| Birgir Jónsson

Diego vonast eftir byrjunarliðssæti

Diego Cavalieri vonast eftir tækifæri í byrjunarliðinu þegar Liverpool mætir Deildarbikarmeisturum Tottenham Hotspur á White Hart Lane í kvöld. Hann ætlar að sanna að hann sé verðugur staðgengill Pepe Reina.
Brasilíski markvörðurinn spilaði sinn fyrsta alvöru leik fyrir Liverpool í 2:1 sigri á Crewe Alexandra í þriðju umferð keppninnar og getur ekki beðið eftir því að fá tækifæri að nýju.

"Það var mjög góð tilfinning að spila þennan leik (gegn Crewe)", sagði Cavalieri í samtali við liverpoolfc.tv. "Þrátt fyrir að hafa spilað nokkra leiki á undirbúningsbúningstímabilinu var þetta minn fyrsti alvöru leikur og að spila fyrir framan stuðningsmenn okkar á Anfield var einstakt. Þetta var fyrsti leikur minn fyrir stórt evrópskt lið og minningin mun lifa í hjarta mínu það sem eftir er. Vonandi eignast ég fleiri slíkar minningar í framtíðinni. Anfield er frábær völlur. Stuðningsmennirnir lifa fyrir Liverpool og tilfinningin að vita að þeir standa alltaf við bakið á þér er frábær.
Ég nýt lífsins hjá Liverpool og tímabilið hefur byrjað mjög vel. Við stöndum okkur vel, bæði í Úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni, og vonandi heldur það áfram það sem eftir lifir keppnistímabilsins. Andrúmsloftið í búningsherberginu er þannig að ef við höldum áfram að vinna jafn vel og við höfum gert þá náum við markmiðum okkar í enda leiktíðar, sem er að vinna bikara"

Á White Hart Lane í kvöld mætir Cavalieri góðvini sínum Heurelho Gomes, aðalmarkverði Spurs.
"Ég þekki Gomes frá því í Brasilíu og það verður gaman að sjá hann aftur", sagði Cavalieri. "Það er alltaf gaman að sjá gamla vini, og hann er mjög góður markvörður. En hann er einnig frábær persónuleiki og góður vinur."

Þessi fyrrum markvörður Palmeiras hefur spilað á gamla Wembley, sem stendur ekki lengur, en hann stykki samt sem áður á tækifærið að kynnast því að spila á Nýja Wembley með Liverpool, sem er aðeins einu skrefi frá átta-liða úrslitunum.
"Það væri dásamlegt ef við kæmumst á Wembley á þessu tímabili. Ég hef áður spilað vináttuleik gegn Englendingum á gamla Wembley, en ekki á þeim nýja. Það væri frábært fyrir alla leikmennina ef við næðum að komast alla leið í úrslitaleikinn og vinna hann."

Cavalieri stendur frammi fyrir því óöfundsverða hlutskipti að reyna að komast fram fyrir einn besta markvörð heims Pepe Reina, í goggunarröðinni. Þeir deila herbergi á ferðalögum í útileiki og ber Diego mikla virðingu fyrir Spánverjanum.
"Pepe er mjög indæll náungi og þegar ég kom fyrst til liðsins bauð hann mig velkominn. Ég dáist að honum og hann ber einnig virðingu fyrir mér. Fyrir mér er Pepe einn sá besti í heiminum. Hann er ennþá ungur en hefur mikla reynslu. Einbeiting hans og staðsetningar eru frábærar og ég er mjög ánægður með að fá tækifærið til að vinna með honum og reyna að bæta mig. Ég veit hvað ég get sem markvörður og ef ég legg mig allan fram vona ég að einn daginn fái ég tækifæri hérna. Ég vissi þegar ég kom hversu erfitt verkefni það yrði að keppa við Pepe."

Með þann möguleika í stöðunni að leikir í Deildarbikarkeppninni geta farið í vítaspyrnukeppni, þar sem leikir eru ekki endurteknir við jafntefli heldur leikið til þrautar, er ekki hægt að komast hjá því að tala um vítaspyrnur þegar kemur að Reina. Cavalieri viðurkennir að hann gæti beðið Pepe um eitt eða tvö ráð ef svo færi að úrslitin yrðu útkljáð í vítaspyrnukeppni.
 "Við skiptumst á upplýsingum fyrir leiki", sagði hann. "Við höfum einnig góðan markvarðaþjálfara, Xavi Valero, sem veitir okkur upplýsingar um mótherjann."
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan