Efsta sætinu haldið
Liverpool hélt efsta sætinu í deildinni með góðum 3:1 útisigri í Blackburn. Miðjumenn skoruðu öll mörk Liverpool. Öll efstu liðin unnu og því var sigurinn mjög mikilvægur.
Rafael Benítez kom á óvart í liðsvali sínu með því að setja Argentínumanninn unga Emiliano Insua í stöðu vinstri bakvarðar. Sú breyting átti eftir að koma vel út og þeir sem telja þann argentínska nógu góðan fengu staðfestingu á því. Líklega hefði verið hægt að spara kaup á vinstri bakverði í sumar! Það var fátt um færi framan af leik. Liverpool tók völdin en heimamenn, sem hafa átt erfitt uppdráttar að undanförnu, börðust af miklum krafti. Á 19. mínútu komst Yossi Benayoun inn á teiginn en Stephen Warnock, uppeldissonur Liverpool bjargaði með frábærri tæklingu fyrir miðju marki. Tíu mínútum síðar átti Steven Gerrard þversendingu á miðjum eigin vallarhelmingi. Sendingin var alveg misheppnuð og fór beint á Morten Gamst Pedersen. Norðmaðurinn lék aðeins nær markinu áður en hann þrumaði að marki. Jose Reina mátti hafa sig allan við þegar hann varði með því að slá boltann í þverslána. Boltinn hrökk út í teig og þar var málum bjargað. Á 38. mínútu fékk Blackburn aukaspyrnu nokkuð utan vítateigs. Morten reyndi aftur fyrir sér en Jose varði í horn. Stuttu fyrir leikhlé lagði Dirk Kuyt boltann vel fyrir Steven en hann skaut framhjá úr góðu færi við vítateiginn.
Liverpool náði betri tökum á leiknum eftir hálfleik. Á 57. mínútu sendi Emiliano Insua fyrir frá vinstri. Xabi Alonso fékk boltann í teignum og náði föstu skoti en Paul Robinson varði vel. Litlu síðar varði Paul aftur mjög vel og nú frá Steven. Paul hélt ekki boltanum og Yossi Benayoun náði frákastinu en hann náði ekki að koma boltanum í markið af stuttu færi enda færið þröngt. Bjargað var í horn. Á 69. mínútu sótti Liverpool upp hægra megin. Steven gaf fyrir á Dirk en sá hollenski hitti ekki boltann. Betur fór þó en á horfðist því boltinn hrökk út til Xabi Alonso sem skoraði með nákvæmu skoti án þess að Paul kæmi nokkrum vörnum við. Vel gert hjá Spánverjanum sem heldur áfram að spila eins og herforingi á miðjunni. Á 76. mínútu ógnuðu heimamenn marki Liverpool í fyrsta sinn í síðari hálfleik þegar Paragvæinn Roque Santa Cruz skallaði framhjá eftir fyrirgjöf frá hægri. Þremur mínútum síðar skoraði Liverpool aftur. Dirk sendi þá boltann úti til hægri á Yossi Benayoun. Ísraelsmaðurinn, sem lék mjög vel, lék inn í teiginn þar sem hann fór framhjá Stephen Warnock áður en hann skoraði með góðu skoti, frá markteigshorninu, neðst í hornið fjær. Frábært mark hjá Ísraelsmanninum sem þarna skoraði sitt fyrsta mark á leiktíðinni og hann fagnaði innilega. Allt stefni nú í öruggan sigur Liverpool en heimamenn höfðu ekki sagt sitt síðasta orð og minnkuðu muninn á 86. mínútu. Boltinn var sendur fyrir eftir hornspyrnu frá hægri. Í teignum var boltann framlengdur á Roque Santa Cruz og nú skallaði hann í markið við fjærstöngina. Allt í einu var von fyrir Paul Ince og hans menn en hún var endanlega slökkt á lokamínútunni. Liverpool náði þá skyndisókn. Boltinn var sendur fram á varamanninn Nabil El Zhar. Paul kom út úr markinu og bægði hættunni frá. Boltinn fór þó bara á annan varamann Albert Riera. Hann vissi að markið var autt en í stað þess að skjót sjálfur þá sendi hann á Steven Gerrard sem var í enn betra færi og fyrirliðinn skilaði boltanum af öryggi í markið frá vítateig. Sigurinn var nú endanlega í höfn og fyrsta sætið var varið allri aðsókn. Vel að verki staðið hjá toppliðinu sem lék betur en í síðustu leikjum.
Blackburn Rovers: Robinson, Ooijer, Samba, Nelsen, Warnock, Emerton, Andrews, Kerimoglu (Vogel 84. mín.), Pedersen (McCarthy 81. mín.), R. Santa Cruz og Derbyshire (Treacy 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Brown, Villanueva, Simpson og Fowler.
Mark Blackburn: Roque Santa Cruz (86. mín.).
Gul spjöld: Chris Andrews og Stephen Warnock.
Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Hyypia, Insua, Benayoun (Riera 87. mín.), Mascherano (Leiva 83. mín.), Alonso, Babel (El Zhar 64. mín.), Gerrard og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Dossena, Agger og Keane.
Mörk Liverpool: Xabi Alonso (69. mín.), Yossi Benayoun (79. mín.) og Steven Gerrard (90. mín.).
Gul spjöld: Ryan Babel og Alvaro Arbeloa.
Áhorfendur á Ewood Park: 26,920.
Maður leiksins: Xabi Alonso. Spænski Evrópumeistarinn lék mjög vel á miðjunni eins og hann hefur jafnan gert á þessari leiktíð. Hann barðist vel og skoraði mikilvægasta markið í leiknum sem lagði grunn að sigrinum. Sem betur fer fór Xabi hvergi í sumar því hann er búinn að vera einn besti leikmaður Liverpool á leiktíðinni!
Rafael Benítez: Við erum búnir að sýna að við getum fengist við pressu. Svona leikur getur verið erfiður en við vorum beinskeyttari en oft áður og það skipti sköpum. Sigurinn var góður þar sem nú styttist í jólatörnina. Við erum í góðri stöðu og þess vegna er mikilvægt að við spilum af sjálfstrausti.
Fróðleiksmolar: - Liverpool er í efsta sæti deildarinnar! - Þetta var 50. deildarsigur Liverpool gegn Blackburn. - Xabi Alonso skoraði annað mark sitt á leiktíðinni. -Yossi Benayoun skoraði sitt fyrsta mark á leiktíðinni. - Steven Gerrard skoraði níunda markið á leiktíðinni. - Robbie Fowler var meðal varamanna Blackburn en kom því miður ekki við sögu!
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
-
| Sf. Gutt
Steven syrgir Sven -
| Sf. Gutt
Harvey Elliott meiddur -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Leikjatilfærslur -
| Sf. Gutt
Fulltrúar Liverpool á EM -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Brighton og Liverpool – Leicester -
| Sf. Gutt
Nýr búningur kynntur -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Frábær úrslit! -
| Sf. Gutt
Merkileg tímamót!