| Grétar Magnússon

Nágrannastoltið keyrir okkur áfram

Brasilíski miðjumaðurinn Lucas segir að erlendu leikmennirnir hjá félaginu þurfi ekki neina sérstaka hvatningu fyrir leikina tvo gegn Everton.  Innfæddir leikmenn félagsins sjá til þess að allir skilji mikilvægi þess að tapa ekki.

Á mánudaginn eigast liðin við í deildinni og tæpri viku síðar, sunnudaginn 25. janúar mætast liðin í FA Bikarnum.  Lucas segir að allir leikmenn félagsins viti hvaða þýðingu nágrannaslagurinn hefur fyrir stuðningsmennina - og að þeir Steven Gerrard og Jamie Carragher sjái örugglega til þess að menn gleymi ekki mikilvægi þessa tveggja leikja.

,,Leikirnir við Everton eru alltaf risastórir," sagði Lucas í viðtali við opinbera heimasíðu félagsins.  ,,Undirbúningurinn fyrir nágrannaslagina er alltaf öðruvísi, sérstaklega þegar Stevie og Carra eru í kringum mann.  Maður sér það í andlitum þeirra hversu mikið þeir vilja vinna og það veitir okkur innblástur."

,,Við vitum hversu mikilvægir þessir leikir eru fyrir félagið og stuðningsmennina.  Við viljum halda okkur á toppnum í deildinni og viljum komast áfram í FA Bikarnum þannig að við þurfum ekki frekari hvatningar við.  Það er gott að báðir leikirnir eru á Anfield með stuðningsmennina þétt við bakið á okkur því það gefur okkur sjálfstraust, við verðum því að reyna að ganga úr skugga um að við sigrum."

,,Þessir leikir eru alltaf erfiðir og leikirnir eru öðruvísi.  Við náðum góðum sigri gegn Everton fyrr á tímabilinu þannig að við vitum hvað við þurfum að gera.  Þetta eru risastórir leikir og við verðum að vera tilbúnir."

Lucas á góðar minningar frá viðureign við Everton þegar hann kom inná sem varamaður, öllum að óvörum, fyrir Steven Gerrard undir lok leiks á Goodison Park í október 2007.  Staðan var 1-1 þegar hann kom inná á 72. mínútu.

Ákvörðunin var ekki svo slæm hjá Rafa Benítez því á lokamínútunum átti Lucas skot að marki sem Phil Neville varði með hendinni og því var vítaspyrna réttilega dæmd.  Dirk Kuyt skoraði úr vítaspyrnunni og tryggði Liverpool öll stigin.

,,Þetta hefði kannski verið aðeins betra ef skotið hjá mér hefði farið í markið en við unnum leikinn engu að síður sem var aðalatriðið.  Ég kom inná fyrir Stevie og allir voru undrandi á því en ég naut þess og við stóðum uppi sem sigurvegarar."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan