfalli þegar Steven Gerrard varð að fara af velli vegna meiðsla. Hann virtist hafa tognað aftan í læri. Ekki voru nein færi til hálfleiks en stuðningsmenn Liverpool vildu að Tim Cahill fengi rautt spjald fyrir að setja olnbogann framan í Xabi Alonso í skallaeinvígi. Steven Pienaar hefði svo getað litið rautt eftir gróft brot en hann var aðeins bókaður.

Baráttan hélt áfram eftir leikhlé. Á 61. mínútu fékk Liverpool mjög gott færi. Xabi sendi þá frábæra sendingu inn á Albert Riera sem komst frír inn á teig vinstra megin en Tim Howard bjargaði með frábæru úthlaupi. Tíu mínútum seinna fékk Everton loks færi. Tim Cahill sendi inn á vítateiginn á Leon Osman. Hann þrumaði að marki en boltinn small í stönginni. Á 76. mínútu sneri Everton vörn í sókn og Joleon Lescott komst fram á miðjunni. Við miðlínuna braut Lucas Leiva klaufalega og algerlega óþarflega á honum og fékk að líta gult spjald í annað sinn og svo rautt. Brasilíumaðurinn fékk fyrra gula spjaldið fyrir litlar sakir en þetta var réttlætanlegt og enn einu sinni gerir Lucas sig sekan um klaufaleg og dýrkeypt mistök. Þessi áttu eftir að kosta sitt. Eftir þetta færðu Bláliðar sig upp á skaftið og Liverpool lagðist að mestu í vörn. Ekki sköpuðust nein færi til leiksloka og því varð að framlengja.

Everton náði, manni fleiri, skiljanlega undirtökum í framlengingunni og snemma í henni átti Leon hörkuskot sem Jose Reina varði frábærlega. Hann náði þó ekki að halda boltanum en hann var eldsnöggur á fætur og varði í horn frá Dan Gosling sem náði frákastinu. Eftir hornið skallaði Tim rétt framhjá. Everton sótti áfram en vörn leikmenn Liverpool vörðust vel og Jose var öruggur í markinu. Allt stefndi í framlengingu þar til Everton skoraði tveimur mínútum fyrir lok framlengingar. Tveir varamenn Everton áttu markið. Andy van der Meyde sendi fyrir á Dan sem fékk boltann vinstra megin í teignum. Varnarmenn Liverpool náðu ekki að trufla hann og hann náði að stýra boltanum út í hornið fjær án þess að Jose kæmi nokkrum vörnum við. Boltinn fór af varnarmanni og í markið. Bláliðar trylltust af fögnuði og ekki varð hann minni í leikslok. Þeir Rauðu urðu að viðurkenna ósigur og nú má liðið ekki brotna heldur einbeita sér að þeim tveimur titlum sem enn er hægt að vinna. Þetta tap er sárt en menn verða að herða sig og berjast áfram.

Everton: Howard, Hibbert, Jagielka, Lescott, Baines, Osman, Fellaini (Gosling 52. mín.), Neville (Van der Meyde 106. mín.), Arteta, Pienaar (Rodwell 60. mín.) og Cahill. Ónotaðir varamenn: Nash, Yobo, Castillo og Jacobsen.

Mark Everton: Dan Gosling (118. mín.).

Gul spjöld: Tim Cahill, Steven Pienaar, Phil Neville, Mikel Arteta og Tony Hibbert.

Liverpool: Reina, Dossena, Carragher, Skrtel, Arbeloa, Kuyt, Alonso, Gerrard (Benayoun 16. mín.), Leiva, Riera (Mascherano 80. mín.) og Torres (Babel 101. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Hyypia, Agger og El Zhar.

Rautt spjald: Lucas Leiva (76. mín.).

Gul spjöld: Lucas Leiva og Xabi Alonso.

Áhorfendur á Goodison Park: 37.918.

Maður leiksins: Jamie Carragher barðist eins og ljón í vörninni og braut margar sóknir Everton á bak aftur. Hann er alveg ómetanlegur í leikjum sem þessum.

Rafael Benítez: Ég er mjög vonsvikinn yfir því að við séum úr leik í F.A. bikarnum. Vendipunkturinn var þegar okkar maður var rekinn af velli en ég ætla ekki að ræða það mál. Það var alveg hroðalegt að fá á sig mark eftir að skot breytti um stefnu af varnarmanni í lokin eftir að við höfðum barist eins og ljón með 10 menn inni á vellinum. Núna verðum við að einbeita okkur að Úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni og þar er að miklu að keppa.

Fróðleiksmolar: - Þetta var 111. leikur Liverpool og Everton í öllum keppnum. - Þetta var 23. leikur liðanna í F.A. bikarnum. - Líkt og þegar liðin mættust síðast í þessari keppni á leiktíðinni 1990/91 þurfti aukaleik. - Þá eins og nú hafði Everton betur í aukaleik, reyndar aukaleik númer tvö, á Goodison Park. - Þetta var fyrsta tap Liverpool frá því í nóvember. - Liverpool hafði leikið sextán leiki án taps.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan