| Grétar Magnússon

Gerir líklega breytingar

Rafa Benítez segir það ansi líklegt að hann geri breytingar á liðinu í leiknum gegn PSV í Hollandi annað kvöld.  Liðið er öruggt áfram í 16-liða úrslitin en á enn möguleika á toppsætinu.

Nokkrir leikmenn eru tæpir vegna meiðsla eftir leikinn við Blackburn um helgina og vill Benítez nota menn með ferska fætur í leiknum á Phillips leikvanginum.

,,Það er erfitt að segja núna hverjir munu spila í Eindhoven, en það er ljóst að við munum gera þónokkrar breytingar," sagði hann.

,,En við munum líklega passa flesta eldri leikmennina vegna þess að það er alltaf hætta á meiðslum.  Leikmennirnir eru að spila mjög marga leiki um þessar mundir.  Kuyt, Carragher og Arbeloa hafa allir spilað marga leiki á þessu tímabili."

,,En við verðum að hafa fjóra uppalda leikmenn með í hópnum því þannig eru reglurnar, þetta gerir því málið ekki auðveldara.  Við getum auðvitað ekki notað ungu leikmennina sem eru ekki skráðir í leikmannahópinn fyrir þessa keppni, okkur eru því takmörk sett varðandi þær breytingar sem við viljum gera."

,,Lucas mun spila.  Fólk hefur verið að gagnrýna hann undanfarið en hann leggur hart að sér, hann er leikmaður með mikinn karakter sem mun verða okkur mjög mikilvægur."

Liverpool og Atletico Madrid hafa nú þegar tryggt sig áfram í riðlinum en öll fjögur liðin hafa samt að einhverju að keppa í lokaumferðinni.  PSV og Marseille berjast um þriðja sætið og hin tvö liðin um toppsætið.  Benítez veit af þessu og gerir sér grein fyrir hættunni sem stafar af leikmönnum PSV.

,,Það er mikið undir í leiknum sjálfum.  Það er enn mikilvægt fyrir PSV og Marseille að ná í stig til þess að komast í UEFA Cup," sagði stjórinn.

,,En það verður erfitt fyrir Marseille gegn Atletico vegna þess að síðarnefnda liðið er mjög hættulegt í skyndisóknum.  PSV þurfa líka að vinna, þannig að þeir munu gera okkur erfitt fyrir.  Þeir hafa gæðin, hraðann og svo eru þeir á heimavelli."

Hann bætti við:  ,,Það er erfitt að vita hvort við munum verða í toppsætinu eða ekki.  Við getum ekki mætt ensku liði í 16-liða úrslitum þannig að það fækkar þeim mögulegu liðum sem við getum mætt.  Ef við endum í toppsætinu getum við samt mætt liðum eins og Juventus og Real Madrid, það er líka mögulegt að við mætum Lyon eða Bayern Munchen þannig að það er erfitt að sjá hverjum við mætum næst."

,,Það besta er einfaldlega að hugsa um að vinna riðilinn því þá spilar maður seinni leikinn á heimavelli, það er okkur mjög mikilvægt."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan